Eysteinn Þorvaldsson
1932 - 2020

Eysteinn Þorvaldsson var glæstur á velli og skilur eftir sig merkileg verk um bókmenntir, einkum tengd íslenskri ljóðagerð eftir miðja síðustu öld. Eflaust er hann minnisstæður fjölda nemenda sem nutu handleiðslu hans á þessu sviði. Leiðir okkar lágu saman er ég hóf háskólanám í Leipzig í Austur-Þýskalandi haustið 1956, þar sem við vorum þá einu Íslendingarnir og bjuggum á sama stúdentagarði. Eysteinn hafði byrjað þar nám í blaðamennsku haustið áður og því orðinn hagvanur í borginni. Reyndar vorum við samferða að heiman þá um haustið, höfðum ætlað með íslenskum togara til Hamborgar, en sú ráðagerð brást á síðustu stundu og urðum við að taka okkur fari með Gullfossi á 1. farrými, þar eð ódýrari kostir voru uppseldir. Varð sú sigling eftirminnileg, ekki síst vegna þess að meðal samferðamanna voru Halldór Kiljan Laxness, nýkrýnt nóbelsskáld, og fjandvinur hans Jónas Jónsson frá Hriflu. Áttum við samtöl við þá báða, einkum var Jónas fús til skrafs við ungmenni. – Nám okkar Eysteins var á ólíkum sviðum en áhugi á stjórnmálum og bókmenntum gaf nóg tilefni til skrafs og ljóð voru í hávegum höfð á síðkvöldum. Einmitt á sviði ljóðagerðar urðu vatnaskil hérlendis þessi árin með Birtingsmenn í fararbroddi.

            Styttra varð í blaðamennskunámi Eysteins en hann hafði ráðgert og lágu til þess óvenjulegar aðstæður. Valdaflokkurinn SED í Austur-Þýskalandi teygði anga sína víða, þótt í mismunandi mæli væri innan deilda háskólans. Nám tengt fjölmiðlun var strengilega vaktað af flokksbroddum og gagnrýndi Eysteinn það ítrekað í mín eyru. Með honum í sama árgangi var stúlka frá Berlín, Helga Novak að nafni, og urðu kynni þeirra allnáin er á leið þennan vetur. Eftir árekstra í blaðamannadeildinni haustið 1957 ákvað hún ásamt Eysteini að hætta námi, fara úr landi gegnum Vestur-Berlín og halda til Íslands. Urðu af þessu ýmis eftirmæli. Ferill Helgu varð síðan litríkur þar sem hún gerðist rithöfundur, þekkt sem slík í Þýskalandi fyrr og síðar en bjó við íslenskt ríkisfang til dauðadags 2013.

            Eftir heimkomu starfaði Eysteinn um skeið sem blaðamaður við Þjóðviljann, og tók jafnframt mikinn þátt í starfi Æskulýðsfylkingarinnar, félags ungra sósíalista, þar sem hann gegndi starfi forseta 1960–1962. Lagðist hann ásamt ýmsum öðrum fyrrum námsmönnum úr austantjaldsríkjum á sveif með þeim sem draga vildu úr vægi Sósíalistaflokksins, en breikka þess í stað grundvöll Alþýðubandalagsins sem loks varð að formlegum stjórnmálaflokki 1968.

            Hugur Eysteins beindist æ meir að kennslu og ritstörfum, sem tengdust íslensku máli og bókmenntum. Lauk hann cand. mag. prófi 1977 og varð síðar prófessor við Kennaraháskólann. Á þessu sviði vann hann þau verk sem lengi verður minnst.
            Eftir kynnin á æskuárum lágu leiðir okkar Eysteins stöku sinnum saman í kunningjahópi, ekki síst hjá Tryggva Sigurbjarnarsyni bekkjarbróður hans frá Laugarvatni og Siglinde eiginkonu Tryggva. Nú að leiðarlokum minnist ég af hlýhug samskipta okkar Eysteins fyrr og síðar.


Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim