Björgvin Salómonsson
1934-2019

Fregnin af andláti Björgvins Salómonssonar kom ekki á óvart, þar eð hann hafði um skeið átt við erfið veikindi að stríða. Þau megnuðu þó ekki að svipta hann æðruleysi og meðfæddri glaðværð fram undir það síðasta. Ómældan þátt í að létta honum tilveruna allt til loka átti Hulda, hans staðfasti lífsförunautur, gædd um margt svipuðum eiginleikum. Lengst af var bjart yfir lífi beggja og að baki liggur einkar farsælt, fjölbreytt og  gjöfult ævistarf. Björgvin var óvenju fjölhæfur og vandvirkur og  virtist njóta sín í hverju því starfi sem hann tók sér fyrir hendur. Þess naut heimasveit hans í ríkum mæli þar sem hann varð farsæll skólastjóri og rithöfundur með brennandi áhuga á sögulegum fróðleik og  menningarstarfi. Tímaritið Dynskógar nutu krafta hans um áratugi og hann átti sem ritnefndarformaður drjúgan þátt í tilkomu þriggja binda Verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga, stórvirkis sem Kjartan Ólafsson er höfundur að. Hjá Björgvin lagðist allt á sömu sveif, snyrtimennska, léttleiki, fagurt tungutak og listaskrift.

Leiðir okkar Björgvins lágu saman í Austur-Þýskalandi þar sem hann stundaði háskólanám í sögu og bókmenntum í  tvo vetur, þann fyrri í Berlín, þann síðari í Leipzig. Hann átti góðan hlut í gagnrýninni umsögn um „alþýðulýðveldið“ sem seinna varð opinber og ekki öllum að skapi. Nokkru síðar lauk hann prófum frá Háskóla Íslands og kennaraprófi og helgaði sig brátt skólastjórn á Ketilsstöðum. Hjá Björgvin og Huldu kom ég við og gisti í ófá skipti á áttunda áratugnum í þeysingi milli landshluta. Það voru gjöfular stundir. Stjórnmálaskoðanir okkar féllu í svipaðan farveg, bæði fyrr og síðar. Við upphaf Alþýðubandalagsins  1968-69 settist hann inn á Alþing sem varaþingmaður fyrir Suðurlandskjördæmi og síðar gegndi hann um árabil oddvitastarfi fyrir sína heimasveit. Fáir hafa endurgoldið heimahögum fósturlaunin jafn ríkulega. – Huldu og öðrum aðstandendum sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim