Guðrún Helgadóttir

1935 - 2022

Guðrún Helgadóttir var eftirminnilegur og öflugur einstaklingur, sem kom víða við. Ég var samflokksmaður hennar í Alþýðubandalaginu í aldarþriðjung og fylgdist með störfum hennar, einkum í þingflokki þar sem við áttum samleið í 15 ár. Hún varð ritari flokksins í formannstíð Lúðvíks Jósepssonar 1977 og landsþekkt árið eftir þegar hún átti hlut í stórsigri Alþýðubandalagsins í borgarstjórnarkosningum vorið 1978. Þar vakti hún athygli með skörulegum málflutningi og fyrir góða þekkingu á kjörum almennings, sem hún hafði öðlast í starfi sínu hjá Tryggingastofnun ríkisins allt frá árinu 1973. Einnig var hún þá orðin vinsæl sem höfundur að bókinni um Jón Odd og Jón Bjarna sem út kom 1974.

Hálfu öðru ári seinna, í vetrarkosningunum 1979, var Guðrún kosin á þing  þar sem hún tók við af Svövu Jakobsdóttur. Ég hafði verið sessunautur Svövu í þingflokki AB árið á undan. Þær voru ólíkir einstaklingar, báðar rithöfundar en með ólíka reynslu og samfélagssýn.

Þingflokkur AB hafði lengi aðsetur í Hlaðbúð upp undir rjáfri  í þinghúsinu. Þar vorum við Guðrún sessunautar í nokkur ár uns hún sem ritari þingflokksins færði sig nær borðsendanum. Fundargerðir hennar voru sjaldan lesnar upp og þóttu eftir á ekki mjög ábyggilegar heimildir. Guðrún var félagslynd og kunni best við sig í blönduðum hópi við langborðið í kaffistofunni, þar sem lengi vel var leyft að reykja að vild.

Við Guðrún náðum vel saman um ýmis þingmál, en um annað bar nokkuð á milli, m.a. hvernig réttast væri að þoka fram jafnrétti kynjanna, Kvennalistinn náði inn á þing 1983 og viðhorf okkar Guðrúnar til samstarfs um þeirra sjónarmið reyndust nokkuð ólik. Af eigin reynslu taldi hún að konur ættu að vera fullfærar um að standa á eigin fótum við hlið karla í stjórnmálum.

Guðrún varð forseti Sameinaðs þings í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1988-1991, en þingið var þá enn deildaskipt. Sem varaforseti í Neðri deild sat ég oft fundi undir hennar stjórn. Reyndist hún standa sig með ágætum í þessu starfi, sem ekki var alltaf auðvelt, þar eð stjórnarmeirihluti var þá stundum valtur. Hún lauk fastri þingsetu 1995, en kom haustið 1998 sem varaþingmaður inn í þingflokk okkar Óháðra og tók sæti í stuttan tíma á Alþingi. Þegar kom að því að bjóða fram fyrir VG í Reykjavík í fyrsta sinn 1999 hafði Guðrún óvænt hug á sæti framarlega á lista, en hlaut ekki til þess stuðning. Urðu það lyktir á stjórnmálaferli hennar.

Ég á margar góðar minningar um samstarf okkar Guðrúnar og hennar verður lengi minnst bæði sem rithöfundar og stjórnmálamanns.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim