Guðmundur Sigurjónsson
15. september 1924 – 1. desember 2014

Þeim fækkar óðum sem settu svip sinn á austfirsk samfélög á öldinni sem leið. Einn af þeim var Guðmundur Sigurjónsson, lengst af búsettur á Strandgötu 40 í Neskaupstað. Hann hefur nú kvatt níræður að aldri. Þegar við Kristín fluttumst til Norðfjarðar haustið 1963 var Helga móðir Guðmundar enn á lífi en faðir hans Sigurjón Ásmundsson þá látinn. Af fimm systkinum var Guðmundur einn búsettur í Neskaupstað, einhleypur og hélt heimili með móður sinni. Hann var þá um fertugt, léttur í spori og áberandi stærð í bæjarlífinu þótt ekki væri hann hár til hnésins.

Guðmundur  var mikill félagsmálamaður, róttækur sósíalisti og öflugur liðsmaður þess meirihluta sem treyst var fyrir völdum í Neskaupstað í meira en hálfa öld. Lengst af vann hann í fiski hjá SÚN og Síldarvinnslunni og deildi þannig kjörum með öðru verkafólki, þekkti aðstæður þess og aðalvinnustað bæjarins út í hörgul. Það var Verkalýðsfélagi Norðfirðinga mikill styrkur að hafa hann innan sinna raða og engin tilviljun að hann var þar valinn til forustu um áratuga skeið. Í nokkur ár var hann formaður félagsins en lengst af varaformaður við hlið Sigfinns Karlssonar. Báðir voru þeir öflugir liðsmenn í Sósíalistafélagi Neskaupstaðar og síðan í Alþýðubandalaginu eftir að það tók við sem forystuafl á sjöunda áratugnum. Þátttaka þeirra í pólitísku starfi sem og margra annarra úr röðum verkafólks tryggði þeim jarðsamband sem völdust til trúnaðarstarfa í bæjarmálum og atvinnulífi. Sem trúnaðarmenn verkafólks gættu þeir þess að halda Verkalýðsfélaginu sem sjálfstæðu afli sem rækti sínar skyldur og tæki ekki við utanaðkomandi fyrirskipunum. Á þetta reyndi m.a. í kjaradeilum og við ákvarðanir í fyrirtækjum til að tryggja sem flestum atvinnu.

Félagsmál áttu hug og hjarta Guðmundar sem bætti margri fundarsetu við langan vinnudag og um helgar. Þar var verkalýðsfélagið í fyrirrúmi og þátttaka þess í Alþýðusambandi Austurlands og á vettvangi ASÍ. Hann lét sig heldur ekki vanta á fundi í Alþýðubandalaginu og sem náttúruunnandi tók hann þátt í flestum sumarferðum á þess vegum um fjórðunginn. Guðmundur gerðist félagi í Náttúruverndarsamtökum Austurlands við stofnun þeirra 1970 og þegar pólitísk uppstokkun varð á vinstri væng stjórnmálanna um síðustu aldamót var næsta sjálfgefið hvorn kostinn hann valdi.

Ásamt mörgum átti Guðmundur Sigurjónsson sér draum um betra og réttlátara þjóðfélag, ekki aðeins hérlendis heldur á alþjóðavísu. Eins og margir sósíalistar á liðinni öld taldi hann sig sjá drauminn vera að rætast í Sovétríkjunum og neitaði, að minnsta kosti í orði, að horfast í augu við staðreyndir eftir að leiktjöldin féllu. Það var hluti af skaplyndi hans. Hann var heldur ekki einn um að halda lengur en stætt var í vonina um að Eyjólfur hresstist. Við létum hins vegar ólíkt mat á heimsviðburðum ekki valda vinslitum.

Sú veröld sem Guðmundur Sigurjónsson nú hefur kvatt er gjörbreytt frá því sem var fyrir hálfri öld. Á yfirborðinu hefur margt breyst hér og annars staðar á Vesturlöndum til hins betra um kjör hins vinnandi fjölda. Ekki er hér þó allt sem sýnist og þeim fjölgar sem gera sér ljóst að kapítalisminn er á hraðferð inn í blindgötu. Til að afstýra óförum er því meiri þörf nú en nokkru sinni á róttækum hugmyndum og félagslegu afli til að afstýra skipbroti.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim