Finnbogi Jónsson
1950–2021

Skjótt skipast veður. Það var reiðarslag að frétta nýlega af Finnboga Jónssyni dauðvona vestur við Kyrrahaf. Aðeins tæpt ár var liðið frá því við síðast vorum í sambandi vegna sameiginlegra áhugamála, sem fylgt höfðu okkur í röska fjóra áratugi og rétt um tvö ár frá því hann gekk á Elbrus, hæsta fjall Evrópu. Ég frétti fyrst af Finnboga við námslok hans í Lundi í Svíþjóð 1978 og að hann þá hygðist helga landsbyggðinni krafta sína. Svo fór þó að ég stöðvaði hann af í iðnaðarráðuneytinu þar sem hann vann ómetanlegt starf um 3ja ára skeið, m.a. við að greina hagræn áhrif orkusölu til erlendrar stóriðju. Þaðan lá leið hans  á heimaslóðir í Eyjafirði og 1986 austur í Neskaupstað þar sem hann var framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf í hálfan annan áratug. Fjölskyldur okkar áttu með sér náið samband öll þessi ár, dæturnar Esther og Ragna í uppvexti og móðir þeirra Sveinborg  geðhjúkrunarfræðingur sem starfaði í áratug sem félagsmálastjóri í Neskaupstað. Andlát hennar á miðjum aldri var öllum áfall, sem samheldin fjölskylda stóð þó af sér.

Náin kynni Finnboga af íslensku atvinnulífi og yfirburðaþekking skiluðu sér til margra gegnum þau fjölmörgu trúnaðarstörf sem hann tók að sér. Gagnaðist honum þar einkar ljúf lyndiseinkunn, afburða tölvísi og að vera fljótur að greina aðalatriði hvers máls. Kynni hans og Berglindar Ásgeirsdóttur sendiherra í hálfan annan áratug reyndust einkar farsæl. Þau auðguðu ekki aðeins líf beggja, heldur breikkuðu enn sjóndeildarhring Finnboga sem birtist m.a. í greiningu hans á alþjóðlegum sjávarútvegi og nýtingu á íslenskri tækniþekkingu til útflutnings. 

En þótt atvinnulíf og rekstur yrði aðal viðfangsefni Finnboga hafði hann áhuga á öllu í umhverfi sínu, náttúru og mannlífi. Því kom nafn hans upp í hugann þegar áhugahópur Perluvina ehf hóf undirbúning að náttúrusýningu í Perlunni árið 2015 og vantaði forystukraft. Í heimsókn haustið 2015 til Parísar á fund Finnboga og Berglindar féllst Finnbogi á að taka að sér stjórnarformennsku fyrir hópnum sem skilaði brátt þeim árangri sem þar blasir við, með stuðningi frá Reykjavíkurborg og samvinnu við aðra fjárfesta. Þetta verkefni rækti hann sem önnur af einstakri trúmennsku og lagni.
 
Við Kristín finnum sárt til með Berglind, dætrum Finnboga og öðrum niðjum sem sjá á eftir honum úr því öndvegi sem hann hefur skipað í hugum okkar. Verka hans verður lengi minnst.
Kristín og Hjörleifur Guttormsson

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim