| Gíslrún Sigurbjörnsdóttir Leiðir okkar Gíslrúnar lágu fyrst saman sumarið 1954 þegar hún var við vinnu í gróðrarstöðinni á æskuheimili mínu á Hallormsstað. Okkur varð vel til vina og bréf gengu á milli veturinn næsta þegar hún var við nám í París. Hún var þá eins og síðar einstaklega glaðvær og með mörg áhugamál. Í Vínarborg kynntist hún nokkru síðar góðvini mínum frá menntaskólaárum, Kjartani Ólafssyni, og þau gengu í hjónaband haustið 1957 um svipað leyti og við Kristín festum ráð okkar í Leipzig. Eftir að við að námi loknu fluttumst til Íslands sumarið 1963 voru Kjartan og Gíslrún með þeim fyrstu sem við heimsóttum, þá í Álfheimum. Allt var þá á huldu um framtíðina, en skömmu síðar bauðst Kristínu læknisstarf í Neskaupstað, sem leiddi til búsetu okkar þar í fjóra áratugi. Vegna samvinnu okkar Kjartans í stjórnmálum og á fleiri sviðum vissi ég af stækkandi fjölskyldu hans og Gíslrúnar. Alloft komum við Kristín á heimili þeirra, lengi á Kambsvegi 23, þar sem Gíslrún sá um ríkulegar veitingar. Þótt árin færðust yfir hélt hún æskuþokka sínum og léttri lund. Samskipti okkar undanfarið voru þó mest símleiðis og þannig heyrði ég síðast í Gíslrúnu fyrr á þessu ári. Hún bar sig vel þrátt fyrir hrakandi heilsu. Nú að leiðarlokum sendum við Kjartani og afkomendum hans og Gíslrúnar innilegar samúðarkveðjur. Hjörleifur Guttormsson
|