Guðmundur Magnússon
1926 – 2022

Kynni mín af Guðmundi Magnússyni hófust þegar hann flutti að sunnan í heimabyggðina á Reyðarfirði 1977 og tók þar við starfi fræðslustjóra Austurlands. Um þær mundir vann ég m.a. að skólamálum eystra, bæði á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Framundan var lokaundirbúningur að Menntaskólanum á Egilsstöðum sem tók til starfa 1979 og jafnframt var unnið að stefnumörkun um framhaldsskólastigið í fjórðungnum undir forystu Gerðar G. Óskarsdóttur skólastjóra í Neskaupstað.  Við tókum þegar upp samstarf við Guðmund sem nýráðinn forstöðumann Fræðsluskrifstofu Austurlands sem staðsett var á Reyðarfirði. Meginverkefni hennar varðaði grunnskólastigið, sem lagði til efniviðinn í væntanlega framhaldsskóla í fjórðungnum. Það var mikill happafengur að fá Guðmund til forstöðu skrifstofunnar, reyndan skólamann úr höfuðstaðnum og öllum hnútum kunnugan á Austurlandi frá fyrri tíð. Fyrstu árin var skrifstofan staðsett í þröngu húsnæði að Mánagötu 14 á Reyðarfirði, en var flutt um set yfir í Hermes 1985. Þar kom ég sem þingmaður oft við hjá Guðmundi á leið gegnum kauptúnið næsta áratuginn.
Eftir að Guðmundur flutti ásamt fjölskyldu sinni frá Reyðarfirði hóf hann fljólega að vinna að ritun á sögu Reyðarfjarðar allt frá árinu 1883, og kom bók hans út árið 2003. Um það leyti vann ég að árbók um Austfirði fyrir Ferðafélag Íslands. Reyndist rit Guðmundar mér mikið og gott vegarnesti um sögu Reyðarfjarðar, m.a. varðandi hernámsárin 1940-1945, sem höfundurinn mundi vel eftir frá sínum unglingsárum þar á staðnum.  
Eftirlifandi eiginkonu Guðmundar, Önnu Arnbjörgu Frímannsdóttur og afkomendum þeirra vottum við Kristín samúð við fráfall þessa merka Austfirðings.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim