Drög að athugasemdum vegna matsskýrslu um Kárahnjúkavirkjun Hjörleifur Guttormsson
12. júní 2001
Efni: Athugasemdir við matsskýrslu Landsvirkjunar um KárahnjúkavirkjunUndirritaður leyfir sér hér með að gera eftirfarandi athugasemdir við málið. Efnisyfirlit [smellið á viðkomandi atriði til skoðunar]:
Fylgiskjöl: III. Athugasemdir Hjörleifs Guttormssonar 23. júlí 2000 við drög Landsvirkjunar að matsáætlun. 1. Veikleikar í matsskýrslu og gagnaöflun Þótt margvíslegra gagna hafi verið aflað á skömmum tíma er yfirleitt um augnabliksmælingar (punktathuganir) að ræða. Mikið skortir á vistfræðilegt samhengi við túlkun og framsetningu í matsskýrslunni. Í henni er engan veginn unnið eins og hægt hefði verið úr þeim gögnum sem aflað hefur verið. Þetta er stór og aðfinnsluverður galli á matsskýrslu Landsvirkjunar. Framsetning efnis í matsskýrslu er afar óaðgengilegt og sundurlaust og erfitt fyrir þá sem ekki hafa fyrirfram gott landfræðilegt yfirlit yfir virkjunarsvæðið að sjá áhrif framkvæmdanna í samhengi. Óneitanlega vaknar sú spurning hvort þetta sé gert að yfirlögðu ráði til að rugla lesendur í ríminu. Fletta þarf fram og aftur í skýrslunni til að ráða í samhengi framkvæmda og umhverfisáhrif af þeirra völdum.Engin atriðaorðaskrá fylgir skýrslunni með tilvísun í blaðsíðutal, en það hefði auðveldað lestur hennar. Athygli vekur að rannsóknagögn og upplýsingar um líklega áhrif framkvæmda eru almennt lakari eftir því sem austar dregur á virkjunarsvæðið. Þannig vantar mikið á að fullnægjandi matsgrunnur sé til staðar varðandi veitu frá Jökulsá í Fljótsdal og af Hraunum. Veikleika og stórar eyður er að finna í rannsóknum að baki matsskýrslunni og víða gætir í henni tilhneiginga til að gera mun minna úr áhrifum og áhættu af framkvæmdinni en efni standa til og lesa má út úr meðfylgjandi rannsóknagögnum. Framkomin gögn hefðu þó átt að gefa Landsvirkjun margfalt tilefni til að hverfa frá umræddum virkjunaráformunum og hætta við að leggja framkvæmdina í fomlegt mat. 2. Gífurleg óafturkræf umhverfisspjöll Eins og matsskýrsla Landsvirkjunar ber með sér hlytust af byggingu Kárahnjúkavirkjunar gífurleg umhverfisspjöll, margfalt meiri en af nokkurri framkvæmd sem til álita hefur komið að ráðast í hérlendis fram til þessa. Virkjunarhugmyndin er tröllaukin jafnt á íslenskan sem alþjóðlegan mælikvarða og myndi hafa stórfelld neikvæð áhrif á Fljótsdalshérað og hálendið inn af því allt til Vatnajökuls. Nær öllu vatni sem til næst á hálendinu ofan við um 550 m hæðarlínu á 50 km belti austur-vestur frá vatnaskilum Sauðár og Kverkár í vestri austur á Hraun er fyrirhugað að safna í ein jarðgöng og leiða að stöðvarhúsi og þaðan sem vatnið berst í Lagarfljót. Veita á saman tveimur stórum jökulfljótum, og veldur það eitt út af fyrir sig margháttuðum vandamálum frá efstu mörkum framkvæmda allt til ósa, meðal annars hættu og víðtækri röskun af völdum flóða og grunnvatnsbreytinga. Auk alls þess mikla tjóns sem virkjunin hefði á náttúru Héraðsins og hálendisins norðan Vatnajökuls er kjarni hennar, Hálslón, ósjálfbær framkvæmd þar eð með fyllingu þess af framburði myndu skapast óafturkræfar aðstæður sem hvorki náttúruleg ferli né mannlegur máttur réðu við að færa til fyrra horfs. Í lóninu myndu tapast jarðsögulegar minjar sem haft gætu alþjóðlega þýðingu og út frá ströndum þess skapast áfokshætta sem stórlega er vanmetin í skýrslunni og sem ógna myndi gróðri á stórum hluta Vesturöræfa. Yfir 100 fossar, sumir með þeim stærstu og mikilfenglegustu hérlendis, skerðast eða hverfa ef virkjunin yrði að veruleika. Þá yrðu áhrif á vatnalíf á svæðinu mikil og tilfinnanleg en verndargildi þess er vanmetið í matsskýrslu. Varðar það bæði stöðuvötn, dragár og og jökulár þar á meðal Lagarfljót sem yrði mun lífminna og korgugra og litur þess breyttist. Skýrslunni lýkur með eftirfarandi orðum: “Niðurstaða Landsvirkjunar er að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Framkvæmdaraðili óskar því eftir því að fallist verði á framkvæmdina.” Þessi niðurstaða og ósk Landsvirkjunar um að fallist verði á framkvæmdina er fjarri öllu lagi og í andstöðu við framlögð gögn. Þau stórfelldu neikvæðu áhrif á náttúru heils landshluta sem leiða myndu af Kárahnjúkavirkjun verða ekki réttlætt með skírskotan til meints efnahagslegs ávinnings af sölu orku frá virkjuninni til framkvæmda sem ekki eru heldur hluti af fyrirliggjandi mati. Sjálfur hefur framkvæmdaraðili í matsskýrslu sinni óskað eftir að virkjunin verði metin óháð markaðssetningu orkunnar eins og nánar er vikið að hér á eftir sem og að einstökum þáttum eftir því sem tilefni er til. 3. Landsvirkjun vill mat óháð orkukaupanda Í matsskýrslu sinni óskar Landsvirkjun eftir því “...að þær niðurstöður sem fengist hafa við undirbúning virkjunarinnar, eins og þær eru settar fram í þessari matsskýrslu, haldi gildi sínu óháð markaðssetningu orkunnar og því hvort áform þessa tiltekna orkukaupanda um byggingu álvers í Reyðarfirði ganga eftir.” (bls. 18) Af þessu leiðir að meta verður Kárahnjúkavirkjun sem framkvæmd á hennar eigin forsendum og óheimilt er að blanda öðrum framkvæmdum og afleiðingum þeirra inn í mat á virkjuninni, sbr. m.a. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og úrskurð umhverfisráðherra frá 20. júní 1996 vegna mats á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga. Ekki fær staðist að blanda áhrifum af álverksmiðju eða öðrum tilteknum orkukaupanda inn í málsmeðferðina, eins og þó er gert í matsskýrslu, sbr. kafla 10.4 (Samfélag, bls. 141) og kafla 10.5 (Efnahagur) þar sem vísað er til Noral-verkefnisins, bæði í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri og Þjóðhagsstofnunar. Líta ber á í þessu samhengi það sem Landsvirkjun segir á bls. 142 í matsskýrslu: “Einstök atriði þeirrar viðskiptalegu ákvörðunar, sem stjórn Landsvirkjunar mun þurfa að taka vegna Kárahnjúkavirkjunar, eru að öðru leyti ekki innan ramma þess verkefnis sem hér er til umfjöllunar, þ.e. mats á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum.” Ofangreind atriði, svo mótsagnakennt sem þau eru fram sett í matsskýrslu, varða með beinum hætti niðurstöðu Landsvirkjunar sem framkvæmdaraðila þar sem segir:
“Niðurstaða Landsvirkjunar er að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir. Framkvæmdaraðili óskar því eftir því að fallist verði á framkvæmdina.” Varðandi meintan “efnahagslega[n] ávinning” af Kárahnjúkavirkjun er það sem fram er reitt í matsskýrslunni í véfréttastíl og upplýsingum er varða grunnforsendur haldið í þagnargildi, sbr. það sem fram kemur á bls.142 í kafla um fjárfestingu framkvæmdaraðila (10.5.2). Með vísan til þessa og ákvæða laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. eftirfarandi, fær ekki staðist sú uppsetning sem sett er fram myndrænt á bls. 18 í matsskýrslu (Mynd 1.3 Arðsemi Kárahnjúkavirkjunar) né heldur vangavetur í texta þar sem segir m.a.: “Í hnotskurn þarf ákvörðun um hvort Kárahnjúkavirkjun sé réttlætanleg í þjóðhagslegu tilliti að byggjast á mati á því hvort samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur vegi þyngra en náttúrufarsleg umhverfisáhrif.” Þessi málsmeðferð Landsvirkjunar stenst ekki, ekki síst þar eð hún stangast á við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, meðal annars ákvæði 1. greinar svohljóðandi: Markmið laga þessara er: a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, b. Að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmdar sem áhrif hefur á umhverfið, c. Að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almennningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.” Auk þessa er ofangreind uppsetning Landsvirkjunar á málinu í andstöðu við þá meginósk fyrirtækisins sem framkvæmdaraðila að litið sé á niðurstöðu hans í matsskýrslu óháð markaðssetningu orkunnar. 4. Rammaáætlun og Kárahnjúkavirkjun Á árinu 1999 setti iðnaðarráðuneytið í samvinnu við umhverfisráðuneytið af stað verkefni sem gengur undir heitinu Rammaáætlun og hefur sem einkunnarorð “Maður – Nýting – Náttúra”. Tilgangi og markmiði verkefnisins er þannig lýst á heimasíðu þess undir fyrirsögninni Tilgangur og markmið: “Markmið Rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, bæði vatnsafl og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, um leið verða skilgreind, metin og flokkuð áhrif virkjunarkosta á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta gæði þessa lands. Þannig verður lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.” Fjórir faghópar vinna að verkefninu undir sérstakri stjórn og er formaður hennar Sveinbjörn Björnsson jarðeðlisfræðingur. Fljótlega komu upp spurningar um stöðu hugmynda um Kárahnjúkavirkjun með tilliti til Rammaáætlunar og af því tilefni sendi verkefnisstjórnin fyrirspurnir til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Svör ráðherranna dagsett 26. maí 2000 (sjá fylgiskjal I) eru eindregin og á þá lund að Rammaáætlunin eigi að taka til Kárahnjúkavirkjunar eins og annarra virkjana sem ekki hafa hlotið leyfi ráðherra. Af hálfu verkefnisstjórnar liggur fyrir að reynt verði að gefa út bráðabirgðaálit um tólf virkjunarkosti, þar á meðal Kárahnjúkavirkjun, fyrir árslok 2001, en endanlegrar álitsgerðar verkefnisstjórnar sé ekki að vænta fyrr en undir árslok 2002 eða á árinu 2003. Þannig blasir við að álit verkefnisstjórnar Rammaáætlunar varðandi umrædda virkjunarkosti mun ekki liggja fyrir samhliða yfirstandandi mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar nema gerð verði sú breyting á matsferlinu hvað tíma áhrærir að beðið verði niðurstöðu úr Rammaáætlun. Hafa verður í huga að sömu stjórnvöld og standa að Rammaáætlun, iðnaðarráðherra í samvinnu við umhverfisráðherra, bera ábyrgð á framkvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum. Einnig ber að hafa í huga að yfirlýst markmið með Rammaályktun er að með henni verði “…lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.” Undirritaður telur að af hálfu Landsvirkjunar sem framkvæmdaraðila hafi það hafa verið mikil mistök að ganga ekki út frá því að áður en hafist væri handa um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar lægi fyrir niðurstaða úr vinnu á vegum Rammaáætlunar. Athugasemd þar að lútandi sendi ég Skipulagsstofnun og Landsvirkjun í bréfi dags. 23. júní 2000 (fylgiskjal III). Skipulagsstofnun segir að vísu í niðurstöðu sinni um matsáætlun 16. ágúst 2000 að brýnt sé að fyrir liggi ítarlegur samanburður allra raunhæfra kosta áður en ákvörðun er tekin um framkvæmdir og að það myndi auðvelda mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar ef niðurstöður úr Rammaáætlun lægju fyrir við slíkt mat. Undirritaður telur eðlilegast úr því sem komið er að framkvæmdaraðili fresti því að láta skýrslu sína um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar ganga endanlega til mats hjá Skipulagsstofnun uns fyrir liggur niðurstaða úr vinnu verkefnisstjórnar Rammaáætlunar og umfjöllun stjórnvalda um hana. Að öðrum kosti hjóti Skipulagsstofnun að hafna matsskýrslunni þegar af þeirri ástæðu að niðurstaða úr umræddu verkefni Rammaáætlunar liggi ekki fyrir. 5. Alltof þröng athugun á virkjunarkostum Í matsskýrslu sinni fjallar Landsvirkjun í 8. kafla um virkjunarkosti. Velur fyrirtækið að bera saman aðeins þrjá kosti sem allir varða virkjun jökulánna Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal. Fram kemur hins vegar í 8.1 í matsáætlun að verkefnisstjórn um gerð Rammaáætlunar “…vinnur að margháttuðum rannsóknum á öðrum kostum en þeim sem orkufyrirtæki hafa sérstaklega til skoðunar nú vegna mats á umhverfisáhrifum. Verkefnisstjórn um Rammaáætlun kannar meðal annars aðra kosti en Kárahnjúkavirkjun, t.d. virkjun Jökulsár á Fjöllum, virkjun jökulvatna í Skagafirði, virkjanir í Skjálfandafljóti, virkjanir í Síðuvötnum og frekari virkjanir á Þjórsársvæðinu og á Vestfjörðum auk ýmissa hugmynda um jarðvarmavirkjanir. Margir þessara kosta hafa verið lítið rannsakaðir til þessa.” (bls. 69 í matsskýrslu) Telja verður að Landsvirkjun hafi í yfirferð sinni á virkjunarkostum (kafli 8) litið alltof þröngt yfir sviðið með tilliti til orkuöflunar og alls ekki brugðist við ákvæðum í matsáætlun á fullnægjandi hátt. Málsmeðferð fyrirtækisins í matsskýrslu bendir til að vitandi vits hafi hringurinn verið þrengdur um þá virkjunarhugmynd sem fyrirtækið sem framkvæmdaraðili stefndi að frá byrjun. Þannig hefur enginn marktækur samanburður verið gerður á orkuöflun til dæmis frá Skjálfandafljóti og jökulvötnum í Skagafirði, né heldur frá jarðvarmavirkjunum. Samanburðarathugun á Kárahnjúkavirkjun annars vegar og þrepavirkjun Jökulsár á Dal í eigin farvegi er ófullkomin og engan veginn sannfærandi. Þá er ekki fjallað um þann möguleika að byggja þrepavirkjanir í Jökulsá á Dal án þess að virkja Jökulsá í Fljótsdal og afla þess í stað frekari orku annars staðar frá. Sérkennileg niðurstaða kemur fram í grein 8.5.3 í matsskýrslu: “Niðurstöður samanburðar á virkjunarkostum” þar sem segir: “Niðurstaða þessa samanburðar er því sú að kostur 1, Kárahnjúkavirkjun, hafi viðunandi umhverfisáhrif. Hann var því valinn virkjunarkostur Landsvirkjunar.” (Leturbr. HG). Undirritaður telur einsýnt að þó ekki væri nema vegna þröngrar nálgunar framkvæmdaraðila á virkjunarkostum beri að hafna matsskýrslu Landsvirkjunar. 6. Önnur landnotkun – þjóðgarður Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsáætlun frá 16. ágúst 2000 segir m.a.: “Komið hafa fram ábendingar um að í matsskýrslu þurfi að fjalla um þann kost að virkja ekki og í stað þess verði sofnaður þjóðgarður á svæðinu. Skipulagsstofnun telur að við mat á null-losti þurfi að gera grein fyrir samanburði umhverfisáhrifa við aðra kosti á þá umhverfisþætti sem helst hafa gildi í umræðu um þjóðgarð á svæðinu, s.s. á landslagsheildir, ósnortin svæði, einstök búsvæði og útivist og ferðamennsku. Skipulagsstofnun telur hins vegar ekki eðlilegt að gera þá kröfu til framkvæmdaraðila að hann geri beinan samanburð á virkjun og þjóðgarði á svæðinu. Hinsvegar þarf í matsskýrslu að gera grein fyrir hugmyndum um stofnun Snæfellsþjóðgarðs og stöðu þeirra nú.” Hugmyndin um stofnun þjóðgarðs á svæðinu í stað virkjunar varðar með beinum hætti svonefndan 0-kost, það er landnýtingu á umræddu svæði án virkjunar. – Í matsskýrslu Landsvirkjunar er í grein 8.7 “Kostir varðandi framtíðarnýtingu hálendisins norðan Vatnajökuls” fjallað á allsendis ófullnægjandi hátt um aðra nýtingarkosti, þar á meðal um þjóðgarð (8.7.5 og 8.8). Þar stendur m.a. undir Núverandi nýting (8.7.2) eftirfarandi staðhæfing: “*Áframhaldandi stöðnun eða samdráttur í efnahags- og samfélagsþróun á Austurlandi svo fremi að ekki komi til ný atvinnustarfsemi”. Sama stef er endurtekið nær orðrétt í grein 8.7.5. Síðan segir m.a. í grein 8.8 (Hugmyndir um þjóðgarð): “Virkjanir og þjóðgarðar eru starfræktir samhliða víða um heim. Bygging Kárahnjúkavirkjunar þarf því ekki að koma í veg fyrir stofnun Snæfells- og/eða Vatnajökulsþjóðgarðs. Í [V21] er til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð Kárahnjúkavirkjun geti samrýmst Vatnajökulsþjóðgarði á forsendum mismikillar svæðisverndar og afmarkaðra vistkerfa. Það sama á við ef stofnað verður til Snæfellsþjóðgarðs eða það landsvæði sameinað Vatnajökulsþjóðgarði.” Engan þarf að undra þótt framkvæmdaraðili reyni að sannfæra menn um að bæði megi koma fyrir virkjun og þjóðgarði á sama svæði, en þeir sem af alvöru skoða þann kost átta sig væntanlega á hversu óraunsæjar og fjarri lagi slíkar hugmyndir eru. Í þessu samhengi er mikilvægt að við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar ber samkvæmt sérstökum stjórnvaldstilmælum í framhaldi af ósk 9 umhverfisverndarfélaga sumarið 2000 að meta gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð í stað þess að byggja virkjun á svæðinu. Iðnaðarráðherra beindi þeim tilmælum til verkefnisstjórnar Rammaáætlunar haustið 2000 að hún tæki að sér þetta verkefni og féllst verkefnisstjórnin á það. Setti verkefnisstjórn Rammáætlunar af þessu tilefni á fót sérstaka umsjónarnefnd til að stýra verkefninu undir formennsku Árna Bragasonar, forstjóra Náttúruverndar ríkisins. Staðfesti iðnaðarráðherra tillögu verkefnisstjórnar um fyrirkomulag þessarar athugunar með bréfi 7. desember 2000. Óhjákvæmilegt er að niðurstaða þessarar úttektar komi til umfjöllunar Skipulagsstofnunar sem hluti af mati hennar á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Til glöggvunar eru í fylgiskjali II tilfærð atriði úr fundargerðum verkefnissjórnar Rammaáætlunar sem varða mat á nýtingu svæðisins fyrir þjóðgarð. Til viðbótar því sem þar greinir er rétt að upplýsa að í lok maí 2001 var þjóðgarðsverkefnið kynnt fyrir verkefnisstjórn Rammaáætlunar og mun nú vera komið í hendur Skipulagsstofnunar. Tillaga að nýtingu landsins norðan Vatnajökuls undir þjóðgarð á samkvæmt ofansögðu að vera fullgildur hluti af mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og hlýtur Skipulagsstofnun í málsmeðferð sinni að tryggja að sú verði raunin. 7. Gengið óhóflega á takmarkaðar orkulindir Með Kárahnjúkavirkjun og öðrum ráðgerðum virkjunum í þágu stóriðju á næstu 10 árum stefna Landsvirkjun og stjórnvöld að því að ráðstafa til stóriðju orku sem nemur um 12 teravattstundum [Reyðarál, stækkun Norðuráls, stækkun Ísals, magnesíumverksmiðja, stækkun járnbendiverksmiðju á Grundartanga]. Þar af eiga að koma frá Kárahnjúkavirkjun um 5 teravattstundir á ári. Landsvirkjun hefur lengi gengið út frá að samtals megi áætla að til raforkuvinnslu hérlendis séu nýtanlegar um 50 teravattstundir, 30 teravattstundir fengnar með vatnsafli og 20 teravatnsstundir með jarðvarma. Draga verður frá stóran hluta af þessari áætluðu orku þar eð hún telst ekki hagkvæm til nýtingar eða verður ekki nýtanleg að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Hversu stórt hlutfall hér er um að ræða ætti að skýrast þegar fyrir liggur niðurstaða af vinnu að Rammaáætlun, sbr. lið 5 hér á undan. Á meðan sú niðurstaða ekki liggur fyrir er óverjandi að ætla að ráðast í Kárahnjúkavirkjun og aðrar þær virkjanir fyrir stóriðjumarkað, sem sýnilega er gert ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda og Landsvirkjunar. Með hliðsjón af ofansögðu má hugsa sér að um helmingur af umræddri nýtanlegri raforku (virkjanakostum) eða samtals 25 teravattstundir verði í reynd til ráðstöfunar með tilliti til hagkvæmni og umhverfissjónarmiða. Þar af hafa þegar verið nýttar um 8 teravattstundir. Sé miðað við að almenn raforkunotkun vaxi um 2% á ári (viðmiðun orkuspárnefndar) næstu hálfa öld er um að ræða orku sem svarar til 6 teravattstunda á ári. Litið til þess yfirlýsta markmiðs stjórnvalda að innlend raforkuframleiðsla útrými á næstu áratugum þörf fyrir innflutt jarðefnaeldsneyti þarf í því skyni að gera ráð fyrir 10-20 teravattstundum miðað við eldsneytisnotkun Íslendinga 1999 [Heimild: Minnisblað frá Orkustofnun. Fylgiskjal með þingsályktunartillögu um Sjálfbæra orkustefnu. Mál 274, þingskjal 302 á 126. löggjafarþingi]. Lægri talan (10 teravattstundir) miðast við að vetni sé notað eingöngu í efnarafölum, en hærri talan (20 teravattstundir) við að vetni sé brennt í hefðbundnum brennsluvélum. Af þessu má draga þá ályktun að fullkomið óráð sé að ráðstafa meiri raforku en orðið er til hefðbundins orkufreks iðnaðar. Þessi atriði og fleiri varðandi nýtingu orkulinda landsins munu skýrast þegar fyrir liggur niðurstaða af vinnu að Rammaáætlun, sbr. lið 5 hér á undan. Á meðan sú niðurstaða ekki liggur fyrir er óverjandi að ætla að ráðast í Kárahnjúkavirkjun eða aðrar þær virkjanir fyrir stóriðjumarkað, sem sýnilega er gert ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda og Landsvirkjunar. Þessi viðhorf styðja þá niðurstöðu að velja beri 0-kost, þ.e. enga Kárahnjúkavirkjun eins og hún er kynnt í fyrirliggjandi matsskýrslu. 8. Losun gróðurhúsalofts og samhengið við loftslagssamninginn Losun gróðurhúsalofttegunda og skert binding CO2 vegna Kárahnjúkavirkjunar eru samkvæmt matsskýrslu talin vera ígildi 500 – 5000 tonna CO2 á ári. Losun CO2 á byggingartíma virkjunarinnar er metin nema 280.000 tonnum. Nokkur óvissa er talin ríkja um losun metans sem hækkað gæti fyrri tölurnar. Þótt þessi losun sé íþyngjandi fyrir Ísland sem aðila að loftslagssamningnum er hún þó smáræði hjá þeirri losun sem hljótast myndi af losun frá stóriðjunotenda umræddrar raforku. Sé gert ráð fyrir að raforkan sé seld til 420 þúsund tonna álverksmiðju má gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá henni nemi a.m.k. 770 þúsund tonnum í koldíoxíðs-ígildum. Það væri meiri losun en barst frá öllum fiskiskipaflota Íslendinga á árinu 1990, en það ár er viðmiðunarár í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að. Íslensk stjórnvöld eru að reyna að fá stóriðju hérlendis undanskilda ákvæðum Kýótó-bókunarinnar við loftslagssamninginn. Það er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Talsmenn stóriðjuframkvæmda hérlendis klifa oft á því til réttlætingar á losun gróðurhúsalofttegunda af völdum stóriðju á Íslandi að miklu betra sé að framleiða ál og aðrar afurðir þungaiðnaðar hér með vatnsafli en annars staðar þar sem notað sé jarðefnaeldsneyti til framleiðslunnar. Þótt auðvelt sé að sýna tölulega útreikninga hvað þetta varðar er um blekkingu að ræða í samhengi loftslagssamningsins. Loftslagssamningurinn sem Ísland er aðili að gerir ráð fyrir að hver aðili að samningnum hamli gegn losun gróðurhúsalofttegunda innan sinnar efnahagslögsögu. Með Kyótó-bókuninni er gert ráð fyrir að ríki taki á sig lagalegar skuldbindingar í þessum efnum. Hvorki loftslagssamningurinn eða bókunin byggir á flokkun eftir framleiðslugreinum eða öðrum uppsprettum losunar á heimsvísu heldur er hverjum samningsaðila í sjálfsvald sett, hvernig hann nær settu marki. Ríki sem taka á sig skuldbindingar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda munu væntanlega nýta það svigrúm sem þeim er ætlað upp að umsömdum mörkum, ef ekki með þungaiðnaði þá með annarri starfsemi. Þar er af nógu að taka, hvort sem er á sviði samgangna eða annarra þátta sem valda losun gróðurhúsalofttegunda. Heildarlosun út í andrúmsloftið á hverjum tíma mun því ekki ráðast af orkuframleiðslu til einstakra afmarkaðra framleiðsluþátta eins og áliðnaðar þótt ekkert sé á móti því að hafa uppi slíkan samanburð í eðlilegu samhengi. Með áframhaldandi raforkusölu til orkufreks iðnaðar hérlendis eins og Landsvirkjun og stjórnvöld stefna að með Kárahnjúkavirkjun og fleiri virkjunum er hætt við að Ísland sé að útiloka sig frá þátttöku í viðleitni þjóða til að hamla gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Við mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, sem yfirlýst er að selja eigi orkuna frá til áliðnaðar, ber að sjálfsögðu að líta á skuldbindingar Íslands samkvæmt Rammasamningnum um loftslagsbreytingar sem Ísland staðfesti 1994 og þeirrar yfirlýstu stefnu ríkisstjórinnar að Ísland stefni að aðild að Kyótó-bókuninni við loftslagssamninginn. Um þennan þátt málsins er ekkert fjallað í fyrirliggjandi matsáætlun og nægir sú staðreynd ein og sér til að vísa beri matsskýrslunni frá. 9. Fórnarkostnaður verði metinn Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um matsáætlun dags. 16. ágúst 2000 segir m.a.: “Skipulagsstofnun leggur áhersluGera verður kröfu til þess að metinn verði fórnarkostnaður af umhverfisspjöllum sem hlytust af Kárahnjúkavirkjun, sbr. meðal annars athugasemdir undirritaðs við matsáætlun dags. 23. júní 2000 (fylgiskjal III). Jafnframt er eðlilegt að kanna hvaða árlegt endurgjald eða leigu framkvæmdaraðili er reiðubúinn að greiða fyrir afnot af virkjunarsvæðinu á áætluðum líftíma virkjunarinnar. á að í matsskýrslu verði gerð ítarleg grein fyrir umhverfisáhrifum virkjunar á einstaka umhverfisþætti, s.s. náttúrufarsþætti eins og landslagsheildir, búsvæði og verndaðar náttúruminjar og byggða- og mannlífsþætti eins og byggð og atvinnulíf, búskap, útivist og ferðamennsku. Einnig að skýr samanburður á áhrifum mismunandi kosta á þessa þætti sé kynntur í matsskýrslu. Skipulagsstofnun telur hins vegar að ekki sé tilefni til þess að gera kröfu um að í matsskýrslu sé sérstaklega sett fram fjárhagslegt mat á verðmæti svæða og áhrifum á þau. Það sé hinsvegar eðlilegt að slíkt mat sé lagt til grundvallar við þjóðhagslegt mat á áhrifum framkvæmdanna í matsskýrslu.” Hvorki í matsskýrslu né í fylgiskýrslu Þjóðhagsstofnunar [S43] er að finna fjárhagslegt mat á fórnarkostnaði framkvæmdanna. Í greinargerð sem fylgir matsskýrslunni [V24] segir: “Hjá Landsvirkjun var tekið til athugunar að fella efnahagslegt mat inn í umhverfismatið, en komist að þeirri niðurstöðu að slíkt mat væri utan við svið umhverfismatsins.” Þetta viðhorf er endurtekið í matsskýrslu (10.5.2) og bls. 142 þar sem segir: “Framkvæmdaraðili telur það heldur ekki hlutverk sitt að standa fyrir hagfræðilegri rannsókn á fjárhagslegu mati, frá umhverfislegu sjónarmiði, á þeim breytingum sem yrðu á náttúru virkjunarsvæðisins eða að “meta efnahagslegt gildi óbyggðra víðerna” (sjá kafla 7.1)” Vöntun á mati á fórnarkostnaði vegna fyrirhugaðrar virkjunar er í beinni andstöðu við tilvitnaða niðurstöðu Skipulagsstofnunar í matsáætlun. Margir aðilar hafa að undanförnu í umfjöllun um matsskýrlu um Kárahnjúkavirkjun bent á hróplega vöntun á viðleitni til að meta fórnarkostnað af virkjuninni. [Dr. Ívar Jónsson, dósent við Viðskiptaháskólann á Bifröst og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands] Þórólfur Matthíason hagfræðingur hefur á vettvangi Landverndar og Umhverfissamtaka Íslands nefnt nýlega að hugsanlegt leigugjald Landsvirkjunar vegna virkjunar á víðernunum norðan Vatnajökuls gæti að réttu numið 300-600 miljónum króna á ári. 10. Samfélagsáhrif Kárahnjúkavirkjunar Andstætt því sem segir í matsskýrslu (10.4) um að framkvæmdir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar verði til að styrkja atvinnulíf og byggð á Austurlandi má gera ráð fyrir hinu gagnstæða. Hliðstæð verkefni, en langtum minni í sniðum, á Suðurlandi og Norðurlandi vestra undanfarna áratugi hafa ekki orðið sá happadráttur fyrir samfélagið á viðkomandi svæðum sem fyrirfram var gert ráð fyrir. Stóraukin spenna á vinnumarkaði og uppgripatekjur af löngum vinnudegi munu draga til sín vinnuafl frá öðrum fyrirtækjum, ekki aðeins á Mið-Austurlandi heldur ekki síður frá Norð-Austurlandi og Suð-Austurlandi. Mikið rót mun koma á samfélagið eystra og eins líklegt að margir muni telja hag sínum best borgið með því að selja eignir sínar og flytja til höfuðborgarsvæðisins. – Eftir stæðu stórfelldar skemmdir á náttúru Fljótsdalshéraðs og hálendisins og innan við 20 störf við viðhald og rekstur virkjunarinnar samkvæmt upplýsingum í matsskýrslu. Skýrsla Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri [RHA] um mat á samfélagslegum áhrifum virkjunarinnar [V23 og S41] hefur að vonum hlotið harða gagnrýni ýmissa sem um hana hafa fjallað. Það gerðist til dæmis á vettvangi Landverndar nýlega í máli dr. Ívars Jónssonar, dósents við Viðskiptaháskólann á Bifröst og Þórólfs Matthíassonar hagfræðings og dósents við Háskóla Íslands. Umrædd skýrsla er flausturslega unnin og ályktanir sem höfundar draga sumpart mótsagnakenndar og í stíl veðurfrétta fram í tímann, eins og höfundar kjósa sem samlíkingu um verk sitt. Staðhæfing matsskýrslu: “Atvinnulíf og byggð á Héraði og annars staðar á Austurlandi styrkist því” (10.4) verður þó ekki skrifuð beint á RHA. Hinsvegar eru ályktanir skýrsluhöfunda um áhrif á ferðaþjónustu fjarri öllu lagi eins og staðhæfingin um að mannvirkjagerðin á hálendinu muni laða til sín “...nýja hópa ferðamanna, sennilega mun fjölmennari” en ella væri. Stærsti veikleiki í umfjöllun RHA er hins vegar að þar vottar ekki fyrir tilraun til greiningar á öðrum þróunarkostum á svæðinu né hvaða áhrif bygging virkjunar kynni að hafa á aðra atvinnuþróun. Sama marki er brennd lausleg skírskotun höfuna RHA-skýrslu til annarra þátta svonefnds NORAL-verkefnis, m.a. staðhæfingin: “Gangi eftir þau áform að raforkan fari til Noralverkefnisins, mun virkjunin styrkja byggð á Austurlandi.” Umfjöllun um þá tálsýn heyrir hins vegar ekki með réttu undir þá matsskýrslu sem hér er til umræðu. Umfjöllun matsskýrslunnar um samfélagsleg áhrif af byggingu Kárahnjúkavirkjunar og þau gögn sem að baki liggja er langt frá því að standast kröfur sem gera verður til slíkrar greiningar og einn allra veikasti þáttur skýrslunnar. Bygging Kárahnjúkavirkjunar myndi hafa gífurleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu á Austurlandi og um leið fyrir landið í heild. Skoðanakannanir meðal innlendra og erlendra ferðamanna og almennings staðfesta þetta viðhorf og ekki síður afstaða meirihluta þeirra sem starfa að ferðaþjónustu. Umfjöllun matsskýrslu (8.7) um þennan þátt er í senn ófullkomin og villandi. Bakgögn þetta varðandi [V21 og S38] taka aðeins að litlu leyti mark á eindregnum vísbendingum úr framlögðum gögnum heldur eru þess í stað settar fram staðhæfingar um mögulega þróun og jafnvel styrkingu ferðaþjónustu á svæðinu í kjölfar virkjunarframkvæmda. Hér á eftir verður vikið að fáeinum atriðum og nefnd dæmi um rangar ályktanir sem að mati undirritaðs eru dregnar í skýrslunni og bakgögnum hennar. Virkjanir á hálendinu hafa almennt neikvæð áhrif á nýtingu þess til ferðamennsku og spilla þeirri ímynd um íslenska náttúru, sem leitast hefur verið við að draga upp af Íslandi sem ferðamannalandi. Umræða um stefnumörkun í ferðamálum og skipulag miðhálendisins hefur meðal annars snúist um að viðhalda sem mestu af lítt snortnum víðernum hálendisins og takmarka þar staðsetningu þjónustumannvirkja fyrir ferðamenn en byggja miðstöðvar í staðinn í útjaðri óbyggðanna. Hálendið norðan Vatnajökuls í núverandi horfi býður alveg sérstaklega upp á slíka þróun, þar eð vegalengdir úr byggð eru stuttar og bjóða upp á dagsferðir þótt bílaslóðir séu frumstæðar. Jafnframt má þar þróa gönguleiðir með fjallaskálum eftir nánara skipulagi. – Umtal í skýrslu Landmótunar [S38] um stöðnun í aðsókn ferðamanna á síðasta áratug hvílir á veikum grunni þar eð dagsferðir inn á svæðið hafa verið algengasti ferðamátinn og fjallaskálar með gistiaðstöðu eru enn fáir. Ferðaþjónustuaðilar hafa eðlilega haldið að sér höndum um markaðssetningu svæðisins vegna óvissu um nýtingu þess og langvinnrar virkjanaumræðu. Jafnframt er í matsskýrslu gert mun minna en efni standa til að mati undirritaðs úr þróunarmöguleikum til ferðalaga á svæðinu án virkjunar. Á það meðal annars við um gönguleiðir inn úr Norðurdal í Fljótsdal með fossasyrpu Jökulsár í fangið og gönguleiðir inn úr inndölum Suðurdals suður á Hraun þar sem er fjöldi fossa og afar sérstætt og um margt heillandi umhverfi. Á Hraunum væri þannig hægt að beina fólki á mismunandi gönguleiðir, m.a. milli Lónsöræfa og Héraðs. Kárahnjúkavirkjun takmarkar augljóslega þróunarmöguleika Vatnajökulsþjóðgarðs og spillir þeirri landslagsheild og landmótunarformum sem jökullinn hefur átt mestan þátt í að móta. Það á ekki síst við um svæðið norðan Brúarjökuls þar sem jökull gengur fram með reglulegu millibili og hefur skilið eftir sig óvenju fjölbreyttar jökulminjar. Hlemmivegir um virkjunarsvæðið eins og svonefndur Kárahnjúkavegur gengur þvert á ofangreinda stefnu og sömuleiðis bílaumferð eftir stíflum yfir Jökulsá á Dal í stað göngubrúa á völdum stöðum. Mannvirki Kárahnjúkavirkjunar myndu setja mark sitt á Fljótsdal, meðal annars tröllauknar raflínur, og einnig á mikinn hluta hálendisins suður og suðvestur af allt að jökli. Yfir 100 fossar, að meirihluta til á eystri hluta svæðisins verða skertir stórlega eða hverfa til fulls. Aðalaðdráttarafl á vestari hluta svæðisins, Hafrahvammagljúfur, verður stórskemmt af stíflu og óhuggulegu miðlunarlóni. Slíkt umhverfi er ekki vænlegt til að laða að ferðamenn eða bjóða þeim upp á kynni af íslenskri náttúru sem svari til væntinga og auglýsinga. Engin skýr aðferðafræði liggur að baki greiningu matsskýrslunnar og fylgigagna að því er áhrif á ferðamennsku og útivist varðar. Markmiðið með framsetningu skýrslunnar að því er þennan þátt varðar virðist fyrst og fremst vera að reyna að sætta menn við náttúruspjöllin. 12. Hálslón, áfok og aurfylling Af matsskýrslu (9.1.4.5) og fylgigögnum [S25, V25] er ljóst að stórfellt jarðvegsrof yrði við Hálslón út frá strandlengju þess að austan (24 km löng) og vestan (27 km löng). Ríkjandi vindáttir og aðrar aðstæður valda því að rof- og áfoksvandamál virðast stærri að austanverðu og að vindrof og áfok getur í tímans rás haft mikil áhrif á gróðurfar á Vesturöræfum. Búast má við samkvæmt matsskýrslu að mistur frá lónstæðinu og nágrenni þess berist í norðaustur yfir norðanvert Fljótsdalshérað. Myndi það leggjast yfir með öðrum hætti en mistur sem nú berst frá upptakasvæði Jökulsár á Fjöllum. – Fokmistur yrði viðvarandi og vaxandi vandamál út frá sístækkandi jökulaurum í lónstæðinu. Mótvægisaðgerðir sem kynntar eru í matsskýrslu Landsvirkjunar eru langt frá því að vera sannfærandi og taka aðeins á takmörkuðum þáttum vandans en með algjörri óvissu um árangur af mótvægisaðgerðum. Hugmyndir um styrkingu gróðurs, einkum víðikjarrs meðfram austurströnd lónsins til að stöðva áfok, eru að mati undirritaðs dæmdar til að mistakast þar eð land liggur þarna í yfir 600 m hæð. Áfoksvandamálið eitt og sér er það stórt og víðtækt og óvissa sem því tengist það mikil að afskrifa ætti virkjunarhugmyndina þegar af þeim sökum. Hálslón er talið fyllast til fulls af framburði Jökulsár á Dal á um 400 árum og að 100 árum liðnum yrði aurkeila við Brúarjökul orðin 15,5 km2 og myndi á 6 km til norðurs innst í lónstæðinu . Af þessum aurum sem jökuláin flæmist um yrði vaxandi áfok eftir því sem aldir líða. Hér væri því verið að breyta og eyðileggja náttúru með stórfelldum hætti og óafturkræft og skapa vandamál sem enginn fær við ráðið. Með öllu er óverjandi að ráðast í framkvæmd sem sendir komandi kynslóðum slíkan reikning. Umfjöllun um jarðfræðiminjar í matsskýrslu Landsvirkjunar er engan veginn í samræmi við þau víðtæku og að miklum hluta óafturkræfu áhrif sem bygging virkjunarinnar myndi hafa á þær. Þarf því að lesa fylgiskýrslur eins og S30 (Jarðfræðilegar náttúruminjar á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar eftir Sigmund Einarsson) og gögn í viðaukum til að átta sig á stærð og umfang eyðileggingarinnar. Mest er hún vegna Hálslóns og stíflugerðar í Hafrahvammagljúfri þar sem jarðsöguleg landslagsheild er rofin og eyðilögð. Í matsskýrslu er þessum áhrifum drepið á dreif, m.a. í kafla 10.1.2.3, þar sem reynt er að hugga menn með því að sethjallar, flikruberg og hverahrúðurbreiður “…munu ekki eyðast en hverfa undir vatn og hyljast smám saman yngri setlögum”! Hluti af þessum náttúruminjum er friðlýstur í Kringilsárrana sem Hálslón myndi skerða stórlega. Jarðfræðilegar náttúruminjar, sem raskast myndu og tapast á virkjunarsvæðinu, hafa í senn ómetanlegt vísinda- og fræðslugildi og eru að óbreyttu eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn og lykilatriði við nýtingu svæðisins í þágu ferðaþjónustu. 14. Gróður- og jarðvegseyðing. Ágallar umfjöllunar matsskýrslu um gróður- og jarðvegseyðingu eru einkum þeir að hvergi er þar að finna skilmerkilegt yfirlit um áhrifin í heild frá jökuljaðri og Hraunum til strandar við Héraðsflóa. Einnig eru þessi áhrif ekki sett fram í vistfræðilegu samhengi. Auk beinnar eyðingar gróins lands á um 40 km2 svæði eru þau svæði stór þar sem gróðurskilyrði munu breytast vegna vatnsborðs- og grunnvatnsbreytinga, m.a. við Jöklu og Lagarfljót auk beinna áhrifa á ræktað land. Áhrifin á Úthéraði varða m.a. verðmæt votlendissvæði. Viðurkennt er að gróðurlendi á Vesturöræfum eru sett í hættu vegna áfoks en samfelld gróðurlendi þar í 600-700 m hæð yfir sjó hafa sérstöðu og mikið verndargildi. Varðandi votlendissvæði, mýrar og flóa, 3 hektara að stærð eða stærri, gilda ákvæði 37. greinar c-liðar laga nr. 44/1999 um náttúruvernd undir heitinu “Sérstök vernd”. Er þar kveðið á um að þessar landslagsgerðir skuli njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Ekki verður séð af matsskýrslu að þessu lagaákvæði hafi verðir gaumur gefinn. Verður að gera kröfu til að úr því verði bætt með nákvæmri yfirferð og athugun á vettvangi eftir því sem við á áður lengra er haldið. 15. Áhrifin á hreindýrastofninn og annað dýralíf Ljóst er af gögnum, (einkum S32: Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á íslenska hreindýrastofninn) að áhrif af Kárahnjúkavirkjun á um helming hreindýrastofnsins (Snæfellshjörð) yrðu afar víðtæk miðað við núverandi aðstæður og sumpart ófyrirsjáanleg og því ef til vill enn alvarlegri en þær vísbendingar sem fram koma í skýrslunni. Í matsskýrslu er þessum áhrifum ekki nema að hluta til haldið til haga. Verði af framkvæmdum má búast við verulegri fækkun hreindýra á Snæfellsöræfum, í Kringilsárrana og Sauðafelli, verri nýtingu beitilanda og minni arði af stofninum. Hafa ber í huga að Snæfellsöræfi eru það svæði sem sögulega séð hefur verið mikilvægast fyrir stofninn og því gætu langtímaáhrifin orðið afdrifarík fyrir tilvist hans. – Athygli vekur að í umfjöllun matsskýrslu (bls. 95) setur framkvæmdaraðili fyrirvara við tillögur Náttúrustofu Austurlands um mótvægisaðgerðir, sérstaklega um skipulag á umferð og framkvæmdum með tilliti til hreindýra sem og að settar verði reglur um umferð flugvéla yfir búsvæðum hreindýra. Undir aðrar tillögur um mótvægisaðgerðir er tekið óskuldbindandi (“…uppfylla þær eftir fremsta megni”). Áhrif á fugla verða veruleg ef til virkjunar kemur, þar á meðal á heiðagæs, en 1,6% heildarvarpsstofns hennar verpir á áhrifasvæði Hálslóns. Einnig nýta lónstæðið sjaldgæfar tegundir fugla eins og snæugla. Þá myndu breytingar á vatnafari Lagarfljóts hafa neikvæð áhrif á fæðuskilyrði fugla á fljótinu, einkum á Úthéraði, þar á meðal á fiskiætur og flestar kafendur. Miklar breytingar yrðu fyrirsjáanlega á lífríki við Jökulsá á Dal á Úthéraði, meðal annars neikvæðar fyrir grágæsir og seli sem líklega mun fækka verulega. Selskinn eru þar enn nytjuð og selaskoðun er ríkur þáttur í upplifun ferðamanna á svæðinu. Áhrif á smádýr á landi yrðu mikil, ekki síst í Hálslóni þar sem fundist hafa sjaldgæfar tegundir, þar af tvær nýjar fyrir vísindin að talið er. Á sama hátt og í umfjöllun um gróður og jarðveg er mikill annmarki á matsskýrslu að áhrif á dýralíf eru á dreif í skýrslunni og hvergi er dregin upp á einum stað heildarmynd af helstu áhrifum á dýrastofna. Er þetta ekki síst tilfinnanlegt fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir. 16. Vatnalíf og vatnaflutningar Eins og getið var í upphafi athugasemda minna yrðu áhrif á vatnalíf á svæðinu mikil og tilfinnanleg og auk þess er verndargildi þess vanmetið í matsskýrslunni. Varðar það bæði stöðuvötn, dragár og og jökulár þar á meðal Lagarfljót sem yrði mun lífminna og korgugra en nú er og breytti um lit. Ítarleg skýrsla [S35: Vatnalífríki á virkjanaslóð] er eitt af bakgögnum matsskýrslu og af lestri hennar verða fyrst ljós þau víðtæku neikvæðu áhrif sem virkjunin myndi hafa á vatnalífríki og nytjar af því, bæði fyrir dýrastofna og veiði. Þar sem rannsóknirnar að baki skýrslunni byggja flestar á punktmælingum eins sumars eru þær eðlilega takmarkaðar og mikið vantar á að vistfræðileg heildarmynd af fyrirhugaðri röskun vegna virkjunar liggi fyrir. Varðar röskunin meðal annars afmörkuð vistkerfi einstakra vatna og áa með tilheyrandi breytileika í stofnum sem haft geta í senn fræðilega og hagnýta þýðingu. Stærð og fjölbreytileiki svæðisins að því er snertir vatnalíf er afar mikil. Gagnrýna verður meðferð matsskýrslu á þessum þætti, til dæmis er lítið vikið að röskun vatnalífríkis í samantekt í upphafi skýrslunnar og í yfirliti um heildaráhrif og niðurstöðum í lok skýrslunnar. Þá verður að minna á ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd þar sem kveðið er á um í 37. grein, b-lið að stöðuvötn og tjarnir, 1000 m2 að stærð eða stærri, njóti sem landslagsgerð sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Ekki verður séð af matsskýrslu að framkvæmdaáformin hafi verið athuguð sérstaklega með tillit til þessa lagaákvæðis og verður að gera kröfu til að sérstök, nákvæm yfirferð og kortlagning er þetta atriði varðar liggi fyrir áður lengra er haldið. Mikil miðlunarlón ásamt flutningi Jökulsár á Dal yfir í Lagarfljót og flutningi meirihluta vatnsins úr Kelduá yfir í Jökulsá í Fljótsdal gerir þessa virkjunarhugmynd einstæða í neikvæðum skilningi og varhugaverðari en áður hefur komið til umræðu hérlendis. Fyrir bæði stórfljótin, Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal sem og fyrir Kelduá eru ráðgerðir vatnaflutningar mjög neikvæðir, bæði að því er lífríki og útlitsáhrif varðar. Ekki síst á þetta við um Lagarfljót. Slíkum vatnaflutningum ætti skilyrðislaust að hafna hérlendis, einnig af því að með byggingu Kárahnjúkavirkjunar væri fordæmi gefið sem ekki sæi fyrir endann á. 17. Yfir 100 fossar skerðast eða hverfa “Margir fossar, aðallega á vatnasviði Jökulsár í Fljótsdal, munu verða vatnslitlir eða jafnvel hverfa alveg” segir í niðurstöðu matsskýrslu (bls. 7). Fáir munu þó af lestri skýrslunnar gera sér grein fyrir þeim neikvæðu áhrifum sem Kárahnjúkavirkjun hefði á heildina litið á fossa og flúðir í ám á virkjanasvæðinu. Hafa ber í huga að það eru ekki síst slík fyrirbæri sem gleðja augað, valda hughrifum og laða að ferðamenn. Nokkuð er vikið að áhrifum virkjunar á fossa og vatnsvegi á svæðinu í skýrsluVST S2: Kárahnjúkavirkjun – Áhrif á vatnafar (apríl 2001) og í S30: Jrðfræðilegar náttúruminjar á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar eftir Sigmund Einarsson. Hins vegar vantar, líkt og um fleiri þætti, heildaryfirlit um skerðingu fossa í matsskýrslunni. Hér á eftir læt ég fylgja skrá um áætlaðan fjölda fossa á virkjunarsvæðinu sem skerðast myndu eða hyrfu alveg við byggingu virkjunarinnar. Eru fjöldi þeirra tilgreindur eftir ánum þar sem þá er að finna. Er þá miðað við lágmarkshæð 2-3 metra og flúðir ekki meðtaldar, þótt þeirra sé getið sums staðar innan sviga. Oft er mjótt á munum milli fossa og flúða og getur það farið eftir vatnsmagni hvort foss myndast eða fær svip flúðar. Dæmigert fyrir þetta er farvegur Sauðár vestari, þar sem fossar neðan við Sauðárfoss breytast í stórbrotna flúð þegar mikið jökulvatn rennur um Sauðá á stað Kringilsár. Tekið skal skýrt fram að um lauslega ágiskun um tölu fossa er hér að ræða í flestum tilfellum, og í yfirlitinu felst aðeins gróf nálgun um þau hrikalegu áhrif sem Kárahnjúkavirkjun hefði á þennan náttúrufarsþátt.
Af þessu má ráða að fossar sem verða fyrir skerðingu af Kárahnjúkavirkjun séu vel yfir 100 talsins, sumir þeirra í röð mestu og fegurstu fossa landsins. Í þessu sambandi verður að benda á að samkvæmt b-lið 37. greinar laga nr. 44/1999 um náttúruvernd eru fossar meðal landslagsgerða sem njóta sérstakrar verndar að lögum. Því er vöntun á ítarlegri umfjöllun í matsskýrslu um fossa á virkjunarsvæðinu mjög ámælisverð. 18. Áhrifin á Lagarfljót og umhverfi Í matsskýrslu (bls. 106 og 107) stendur m.a.: “Með veitu vatns úr Hálslóni í Lagarfljót mun svifaur í því fjór- til fimmfaldast og sá tími sem það tekur vatnið að fara um Lagarfljót styttist um helming. Vatnið kólnar um 0,5°C yfir sumarið og lífsskilyrði í því versna nokkuð frá því sem nú er. Aukinn svifaur getur einnig hamlað göngu fiska um vatnið, sérstaklega innarlega í því.... Með fyrirhugaðri virkjun og tilheyrandi vatnaflutningum Jökulsár á Dal yfir í Lagarfljót mun styrkur svifaurs í Lagarfljóti (við Lagarfljótsbrú) fjór- til fimmfaldast. Við þetta breytist litur vatnsins, það dökknar og fær brúnleitari blæ en nú er...Dæmigert gegnsæi í vatninu mun því minnka um helming.” Í matsskýrslu segir einnig að talsvert stórir stofnar bleikju og urriða séu í fljótinu ofan við Lagarfoss, meira nær landi en fjær og meira utarlega en innarlega. Lax finnst einnig í fljótinu og í því eru hornsíli. Ekki virðist hins vegar litið á stærð Lagarfljóts í þessu samhengi og þann mikla lífmassa sem það hefur að geyma í heild, þar á meðal í laxfiskum. Veiði hefur um aldir verið talin til hlunninda á mörgum bæjum við fljótið en ekki er að sjá neina umfjöllun um það í matsskýrslu. Vatnsborðshækkun í Lagarfljóti ofan við Lagarfoss vegna veitu frá Jökulsá á Dal er skv. matsskýrslu talin nema allt að 28 cm að sumarlagi án mótvægisaðgerða en um 17 cm eftir lækkun klapparhafts við Lagarfoss. Eftir síðari áfanga virkjunar gætti þessara hækkunar í minna mæli að talið er. Neðan við Lagarfoss er hækkunin metin verða 25-50 cm eftir fyrri áfanga en minni eftir síðari áfanga. Athygli vekur að í S2 er rætt um aðrar mótvægisaðgerðir, þar á meðal hugsanlega dýpkun farvegarins neðan Egilsstaða, sem hefði “...í för með sér mjög mikið umhverfisrask, bæði í farveginum og eins í nágrenni hans þar sem uppgreftrinum yrði komið fyrir...Hinsvegar ætti aðeins að ráðast í dýpkun farvegarins neðan Egilsstaða að mjög vel athuguðu máli.” (bls. 62-63 í S2). Ekki fer hjá því að ofangreindar niðurstöður módelútreikninga eru einhverri óvissu háðar og væri rétt að fara nánar ofan í þá sálma í ljósi þess hve afdrifaríkt mál er hér til umræðu. Í sömu skýrslu um Áhrif á vatnafar er aðeins vikið að “ísagangi” í Jökulsá neðan virkjunar, sem gæti orðið eitthvað meiri en við núverandi aðstæður (bls. 23). Breytingar á “ísafari” neðan Lagarfljótsbrúar eru sagðar verða litlar (blss. 55) en ekki sá ég neitt nefnt um “ísafar” í fljótinu ofan brúar. Á því svæði er misjafnt hvort eða hvenær fljótið leggur alla leið inn í Fljótsbotn. Myndast oft ísahrannir við fljótsbakkana seinni hluta vetrar. Þyrfti að fá fram hjá framkvæmdaraðila hvort hann telji að breyting yrði á þessu eftir virkjun vegna vatnsborðshæðar og/eða breytts hitastigs í fljótinu og hver hugsanleg áhrif gætu orðið, t.d. í formi rofs við fljótsbakkana. Um verndargildi Lagarfljóts segir í matsskýrslu (bls. 106): “Verndargildi Lagarfljóts er á heildina litið í meðallagi og er hærra en ella vegna þess að í því finnast allar þrjár íslensku laxfiskategundirnar, bleikja urriði og lax, auk hornsílis. Ljóst er að Lagarfljót gegnir hlutverki sem búsvæði fyrir laxfiskana, einkum fyrir silung og sem farvegur fyrir fiskana til að komast í dragár sem falla til vatnsins.” Þessu mati, “í meðallagi”, er undirritaður ósammála og telur að verndargildi Lagarfljóts eigi að teljast hátt. Enginn hefur rétt til að breyta umhverfi Lagarfljóts eins og yrði með umræddri veitu frá Jökulsá á Dal. Með tilkomu hennar væri með einu pennastriki gjörbreytt náttúrulegu eðli vatnsfalls sem um árþúsundir hefur runnið um Fljótsdalshérað, verið tilefni nafngiftar þess og daglegur, órofa þáttur í lífi kynslóðanna sem búið hafa á bökkum þess. Þessu fljóti má af menningarlegum og siðferðilegum ástæðum ekki gjörbreyta eins og hér er að stefnt. Það verður að teljast alltof þröngt sjónarhorn í mati á verndargildi að líta aðeins á vistfræðiþáttinn eða fjölda fiskistofna í fljótinu. Menningarþátturinn og sagnhelgi eiga að vega hér þungt en slíka nálgun er ekki að finna í matsskýrslu og einnig það er augljós vöntun sem bæta verður úr. Aðalþættir 2. áfanga Kárahnjúkavirkjunar felast í Jökulsárveitu úr svonefndu Ufsarlóni neðan við Eyjabakkafoss í Jökulsá Í Fljótsdal og Hraunaveitu með Kelduárlóni sem yrði tæplega 8 km2 þegar það er fullt en aðeins 1,7 km2 með mesta niðurdrætti. Í Kelduárlóni myndi tapast mikið og fallegt gróðurlendi, votlendi með svipuðu gróðurfari og á Eyjabökkum, sem eru aðeins í 2 km fjarlægð og í svipaðri hæð. Folavatn með fjölbreyttu og sérstæðu lífríki hyrfi í Kelduárlón. Meðalrennsli Kelduár yrði skert um 2/3 hluta við dalbrún og rennsli 5 annarra vatnsfalla af Hraunum þaðan af meira eða um 9/10. Áhrif á fjölmarga fossa í þessum sex ám yrðu mjög mikil þannig að þeir ýmist hyrfu eða yrðu ekki svipur hjá sjón. Úttekt og rannsóknir á Hraunum og í Suðurdal sýnast að þessu leyti eins og á öðrum sviðum mun takmarkaðri en varðandi fyrri áfanga virkjunarinnar. Ekki yrðu síður afdrifaríkar afleiðingar Jökulsárveitu á fossana miklu í Jökulsá í Fljótsdal, hátt í 20 talsins, en þeir yrðu mjög vatnslitlir nema þegar vatn rynni á yfirfalli úr Ufsarlóni. Myndi þannig glatast ein stórfenglegasta fossasyrpa á Íslandi, sem ella hefði mikið og vaxandi aðdráttarafl fyrir ferðamenn og væri djásn í Snæfellsþjóðgarði sem talist gæti hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Í Ufsarlón, sem aðeins er um 1 km2 að flatarmáli ofan við 32 m háa stíflu, safnast aurburður úr Jökulsá í Fljótsdal, áætlaður nema 525 þúsund tonnum á ári, þar af um helmingur gróft efni. “Mikil óvissa ríkir um þetta enda er halli árinnar lítill á bökkunum og líklegt að mikið setjist þar til....Þegar Hálslón fyllist ekki í vatnslitlum árum er ekki talið nauðsynlegt að skola út Ufsarlón, jafnvel þó tvö slík ár komi í röð...Hugsanlega þarf að nota stórvirkar aðferðir til að ýta aur, sem situr eftir í hlíðum lónsins niður í farveginn þegar lónið er tæmt” (matsskýrsla, bls. 117). Gert er ráð fyrir að skola þessum aur úr lóninu niður eftir Jökulsá með því að opna fyrir botnlokur. Þetta yrði gert síðsumars eftir að Hálslón væri orðið fullt og tæki útskolunin nokkra, allt eftir því að hve miklu leyti nauðsynlegt væri talið að jafna út flóðtopp sem myndast gæti við útskolun. Eins og sést af þessum fyrirætlunum myndi um hálf miljón tonna af aur berast á fáum dögum niður eftir Jökulsá í Fljótsdal með einskonar flóðbylgju og áfram út í Lagarfljót. Hætt er við að þá myndi heldur betur syrta í álinn, þ.e. litur Lagarfljóts verða kolmórauður. Um þetta er hins vegar lítið sem ekkert að finna í matsskýrslu, né heldur í S55 (Ufsarlón og Kelduármiðlun – Aurburður, aurstöðvun og útskolun aurs), hvað sem veldur. Í Viðauka 6 má hins vegar lesa: “Helstu vandamálin samfara útskolun á aur eru miklar rennslisveiflur í Jökulsá ofan virkjunar og mikið rennsli neðan virkjunar meðan á skolun stendur. Einnig getur aurburður orðið mjög mikill í Jökulsá og slit verður þá á botnrás og lokum.” Ekki er þarna heldur að finna orð um grugg í Lagarfljóti af þessum sökum, sem kæmi þá til viðbótar við það sem fyrir er frá Jöklu! 20. Hafrahvammagljúfur og Jökla Stórbrotnasta náttúrufyrirbæri sem skemmist vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar er Hafrahvammagljúfur sem á ekki sinn líka hér á landi og þótt víðar væri leitað. Ekki er réttmætt eins og bregður fyrir í matsskýrslu að tala um að stíflan stóra sé “ofan við” gljúfrið, þótt dýpsti hluti þess yrði óhreyfður en vatnslaus neðan (norðan) við stífluna. Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands um náttúruverndargildi fær gljúfrið háa einkunn vegna fegurðar og fræðslu- og vísindagildis á landsmælikvarða og það jafnframt talin fágæt smíð á heimsmælikvarða. Landslagsheildin, þ.e. gljúfrið ásamt Kárahnjúkum og árdalnum suður af með sethjöllum, er afar sérstök en hún yrði gersamlega rofin af stíflu og Hálslóni og úr sögunni. Svipuðu máli gegnir um Jökulsá á Dal sem er kyngimagnað vatnsfall og gefur öllum Jökuldal svip og svæðinu milli Jökulsárhlíðar og Hróarstungu allt til sjávar. Áraurarnir út við Héraðsflóa eru með umhverfi sínu stórbrotin landslagsheild sem myndi rofna við veitu Jöklu yfir í Lagarfljót. Ströndin myndi raskast strax í upphafi og færast smám saman innar um mörg hundruð metra í tímans rás. Enga hliðstæðu á við Héraðssand er að finna með austurströndinni frá Axarfirði suður í Lón. Þessi röskun á landslagsheild á Úthéraði er óljóst sett fram í matsskýrslu, þótt vakin sé á henni athygli í sérskýrslum. 21. Áhrifin úti fyrir ströndinni Áhrif Kárahnjúkavirkjunar í hafi utan ósa jökulánna felast m.a. í auknu rennsli þeirra að vetrarlagi, minna rennsli á sumrum og nær alveg tekur fyrir framburð á grófu seti til sjávar. Hafrannsóknastofnun [S37] gerir ráð fyrir að breytingar gætu orðið á botndýrasamfélögum en telur samt sem áður ekki tilefni til að ætla að þær endurspeglist í minni rækjuveiði á Héraðsflóa. Sú staðhæfing er ekki skýrð nánar. Hins vegar segir í matsskýrslu (bls. 110) um hugsanleg áhrif breytinga á ferskvatsnrennsli til hafs eftirfarandi: “Álitið er að minna rennsli úr Jökulsá á Dal og Lagarfljót á sumrin (mynd 9.19) verði til þess að strandstraumurinn svokallaði suður með Austfjörðum verði veikari að sumarlagi. Ástæðan er sú að straumurinn er knúinn áfram af ferkvatni frá ám sem blandast sjónum við ströndina og eru fljótin sem renna í Héraðsflóa helsta ferskvatnsuppspretta strandstraumsins við Austurland. Jafnframt verður lagskipting sjávar að jafnaði minni á sumrin, það er seltuminni og eðlislétari sjór ofan á selturíkari og eðlisþyngri sjó. Þessi áhrif geta hugsanlega teygt sig suður með landinu, alllangt suður fyrir Héraðsflóa. Rannsóknir við Suðvesturland benda til þess að máli skipti fyrir dreifingu og afkomu lirfa og seiða að sjórinn sé lagskiptur. Við Austurland er klak seint á ferð og því er talið hugsanlegt, ef ferskvatnsframburður gegnir sama hlutverki og við suðvesturströndina, að breytingar á ferskvatnsframburði að sumri til hafi áhrif á útbreiðslu og afkomu þorsklirfa og seiða á þessu svæði.” Ofangreindar ábendingar og miklar eyður í þekkingu á flestum þáttum, m.a. varðandi botndýr og botngerð í Héraðsflóa, gefa tilefni til að álykta að mikið skorti á að fyrir hendi séu upplýsingar og rannsóknaniðurstöður til að byggja á ályktanir um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á Héraðsflóasvæðið og jafnvel sjóinn suður með Austfjörðum. Hér virðist því vera ósvarað stórum spurningum sem óforsvaranlegt er að loka augum fyrir, þótt höfundar matsskýrslu sjái ekki ástæðu til fjölyrða um þær. Þannig er til dæmis ekkert á þessa þætti minnst í 12. kafla matsskýrslu um vöktun og frekari rannsóknir. 22. Áhætta af byggingu Kárahnjúkavirkjunar a) Efnahagsleg áhætta fyrir Landsvirkjun og þjóðarbúið Nú þegar er raforkusala til stóriðju yfir 60% af framleiðslu Landsvirkjunar, að langmestu leyti til áliðnaðar. Söluandvirði orkunnar er að stórum hluta tengt við markaðsvirði viðkomandi stóriðjuafurða og tekjur fyrirtækisins að sama skapi háðar sveiflum. Með fyrirhugaðri aukningu á raforkusölu Landsvirkjunar til áliðnaðar í framhaldi af byggingu Kárahnjúkavirkjunar stefnir umrætt hlutfall í að verða nálægt 80%. Slíkt mun enn auka á sveiflur í tekjum fyrirtækisins og valda því að alltof mikil áhætta væri tekin af eigendum þess, ríki og sveitarfélögum. Ekki er heldur forsvaranlegt að tefla í tvísýnu meira en orðið er hagsmunum viðskiptavina almenningsrafveitna, sbr. 13. grein laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, þar sem segir m.a.: “Landsvirkjun gerir orkusölusamninga við almenningsrafveitur og iðjuver innan þeirra marka sem segir í 2. gr. Til orkusölusamninga til langs tíma, við iðjuver sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, þarf Landsvirkjun leyfi ráðherra þess er fer með orkumál. Slíkir samningar mega ekki að dómi ráðherra valda hærra raforkuverði til almenningsrafveitna en ella hefði orðið.” Þá gætu gífurlegar lántökur vegna framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun fyrr en varir haft áhrif á ávöxtunarkröfur af lánum fyrirtæksins svo og á lánshæfni íslenska ríkisins, ekki síst ef til einhvers konar ábyrgða kæmi af þess hálfu vegna látökuheimilda í þágu byggingar virkjunarinnar. b) Áhætta vegna náttúrhamfara Í 11. kafla matsskýrslu er fjallað um hættur sem steðjað gætu að mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar af völdum margskyns náttúruhamfara. Þótt skýrsluhöfundar telji slíka atburði ósennilega í þeim mæli að haft gæti alvarlegar afleiðingar, telja þeir sig ekki geta útilokað að til þeirra gæti komið og því þurfi að hafa varann á. Einna mest hætta skapaðist af rofi einhverrar af þremur stíflum við Hálslón og segir um það í matsskýrslu: “Ef ein af stíflunum við Hálslón rofnar mun vatnsborð hækka mikið í farvegi Jökulsár á Dal, sem skapar hættu fyrir umhverfi, fólk og mannvirki á Jökuldal og Úthéraði.” Snæfell er það eldfjall sem næst er virkjunarmannvirkjum að talið er, en í matsskýrslu talið “...mjög langt síðan það gaus síðast.” Engar ábyggilegar rannsóknir hafa hins vegar verið gerðar til að skera úr um þetta atriði, sem skiptar skoðanir eru um meðal jarðfræðinga. Sætir furðu að ekki skuli hafa verið tekin bergsýni úr ofanverðu Snæfelli til aldursgreiningar til að komast nær hinu sanna um svo þýðingarmikið atriði. Þá er þess að geta að Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur hefur í umfjöllun um matsskýrslu Landsvirkjunar bent á að þéttar sprunguþyrpingar og hugsanlegt misgengi sé undir fyrirhuguðum stíflumannvirkjum sem lyftist og sígi í takt við ísfarg á Vatnajökli. Stíflumannvirkjum gæti að hans mati stafað hætta af jarðskorpuhreyfingum og manngerðum jarðskjálftum. Hönnuðir telja þetta hins vegar ástæðulausar áhyggjur ef marka má viðbrögð á vettvangi Landverndar. Eins og ofangreindar athugasemdir bera með sér telur undirritaður engar forsendur til að fallist verði á erindi Landsvirkjunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar á grundvelli fyrirliggjandi matsskýrslu og ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Neskaupstað, 12. júní 2001 Hjörleifur Guttormsson
Svör ráðherra vegna fyrirspurnar verkefnisstjórnar Rammaáætlunar um hvaða virkjunarkostir eigi að falla undir Rammaáætlun: Svör iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra koma fram í bréfum sem bæði eru dagsett 26. maí 2000 . Í bréfi iðnaðarráðherra segir m.a. undir fyrirsögninni: “Virkjunaráform sem Alþingi hefur heimilað en hafa ekki enn hlotið leyfi ráðherra. Eins og að ofan greinir er það mat ráðuneytisins að fjalla beri um slíka virkjunarkosti í rammaáætlun. Sem dæmi um þetta má nefna að samtímis hefur verið unnið við rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum og gerð rammaáætlunar fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ráðuneytið bendir hins vegar á að heimildarlög frá Alþingi geta falið í sér endanlegt virkjunarleyfi og að ekki sé þörf frekara leyfis iðnaðarráðherra.” Og sem svar við spurningunni : Hvaða gildi mun rammaáætlun fá við afgreiðslu Alþingis og ráðherra á heimildum til virkjana? segir m.a. í sama bréfi iðnaðarráðherra: “Rammaáætlunin verður væntanlega kynnt og rædd á Alþingi, en ekki hefur enn sem komið er verið tekin ákvörðun um hvaða gildi hún mun fá hjá stjórnvöldum. Ljóst er hins vegar að niðurstöður áætlunarinnar munu gefa orkuframleiðendum mikilvæga vísbendingu um það hvaða virkjunarkostir séu vænlegir til frekari rannsókna og hönnunar í framtíðinni.” Í svari umhverfisráðherra 26. maí 2000 segir m.a.: “Það er skoðun ráðuneytisins að allar þær virkjanir, nýjar sem og stækkanir, sem ekki hafa hlotið leyfi iðnaðarráðherra, eigi að falla undir rammaáætlunina. Skiptir í því sambandi ekki máli hvort virkjun eða hugsanleg virkjunaráform byggist á lagalegum heimildum eða hvort þau hafa verið metin með hliðsjón af lögum um mat á umhverfisáhrifum….Ljóst má vera að til þess kann að koma að stjórnvöld veiti leyfi til virkjunar á virkjunarkosti, sem er til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn. Í slíkum tilvikum telur ráðuneytið eðlilegt að verkefnisstjórnin fjalli um málið og henni verði þannig gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum, þótt hún geri það á styttri tíma en ella, enda fari fram mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þar að lútandi.” Úr fundargerðum verkefnisstjórnar Rammaáætlunar vegna athugunar á stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls Á fundi verkefnisstjórnar Rammaáætlunar þann 27. október 2000 var eftirfarandi bókað í fundargerð [SvB táknar Sveinbjörn Björnsson, formann verkefnisstjórnar]: “4. Gildi svæðisins norðan Vatnajökuls fyrir þjóðgarð Í tilllögunni er m.a. verklýsing þar sem segir: 1. Útivistargildi svæðisins norðan Vatnajökuls. Hér er átt við land næst jöklinum frá Dyngjujökli í vestri austur að Lónsöræfum. Taka saman yfirlit yfir þá aðila sem nýta svæðið í dag og þær tillögur og hugmyndir sem fram hafa komið um landnýtingu . 2. Verndargildi þess hluta svæðisins sem kynni að falla inna marka þjóðgarðs, eftir því sem gögn eru tiltæk. 3. Staða og þróun ferðamennsku og ferðaþjónustu á svæðinu. 4. Hugmyndir um nauðsynlega uppbyggingu á þjónustumiðstöðvum, vegum og stígum vegna þjóðgarðs, tengsl við aðliggjandi byggðir og þjónustu sem þar er boðin. Í ljósi þessara gagna yrði fjallað um þau áhrif sem Kárahnjúkavirkjun, og mismunandi útfærslur hennar, hefði á gildi lands á þessu svæði til verndunar, útivistar og ferðaþjónustu og á efnahagslegt gildi þess fyrir aðliggjandi byggðir. Álitsgerðin yrði hvað ítarleik og gögn varðar sambærileg við þær frumathuganir sem lagðar eru til grundvallar ákvörðunum um landnotkun við gerð svæðisskipulags. Um tímamörk verkefnisins segir: Um stjórnun verkefnisins segir: Niðurstaða: Á fundi verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 15. desember 2001 var bókað: 6. Önnur mál Upplýst var að Landsvirkjun hafi í hyggju að kynna hugmyndir um þjóðgarð norðan Vatnajökuls í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Á fundi verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 16. febrúar 2001 var bókað: 4. Athugun á gildi svæðisins norðan Vatnajökuls Ýmsar aðferðir koma til greina til að leysa verkefnið af hendi. Ein leið sem virðist fýsileg er að vinna úttektina með áþekkum hætti svæðisskipulag.. Þá er ætlunin að taka saman upplýsingar um stofn- og rekstrarkostnað þjóðgarðs. Í verkáætlun er ráðgert að skila skýrslu á fundi verkefnisstjórnar 27. apríl nk. Ýmsar spurningar og ábendingar komu fram: JGO og fleiri bentu á mikilvægi þess að nýta nýjustu gögn um náttúrufar og jarðmyndanir sem tekin hafa verið saman vegna mats á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.” [Tekið orðrétt eftir fundargerðum verkefnisstjórnar Rammaáætlunar á heimasíðu Landverndar] Athugasemdir Hjörleifs Guttormssonar 23. júní 2000 við drög Landsvirkjunar að matsáætlun fyrir Kárahnjúkavirkjun: Hjörleifur Guttormsson
23. júní 2000
Efni: Matsáætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar ásamt tengdum veitum. Vísað er til þess sem fram kom af hálfu undirritaðs á kynningarfundi Landsvirkjunar á Egilsstöðum 15. júní 2000, meðal annars að undirritaður er gagnrýninn á NORAL-verkefnið í heild sinni, byggingu risaálverksmiðju á Reyðarfirði og virkjana í hennar þágu. Með bréfi þessu vil ég koma á framfæri athugasemdum við framlögð drög að matsáætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar og leyfi mér að setja fram kröfur og óskir um breytingar á henni. Eru þær settar hér fram í knöppu formi. Sé óskað frekari skýringa er ég reiðubúinn til að veita þær skriflega eða munnlega. 1. Fyrst liggi fyrir niðurstöður Rammaáætlunar. Landsvirkjun fresti að hefja lögformlegt mat á umhverfisáhrifum framkominna hugmynda um Kárahnjúkavirkjun uns fyrir liggur heildstæð niðurstaða úr Rammaáætlun á nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem að er unnið á vegum ríkisstjórnarinnar og sem gert er ráð fyrir að taki til Kárahnjúkavirkjunar og tengdra veitna. 2. Mat á álverksmiðju komi á undan endanlegu mati á virkjunum. Ekki verði stefnt að því að ljúka lögformlegu mati á virkjunum í þágu NORAL-verkefnisins fyrr en lokið er matsferli vegna álverksmiðju á Reyðarfirði. Óvissa mun ríkja um hvort fallist verði á hugmyndir Reyðaráls hf. um fyrri og síðari áfanga álverksmiðju á Reyðarfirði [280 + 140 þúsund tonn á ári] uns matsferli þeirra vegna er að fullu lokið. Samkvæmt NORAL-verkefninu er umrædd álverksmiðja forsenda Kárahnjúkavirkjunar og tengdra veituframkvæmda og því verður að telja órökrétt að ætla að meta að lögum virkjanir í þágu verksmiðjunnar fyrr en niðurstaða er fengin úr mati vegna framkvæmdaáforma Reyðaráls hf. 3. Lágmarkstími til rannsókna tvö heil sumur. Með tilliti til umfangs þeirra virkjunarframkvæmda sem Landsvirkjun ráðgerir samkvæmt matsáætlun sinni, verður að áætla lágmarkstíma til rannsókna á umhverfisáhrifum þeirra tvö heil sumur (2001 og 2002). Fellur það hvað tíma snertir að ofangreinum ábendingum skv. tl. 1 og 2. Liggi fyrir niðurstöður úr Rammaáætlun fyrir árslok 2002 ætti að vera unnt að leggja vel undirbúna matsskýrslu vegna Kárahnjúkavirkjunar fram til lögformlegrar umfjöllunar veturinn 2002-2003. 4. Reglugerð ekki til staðar. Fyrir liggur að ekki hafa enn verið sett í reglugerð “...nánari ákvæði um framkvæmd laganna...”, þ.e. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 19. grein nefndra laga og ákvæði IV. til bráðabirgða, en samkvæmt því skal slík reglugerð hafa öðlast gildi í síðasta lagi 1. október 2000. Ótækt sýnist að ætla að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum þessum áður en umrædd reglugerð hefur öðlast gildi. Á það ekki síst við þegar jafn stórfelld framkvæmdaáform eru annars vegar. Beinlínis er tekið fram í 19. gr. b.-lið að nánari ákvæði í reglugerð varði m.a. “framsetningu matsáætlunar, matsskýrslu og gögn,” og samkvæmt c.-lið sömu greinar “samráðsferlið,”. Hlýtur það að leiða til óviðunandi réttaróvissu, jafnt fyrir framkvæmdaraðila sem aðra, að hefja matsferli fyrir útgáfu lögboðinnar reglugerðar. 5. Fram fari mat á stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Vegna fram kominna tillagna Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) og fleiri um stofnun Snæfellsþjóðgarðs, sem Náttúruverndarþing tók efnislega undir í janúar 2000, er eðlilegt að Landsvirkjun óski eftir því við þar til bær stjórnvöld (umhverfisráðuneyti/Náttúruvernd ríkisins) að þau láti kanna með sjálfstæðum og formlegum hætti slíkan kost sem felur í sér allt aðra landnýtingu á því svæði sem hugmyndirnar um Kárahnjúkavirkjun taka til. 6. Sjálfbær orkustefna. Könnun á núll-kosti af hálfu Landsvirkjunar ætti meðal annars að taka til fram kominna tillagna um sjálfbæra orkustefnu (13. mál á 125. löggjafarþingi), þar á meðal hversu mikla vatnsorku er líklegt að heimilað verði að virkja til raforkuframleiðslu næstu hálfa öldina eða svo, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Inn í þær athuganir verði teknar hugmyndir um “vetnissamfélag” hérlendis, þ.e. útrýmingu á innfluttu eldsneyti stig af stigi á næstu áratugum, sbr. m.a. hugmyndir stjórnvalda þar að lútandi, sem og áætlaðan vöxt almenns raforkumarkaðar. 7. Áhættumat af frekari raforkusölu til stóriðju. Gerð verði úttekt á þjóðhagslegri áhættu og áhættu fyrir Landsvirkjun sem því tengist að ætla að binda meiri raforkusölu en orðið er við sveiflukenndan markað eins og til þungaiðnaðar, í þessu tilviki álframleiðslu, og verði gerð grein fyrir því í matsskýrslu. 8. Fórnarkostnaður af umhverfisspjöllum verði metinn. Við mat á Kárahnjúkavirkjun verði teknar upp og þróaðar aðferðir til að meta tölulega fórnarkostnað vegna fyrirsjáanlega tapaðra náttúrugæða af völdum umræddra virkjunarframkvæmda, sbr. meðal annars ábendingar innlendra sérfræðinga eins og Ragnars Árnasonar, Geir Oddssonar, Magnúsar Harðarsonar og Páls Harðarsonar sem allir hafa fjallað fræðilega um aðferðir og leiðir í þessu skyni. Gerð verði viðhlítandi grein fyrir niðurstöðu slíkra athugana í matsskýrslu. Áætlaður fórnarkostnaður verði reiknaður inn í hugmyndir um raforkuverð frá Kárahnjúkavirkjun þannig að hann endurspeglist í hugsanlegum samningum um raforkusölu. 9. Losun gróðurhúsalofttegunda. Gerð verði ítarleg grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda úr ráðgerðum miðlunarlónum og vegna annarra breytinga á virkjunarsvæðum og hvernig slík losun og eftir atvikum aukin binding kemur heim og saman við ráðgerða aðild Íslands að Kyótóbókunni. Hliðstæða kröfu verður að gera til matsáætlunar á vegum Reyðaráls hf. að því er hugsanlega álverksmiðju varðar. 10. Raflínutenging við aðra landshluta. Gerð verði í matsskýrslu ítarleg grein fyrir hvort fyrirhugað sé að tengja hugsanlega Kárahnjúkavirkjun við raforkukerfi annarra landshluta og ef svo væri, hverjum er ætlað að bera kostnað af stofnlínum, sem reistar yrðu í þessu skyni. 11. Skipurit yfir vinnutilhögun. Farið verði yfir skipurit að vinnutilhögun verkefnisins, sbr. bls. 3 í tillögu að matsáætlun og könnuð staða þeirra opinberu aðila sem þar er ætluð þátttaka með tilliti til hlutverks þeirra, lögbundins eða umsamins. Spurningar hljóta t.d. að vakna hver verði staða Náttúrufræðistofnunar Íslands sem óháðs ráðgjafa stjórnvalda og almennings eftir að stofnunin hefði bundið sig í skipurit eins og þarna er gert ráð fyrir. Svipuðu máli gegnir um þátttöku manna í “ráðgjafarhópi” þegar um er að ræða einstaklinga sem tekið hafa að sér opinbert eftirlitshlutverk fyrir stofnanir á sviði náttúruverndar. Miklu skiptir fyrir verkaskiptingu og trúverðugleika að ekki sé fyrirfram stofnað til hagsmunaárekstra í ferli eins og því sem hér er í undirbúningi. 12. Fjárhagsleg aðild Landsvirkjunar að óskyldum verkefnum á matstíma. Á kynningarfundi Landsvirkjunar á Egilsstöðum 15. júní sl. greindi forstjóri Landsvirkjunar frá því að fyrirtækið standi fjárhagslega undir Rammaáætlun stjórnvalda vegna vatnsfalla og jarðvarma. Einnig hefur komið fram að Landsvirkjun greiði laun vegna eftirlitsverkefna á vegum Náttúruverndar ríkisins á ráðgerðu virkjunarsvæði og kaupi sér jafnframt aðstöðu til upplýsingamiðlunar hjá Gunnarsstofnun á meðan á fyrirhuguðu matsferli stendur. Við aðrar aðstæður þarf ef til vill ekkert að vera athugavert við fégreiðslur af þessu tagi, en hætt er við að slíkt ýti undir tortryggni þegar víðtæk og vandasöm áætlanagerð svo og afar umdeild framkvæmdaáform eru annarsvegar. Þarf því sérstaka aðgát í þessum efnum þar sem leitast sé við að tryggja að ekki sé farið á svig við góða viðskipta- og samskiptahætti. Á það ekki síður við um hlutaðeigandi opinbera aðila en Landsvirkjun. Í von um að ofangreinar ábendingar fái ítarlega athugun og geti orðið til bóta við undirbúning matsáætlunar. Virðingarfyllst Hjörleifur Guttormsson Afrit sent Skipulagsstofnun
|