Gunnar Sigmarsson
1932–2018

Mínir vinir fara fjöld ... Þetta vísuorð Bólu-Hjálmars kom mér í hug við að frétta af andláti Gunnars Sigmarssonar. Kynni okkar hófust í einni af fyrstu heimsóknum mínum á Vopnafjörð, tengt aðdraganda alþingiskosninga 1967. Síðan kom ég vart á staðinn í árvissum vitjunum án þess að líta við á Miðbraut 19 hjá þeim hjónum, oft í gistingu og alltaf fylgdu ríkulegar veitingar hjá Bergþóru. Í ábót var síðan fróðleikur um stöðu mála í firðinum og frásagnir sem tengdust liðinni tíð. Gunnar var víðlesinn, bókamaður af ástríðu og með glöggt auga fyrir umhverfi nær og fjær. Uppruni hans á söguslóðum í Krossavík átti eflaust sinn þátt í næmum tengslum við sögu og náttúru Vopnafjarðar sem hann miðlaði oft aðkomnum þegar hann var kallaður til  sem leiðsögumaður í ferðum um sveitina. Ekki spillti þá græskulaus húmor sem skreytti frásagnir hans af mönnum og málefnum.  Sumarið 1984 tókum við Steingrímur Sigfússon okkur til og þræddum efri mörk þáverandi kjördæma okkar fótgangandi frá Grímsstöðum, um Búrfellsheiði og Heljardal austur í Selárdal. Þar tók Gunnar Sigmarsson á móti okkur hjá Leifsstöðum við annan mann og jeppa og heima fyrir beið dýrðleg sviðaveisla hjá Beggu. Gunnar var staðfastur vinstrimaður og stuðningmaður Alþýðubandalagsins á meðan það var og hét og lagði þar ætíð gott til mála.  Að leiðarlokum þakka ég margan greiðann og vinsemd þeirra hjóna. Eftirlifandi eiginkonu, börnum þeirra, Margréti og Gunnlaugi, og öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim