Eyþór Haraldur Einarsson Eyþór Haraldur Einarsson var starfsssamur maður sem kom mikið við sögu grasafræðirannsókna og náttúruverndar hérlendis í fjóra áratugi. Hann var aðeins 4ra ára þegar faðir hans drukknaði 1933 af bátnum Friðþjófi frækna sem fórst við fjórða mann á heimamiðum í Norðfirði. Móðir hans Gíslína og hennar fólk studdu Eyþór og yngri bróður hans til náms, en dánarbætur til hennar vegna drengjanna voru alls 4.200 krónur. Eyþór útskrifaðist 6 árum á undan mér frá MA, þannig að leiðir okkar lágu fyrst saman eftir að við Kristín fluttumst til Norðfjarðar haustið 1963. Þar heimsótti Eyþór móður sína og Harald afa sinn á Kvíabóli ár hvert, en Gíslína starfaði þá á skrifstofu Fjórðungssjúkrahússins. Ég fylgdist álengdar með rannsóknum Eyþórs og Kvískerjabræðra á landnámi plantna í jökulskerjum í Breiðamerkurjökli, sem hófust 1961 og voru nýmæli. Náttúrufræðikennari okkar í MA var Steindór Steindórsson, einn af fáum sem um miðja öldina stunduðu grasafræðirannsóknir í óbyggðum hérlendis. Skömmu eftir að Eyþór kom heim frá námi í Danmörku 1958 hóf hann störf á Náttúrufræðistofnun Íslands og veitti grasafræðideildinni þar forstöðu, einn sérfræðinga á því sviði lengi vel. Miðlaði hann drjúgum upplýsingum um gróðurfar Íslands, m.a. í alþjóðleg rit eins og Flóru Evrópu og Flóru Norðurlanda. Eyþór lét sig snemma varða náttúruvernd hérlendis, var lengi varaformaður Náttúruverndarráðs og formaður þess 1978–1991. Við vorum samferða í Náttúruverndarráði 1972–1978 undir forsæti Eysteins Jónssonar og fylgdumst þá að í eftirminnilegum sumarferðum ráðsins víða um land, þar sem með heimafólki voru lögð á ráðin um verndun stórra svæða, eins og Hornstranda og Jökulsárgljúfra. Á árunum 1989–1990 var Eyþór starfandi með mér í nefnd á vegum menntamálaráðuneytis um framtíð Náttúrufræðistofnunar af tilefni 100 ára afmælis Hins íslenska náttúrufræðifélags. Afrakstur hennar var frumvarp til laga um stofnunina sem lögfest var 1992 ásamt nýmæli um náttúrustofur, en nú eru starfandi átta slíkar í öllum landshlutum. Birtist framsýni Eyþórs sem fulltrúa NÍ í stuðningi við að dreifa aðstöðu til náttúrurannsókna víða um land. Svandísi eiginkonu Eyþórs kynntumst við Kristín í eftirminnilegum ferðum, en saman eignuðust þau fjórar dætur. Eyþór hélt bærilegri heilsu fram á efri ár, sótti fyrirlestra, tónleika og fylgdist vel með í fræðunum. Hans verður lengi minnst fyrir margþætt og farsæl störf. Hjörleifur Guttormsson
|