Guttormur V. Þormar (1923–2015) Bæirnir Hallormsstaður í Skógum og Geitagerði í Fljótsdal standa hvor andspænis öðrum við Lagarfljót og er um þriggja km sjónlína á milli. Í æsku spreytti ungviði á fyrrnefnda staðnum sig á að reyna að greina með berum augum mannaferðir handan Fljóts. Þarna vissum við af frændum í varpa þótt skyldleikinn væri harla óljós, Guttormsnafnið þó tengiliður, en við bættist ættarnafnið Þormar sem hafði yfir sér framandi blæ. Samgangur milli þessara nágranna var stopull á fyrrihluta síðustu aldar, bátaeign engin og ísinn á Fljótinu talinn ótryggur þegar langt dró frá landi. Þótt aðeins tylft ára skildi okkur Guttorm að var hann af annarri kynslóð. Ég man fyrst vel eftir honum á landsmóti UMFÍ á Eiðum 1952 þar sem hann safnaði enn medalíum fyrir hlaup og stökk, landsþekktur íþróttamaður eftir sigra á Hvanneyrarmóti áratug fyrr. Þetta voru tímar frjálsra íþrótta, sem æskulýður sveitanna stundaði í túnfæti og útvarpið flutti sigurfréttir af afrekum heima og erlendis. Fyrsta heimsókn sem ég minnist í Geitagerði var sumarið 1954, ég þá ráðinn ökuþór á Willys-jeppanum með föður minn og Stefán Einarsson prófessor sem farþega, en Stefán vann þá að örnefnasöfnun og árbókum um Austfirði. Þarna sá ég í nærsýn sitthvað sem aðeins glitti í handan yfir Fljót, heimilisgarðinn með stæðilegu blágreni og Hlandkollubjargið upp af bæ. Í hlaði stóð þá eins og nú „S 1“, heimilisjeppinn sem enn er vel gangfær hálfri öld síðar. Guttormur var þá nýlega kvæntur Þuríði stúdent úr Reykjavík og var að taka við búi af Vigfúsi föður sínum, eftir að hafa í áratug verið barnakennari í Fljótsdalshreppi. Haft var á orði að í 20 ár hefði þá enginn Fljótsdælingur leitað kvonfangs utan sveitarmarka. Af þeim meiði spruttu fimm börn, sem öll leituðu sér staðgóðrar menntunar heima og erlendis. Geitagerðishjón, Guttormur og Þuríður, lögðu um áratugi margt til félags- og menningarmála innansveitar og á Héraði, m.a. í einörðum stuðningi við báða skólana á Hallormsstað, Guttormur sem formaður fræðslunefndar Hallormsstaðaskóla og Þuríður lengi prófdómari við Hússtjórnarskólann. Hún hvarf okkur alltof snemma. Í stjórnmálum studdi Guttormur Sjálfstæðisflokkinn, en forfeður hans og tveir alnafnar höfðu verið alþingismenn í árdaga sjálfstæðisbaráttunnar. Skógrækt varð snemma áhugamál hans eins og umhverfi Geitagerðis ber nú vott um. Þegar Náttúruverndarsamtök Austurlands beittu sér 1974 fyrir stofnun Lagarfljótsnefndar til að reisa skorður við miðlun í Fljótinu reyndist Guttormur traustur liðsmaður. Ólík flokksskírteini komu ekki í veg fyrir margvíslegt samstarf og vináttu okkar á milli. Síðast komum við Kristín við hjá einbúanum í Geitagerði í ágústlok 2011. Allt var þar í röð og reglu sem fyrr og góðum veitingum fylgdi margvíslegur fróðleikur og upprifjun. Er leið okkar lá hjá nú í sumar var Guttormur fjarri í kjölfar óhapps, en stærðfræðingurinn Skeggi gætti heimahaga. Þannig hafa niðjar þeirra hjóna um langt árabil endurgoldið fósturlaunin og stutt við ættstofnana sem nú eru fallnir. Hjörleifur
Guttormsson |