BaldurJónsson
1933-2020

Freyshólar í Skógum höfðu sérstakan sess í huga mínum á æskuárum. Þar bjó kjarnafjölskylda við lítil efni í torfbæ með fjósbaðstofu framundir 1950, býlið fyrrum hjáleiga frá Hafursá. Guðmundur og Sigurbjörg höfðu tekið við jörðinni 1906, hann fæddur 1857 og spjallaði ég við hann þar sem hann lá í kör á baðstofuloftinu. Jón sonur þeirra var þá bóndinn ásamt Hildi Stefánsdóttur og eignuðust þau 5 börn: Stefán, Huldu, Guðmund og tvíburana Baldur og Braga. Þar var þröngt í búi á kreppuárum fjórða áratugarins og var Jóni bónda eitt sinn á jólaföstu neitað um úttekt í kaupfélaginu á Reyðarfirði. Frekar en snúa tómhentur heim leitaði hann til Kristins kaupmanns sem tók hann í viðskipti.

Öll urðu Freyshólasystkini góðir vinir okkar barna sem þá ólumst upp á Hallormsstað, m.a. lágu leiðir sumra þeirra saman með okkur í farskóla sem starfræktur var í nokkrar vikur á Hafursá veturna 1944 og 1945. Klukkutímagangur var þangað í skólann frá Hallormsstað en aðeins 20 mínútna labb frá Freyshólum. Við Gunnar tvíburabróðir minn urðum eðlilega nánastir þeim Baldri og Braga, sem báðir gerðust starfsmenn skógræktarinnar á Hallormsstað vorið 1953. Þótt ekki væru þeir eineggja var samheldni þeirra mikil alla tíð, jafnt í starfi og tómstundum. Engir geta með meiri rétti talist skógarhöggsmenn, þar sem þeir byrjuðu með öxina áður en vélsögin tæki við.

Alla tíð var Hallormsstaður starfsvettvangur þeirra tvíbura og þar komu þeir sér upp fallegu húsi undir Fjósakambi 1978, sem átti eftir að verða eins konar listasmiðja, þar eð báðir voru prýðilega hagir og vandvirkir. Á Hallormsstað staðfestist einnig Guðmundur eldri bróðir þeirra ásamt með Heiðrúnu Valdimarsdóttur. Heimsókn til tvíburanna á Lauflandi hefur verið fastur liður í árlegri komu okkar Kristínar á staðinn og margir góðir gripir úr smiðju þeirra bræðra farið um okkar hendur.  Minningin um Baldur Jónsson lifir í margra huga og bróðurnum Braga sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim