Gunnlaugur R. Jónsson
1933‒2014

Maðurinn með ljáinn saxar á kynslóðirnar og röskur þriðjungur okkar sem gengum út í vorið 1955 með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri er horfinn af sjónarsviðinu. Nú síðast kvaddi okkur Húnvetningurinn Gunnlaugur R. Jónsson, kennari lengst af starfsævinnar, fyrst á Akranesi, síðan í Reykjavík og endaði farsælan feril sinn í Hafnarfirði þar sem hann var lengi búsettur með fjölskyldu sinni. Gunnlaugur ólst upp á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði og eftir landspróf í Reykjaskóla settist hann í 3. bekk MA haustið 1951. Vorið áður útskrifaðist frá skólanum bróðir hans, Stefán Jónsson læknir. Í menntaskólanum fylgdumst við Gunnlaugur að í stærðfræðideild og með okkur tókst góður kunningsskapur. Gunnlaugur var hæglátur og dagfarsprúður, stundaði námið af alúð og hafði þess utan yndi af lestri góðra bóka. Tungumál létu honum betur en stærðfræðin og hann reyndist prýðilega ritfær. Ég átti helst von á að hann legði fyrir sig íslensku, en leiðin lá til Kaupmannahafnar 1957 þar sem hann lagði stund á dýralæknisnám um skeið áður en hann sneri sér að kennslu hér heima 1961. Tengsl hans við Danmörku héldust þó með ýmsum hætti, m.a. var hann nám í Kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn veturinn 1976‒77 og seint á starfsævinni bætti hann við dönskukunnáttu sína í Háskóla Íslands.
Gunnlaugur var vinstrisinnaður þegar á unglingsárum og í þeim efnum áttum við samleið þegar á leið í MA. Ekki mun föðursystir hans Elísabet Eiríksdóttir verkalýðsforingi á Akureyri og bæjarfulltrúi sósíalista þar í marga áratugi hafa dregið úr róttækni hans, en Gunnlaugur og bræður hans áttu vísan stað á heimili hennar á námsárunum nyrðra. Síðar á ævinni tók hann þátt í störfum Alþýðubandalagsins, var m.a. varamaður í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um skeið og síðar fulltrúi í skólanefnd Iðnskólans þar.
Á seinni árum hafa leiðir okkar Gunnlaugs sjaldan legið saman en við bekkjarsystkinin höfum haft spurnir af erfiðum veikindum hans. Þegar hann nú er fallinn frá rifjast um ljúfar minningar frá námsárunum. Við sendum fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson

 



Til baka | | Heim