Gissur Ó. Erlingsson
1909 – 2013

Gissur Ó. Erlingsson hefur kvatt okkur, allra karla elstur, óvenjulegur fjölfræðingur, jafnvígur á tungumál og tækni og fór allra sinna ferða fram undir það síðasta. Ég hitti hann síðast á 100. aldursári, hressan eins og fyrir hálfri öld austur í Neskaupstað, heyrnin þó aðeins farin að gefa sig. Föðurforeldrar hans fluttu sig austur á land frá Kálfafellskoti í Fljótshverfi með níu uppkomin börn sín og bústofn og settust að í Brúnavík austan Borgarfjarðar. Einn sona þeirra, Erlingur, síðar kunnur sem grasalæknir, hafði áður útskrifast frá Búnaðarskólanum á Eiðum. Hann kvæntist Kristínu Jónsdóttur frá Gilsárvelli í Borgarfirði og frá henni liggja ættir okkar Gissurar saman í 5.-6. lið. Gissur fæddist í Brúnavík 1909, næstelstur í 11 barna hópi, en ólst upp til 9 ára aldurs á Gilsárvelli. Árið 1918 fluttist hann með foreldrum sínum til Reykjavíkur, þar sem faðir hans stundaði óhefðbundnar lækningar fram á efri ár.
Gissur var rösklega fertugur er leið hans lá á ný til Austurlands og þá í Eiða þar sem hann tók við starfi endurvarpsstjóra Ríkisútvarpsins 1952, en jafnframt var hann stundakennari við Alþýðuskólann með ensku sem aðalgrein. Margir nemendur minnast hans sem frábærs kennara, sem átti það þó til að skipta skapi. Frá Eiðum réðist Gissur til Neskaupstaðar sem stöðvarstjóri Pósts og síma 1965–1970. Þar kynntist ég honum og Valgerði síðari konu hans fyrst að ráði og áttum við margar ánægjulegar stundir saman. Gissur var hafsjór af fróðleik, enda lífsreyndur er hér var komið sögu. Átti það jafnt við um menn og málefni sem og bókmenntir, en einnig hafði hann yndi af útivist með golf sem sérstakt áhugamál.
Æskustöðvarnar voru Gissuri eðlilega hugleiknar og hann gerðist eins konar fylgdarmaður í fyrstu ferð minni í Víkur austan Borgarfjarðar síðla júlímánaðar 1967, nánar til tekið til Húsavíkur. Við lögðum upp með tjald og vistir og Gissur hafði veiðistöng meðferðis til að renna fyrir silung. Þá var enn búið á einum bæ í Húsavík sem fór í eyði síðust Víkna árið 1974. Við lögðum upp frá Norðfirði í blíðviðri fullir bjartsýni, settum upp tjald, en strax fyrstu nóttina gerði hroka norðaustanátt með úrhelli og allt fór á flot. Við leituðum húsaskjóls í yfirgefnu og köldu steinhúsi á Dalllandsparti og höfðumst þar við í þrjá sólarhringa uns slotaði, þó með tíðum heimsóknum heim á bæ í Húsavík. Þar þágum við góðgerðir hjá Antoni og Önnu og fræddumst um margt af heimafólki. Frumstæð vegslóðin úr Borgarfirði yfir Húsavíkurheiði hafði víða grafist sundur í úrfellinu en símasamband þó ekki rofnað þannig að símstöðvarstjórinn gat látið Valgerði sína vita um aðstæður. Á fimmta degi kom Hannes bóndi á Grund í Borgarfirði á traktor með mokstursskóflu og greiddi götu okkar til baka. Áður hafði ég þó náð að rýna í gróðurríki víkurinnar og sækja eintök af baggalútum yfir í Álftavíkurtind á meðan Gissur vígði veiðistöngina. – Ferð sem þessi líður ekki úr minni og síðan hef ég vitað að Gissur Ó. Erlingsson ætti fáa sína líka.  

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim