Hálfdán Björnsson Þegar horft er til Kvískerja og þess mannlífs sem þar dafnaði á öldinni sem leið kemur manni í hug háskóli í sveit. Barnahópur hjónanna Þuríðar og Björns, sem þar óx upp á fyrrihluta 20. aldar, vakti athygli margra sem komu við á Kvískerjum. Vilmundur Jónsson landlæknir er dæmi um slíkan, en hann gisti þar sumarið 1935 á ferð sinni landleiðina frá Hornafirði til Reykjavíkur. Ummæli hans um heimilisbraginn á Kvískerjum hafa síðan oft komið mér í hug þar sem hann segir „ ... öll börnin einstaklega myndarleg og svo snyrtileg, að þau myndu ekki skera sig úr í Austurstræti.“ Öll nutu þau góðs atlætis foreldranna, en einangrun Öræfa átti eflaust þátt í því að flest staðfestust einhleyp heima fyrir. Á bænum þróaðist verkaskipting, jafnt við bústörf og áhugamál. Í fræðaiðkun bar mest á þremur bræðranna. Flosi kannaði jökla og jarðfræði, Sigurður sá um söguna og félagsmál út á við, en Hálfdán kannaði lífríkið, fugla og smádýr en einnig gróður. Skólaganga í Héraðsskólanum á Laugarvatni var honum betri en engin, en framhaldið var sjálfsnám byggt á ótrúlegri athyglisgáfu, ögun og næmi fyrir öllu kviku. Ég hitti Hálfdán fyrst á Breiðamerkursandi í júlí 1966 þar sem byrjað var að brúa Jökulsá og hann í hlutverki ferjumanns. Nokkru seinna komst ég svo í Kvísker og fékk fylgd Hálfdáns um sveitina, fyrst út í Ingólfshöfða þar sem hann var á heimavelli. Spurningum svaraði Hálfdán hvorki með já eða nei fremur en aðrir sannir Skaftfellingar, heldur hlutlaust með „náttúrlega“, áherslan á síðari orðlið. Vegna starfa minna í Skaftafellsþjóðgarði á 8. áratugnum kom ég iðulega við á Kvískerjum og bar saman bækurnar við heimafólk. Hálfdán vígði mig inn í skordýrsafn sitt og miðlaði Náttúrugripasafninu í Neskaupstað góðum sýnishornum. Verndarhugsun var samgróin Kvískerjafólki. Á fundum Náttúruverndarsamtaka Austurlands miðlaði Hálfdán oft fróðleiksefni og á aðalfundi NAUST vorið 2011 var hann heiðraður og hylltur fyrir störf sín. Viðstaddir fundu að þessum hógværa vísindamanni þótti vænt um þá viðurkenningu. Þeir voru ófáir upprennandi náttúrufræðingar sem á seinnihluta síðustu aldar gengu í Kvískerjaskólann, sumir sendir þangað „í sveit“ til sumardvalar, en tengdust síðan staðnum traustum böndum. Í þessum hópi er Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun sem hefur ásamt með Hálfdáni ritað margt greina, m.a. um fiðrildi, en rannsóknir á þeim fallega dýrastofni eru líklega glæstasta uppskeran úr ævistarfi Hálfdáns. Rit hans um varpfugla í Öræfum sem gefið var út á vegum Náttúruverndarráðs 1979 fór einnig víða. Árið 1998 kom út Kvískerjabók, mikið rit til heiðurs Kvískerjafólki og árið 2003 var stofnaður Kvískerjasjóður er árlega veitir styrki til rannsókna. Allt er það mikilsvert og verðugt, en jafnframt þarf að huga að stórbrotnu landi Kvískerja, sem liggur að Vatnajökulsþjóðgarði. Lífsstarf og framlag Kvískerjasystkina og nú síðast Hálfdáns á að verða okkur hvatning til að hlúa að fræðslu um íslenska náttúru og verndun hennar. Hjörleifur Guttormsson |