Birna G Bjarnleifsdóttir
1934–2022

Leiðir okkar lágu saman upp úr 1970, hún sem talsmaður virkrar leiðsagnar í ferðamennsku, undirritaður á kafi í náttúruverndarstarfi eystra og á landsvísu. Birna var ötul og óþreytandi að byggja upp félagsstarf leiðsögumanna með áherslu á fræðslu um íslenska náttúru. Vinnubrögð hennar og skilningur á þekkingu á landi okkar sem undirstöðu fyrir farsæla ferðaþjónustu vöktu athygli margra, m.a. Náttúruverndarráðs og félagasamtaka um náttúruvernd sem stofnuð voru á 8. áratugnum í öllum landshlutum.  
 
Við Birna hittumst öðru hvoru hér syðra eftir að hún var orðin formaður í Félagi leiðsögumanna. Ég færði henni 1976 fyrstu gönguleiðakortin sem gefin voru út hérlendis að frumkvæði ÚÍA, Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Sjálf var hún vakandi fyrir fræðslu um landið sem undirstöðu náttúruverndar og samdi sjálf margháttað efni um ferðamál fyrir leiðsögumenn og almenning.  
 
Fátt hefur tekið jafnmiklum breytingum hérlendis síðustu hálfa öld og ferðalög um landið og þjónusta á því sviði. Sá grunnur upplýsinga og fræðslu sem Birna Bjarnleifsdóttir átti stóran þátt í að byggja upp hefur komið að góðu haldi, þótt enn sé brýnt að hlúa að því starfi sem hún helgaði sig í forystu fyrir samtök leiðsögumanna. 

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim