Einar
Þorvarðarson Undirritaður var um áratug eldri en Einar Þorvarðarson og átti ekki von á að þurfa að mæla eftir hann. Þorsteini Jónssyni kaupfélagsstjóra afa hans og Sigríði Þorvarðardóttur ömmu hans í Hermes á Reyðarfirði kynntist ég á æskuárum mínum. Sonur þeirra lögfræðingurinn Þorvarður, faðir Einars, starfaði enn í Stjórnarráðinu í Reykjavík um það leyti sem Einar var ráðinn yfirmaður Vegagerðarinnar á Austurlandi árið 1971. Aðsetur hans var síðan alla tíð á Reyðarfirði. Þar gegndi hann starfi sínu með prýði í nær 40 ár. Leiðir okkar lágu oft saman lengst af því tímabili á meðan undirritaður var búsettur í Neskaupstað fram undir árslok 2005. Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) voru stofnuð haustið 1970 og höfðu verndun óspilltrar náttúru efst á sinni dagskrá, þar á meðal við vegagerð. Sem formaður þeirra og jafnframt fulltrúi í Náttúruverndarráði til 1978 átti ég mikil samskipti við yfirstjórn Vegagerðarinnar eystra. Þá mótaðist ágætt samstarf okkar Einars, með samráði um uppbyggingu og viðhald vegakerfisins á Austurlandi. Hittumst við þá reglulega og fórum á hverju vori yfir fyrirhugaðar nýframkvæmdir vega og efnistökustaði, oft með aðstoðarmönnum. Var Einar ekki síður en ég áhugasamur um vandaðan undirbúning og milli okkar þróaðist samstarf sem færðist með ýmsum hætti yfir á starf mitt sem alþingismanns fram til aldamótanna 2000. Um sameiginlegar skoðunarferðir urðu til fundargerðir sem bera vott um áhuga okkar á farsælli niðurstöðu. Í hugann koma upp minningar um fjölmörg álitamál þar sem vanda þurfti til verka. Sem dæmi um það má nefna nýlagningu vegar um Haugahóla í Skriðdal, margbrotið landslag sem reynt var að raska sem minnst og tókst að mati okkar Einars vonum framar. – Saman stóðum við gegn því að ráðist yrði í vegaruðning með jarðýtum um Búland og skriður gegnt Neskaupstað yfir til Hellisfjarðar og ýmis fleiri slík dæmi koma upp í hugann. Einar Þorvarðarson var þannig náttúruunnandi til fyrirmyndar í lífi og starfi og miðlaði síðar sem leiðsögumaður á efri árum fróðleik til gesta og gangandi um austfirska náttúru. Skoðanir okkar um æskileg nýmæli í vega- og jarðgangagerð á Austfjörðum féllu um flest saman. – Ég votta aðstandendum hans og samstarfsmönnum samúð mína. Hjörleifur Guttormsson
|