Halldór Halldórsson
1934–2019

Við komum víða að af landinu í Menntaskólann á Akureyri um miðja síðustu öld, nokkur að austan, aðrir að vestan og norðan auk Akureyringa, sem oft voru um helmingur hvers árgangs. Fæstir komu sem vænta mátti sunnan að, en þó jafnvel einn og einn úr höfuðstaðnum. Við af landsbyggðinni fengum flest inni í heimavist MA, ýmist í gamla skólahúsinu eða á Nýju vistum sem fóru stækkandi og rúmuðu líka mötuneyti, sem enn er í notkun. Halldór Halldórsson kom í 3. bekk MA (1. bekk menntadeildar) frá Laugum þar sem móðir hans stýrði húsmæðraskólanum af rómuðum dugnaði. Þeir röðuðust fjórir drengir í eitt langt og mjótt herbergi, Glaumbæ  á Suðurvistum, þennan fyrsta vetur 1952-53: Halldór, Siglfirðingarnir Gunnar og Jóhann og Geir Garðarsson úr Reykjavík. Þeir þurftu að leggja með sér rúmstæði (dívana) heiman að og gegndu jafnframt símavörslu fyrir Suðurvistir. Brátt varð þessi vistarvera hluti af skólastofu. Ég kúrði þennan vetur með BóBó á neðsta gangi og við vöktuðum eina símann fyrir Norðurvistir til skiptis við nágranna. Oft leit ég við hjá Halldóri og félögum á Suðurvistum og skorti aldrei umræðuefni.  Við fylgdumst síðan að upp í stærðfræðideild skólans og útskrifuðumst vorið 1955. - Halldór  var einkar farsæll nemandi, jafnvígur á flestar greinar, hæglátur og bar höfuð yfir alla sambekkjunga. Ef ég man rétt var hann sjálfkjörinn inspektor skólans í 6. bekk. – Við innrituðumst í læknadeild HÍ haustið eftir, ég til málamynda en hann staðfastur í fræðunum. Órofa ferill hans sem læknis heima og erlendis ber vott um þá festu sem einkenndi Halldór. Hann þjónaði lengst af heimaslóð norðanlands, síðast sem yfirlæknir á Kristnesi. Kvonfang sitt sótti hann til Norðfjarðar þar sem Birna Björnsdóttir kona hans ólst upp við fjöruna. Þau komu upp fjórum börnum, en Birna kvaddi langt um aldur fram. – Leiðir okkar Halldórs lágu helst saman á stórafmælum bekkjarins, síðast 2015. Við bekkjarsystkinin glöddumst yfir nýjum förunauti hans. Ég hygg Halldór hafi átt góða daga lengst af eftir að hann lauk gegningum í læknisstarfi með prýði.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim