Guttormur Sigbjarnarson
1928‒2017

Með Guttormi Sigbjarnarsyni er fallinn frá einn af stólpunum úr kynslóð íslenskra náttúrufræðinga sem bættust í fámennan hóp sem fyrir var um miðja síðustu öld. Hann var þriðji yngsti í átta sytkinahópi barna Sigbjörns Sigurðssonar og Önnu Guttormsdóttur sem stóðu fyrir búi hátt í hálfa öld í Rauðholti í Hjaltastaðaþinghá. Þar hafði Sigurður afi hans og amman Sigurbjörg einnig búið nokkru fyrr í rösk 30 ár og eignast 11 börn. Ein í þeim hópi var Ingileif húsfreyja á Ormsstöðum og Buðlungavöllum hjá Hallormsstað, mér kær og minnistæð úr æsku. Það er þannig fjölmennur ættstofn þeirra Rauðhyltinga, sem yngsti bróðirinn Sævar gerði góð skil með fleirum í  Rauðhyltingabók árið 2005. Við bræðurna Pál og Sævar sem búsettir voru eystra átti ég eftirminnileg og góð samskipti og enn er merki ættarinnar haldið uppi á föðurleifðinni. Allt er þetta harðduglegt fólk sem ruddi brautina til nútímans og sumir brutust gegnum langskólanám af eigin rammleik.

Í þeim hópi var Guttormur. Í bréfi Sigbjörns föður hans til Einars bróður síns í Winnipeg 1948 stendur m.a.: „Guttormur sonur lauk gagnfræðaprófi s.l. vor. Hann hefir í hyggju að fara í verslunarskóla í haust ef fjárhagurinn leyfir. Hann gerir ráð fyrir að vera á Siglufirði í sumar. En það fer talsvert eftir síldveiðinni, hve mikið þeir bera upp, en skólavist í Reykjavík er býsna kostnaðarsöm.“ Svo fór að Guttormur settist í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi með sóma vorið 1952. Þar kynntist ég honum dálítið þótt þrjú ár skildu okkur að á námsbrautinni.

Síðar áttum við góð og eftirminnileg samskipti þegar hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga í árdaga þeirra samtaka og enn frekar í tengslum við jarðfræðirannsóknir hans í Krepputungu og á Brúaröræfum norðan Vatnajökuls um sama leyti. Jarðfræðikort af því svæði birtist árið 1974 sem jók mjög við þekkingu á þessum þá fáförnu öræfaslóðum. Síðar skrifaði Guttormur þrjár greinar í Náttúrufræðinginn, 1993 0g 1996,  um aðdraganda og niðurstöður þessara  rannsókna ásamt yfirliti um fyrri athuganir fræðimanna á þessu svæði. Risjótt veðrátta með norðan stórhríðum tafði þá fyrir útivinnu sólarhringum saman, einkum sumarið 1970, og geta frásagnir af þeim aðstæðum verið ferðalöngum nú á dögum víti til varnaðar.

Guttormur kom víða við í sínum rannsóknum auk þess að sinna kennslu og félagsmálum. Ég heyrði vel látið af honum sem kennara fyrir daga tölvualdar. Athuganir Guttorms á landmótun Íslands á jökulskeiðum kvartertímans eru um margt frumlegar og snúa m.a. að þýðingu alpajökla og sjávarrofs fyrir landmótun, m.a. á Austfjörðum. – Guttormur var vel á sig kominn fram á efri ár og það eru ekki mörg ár síðan við hittumst öðru hvoru í Laugardalslaug. Hans verður lengi minnst vegna mannkosta og drjúgs framlags til fræðanna.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim