Helgi Hallgrímsson
1933–2020

Helgi var byrjaður í verkfræðinámi þegar leiðir okkar fyrst lágu saman í vinnu við landmælingar á Tungnáröræfum sumarið 1956. Báðir vorum við Austfirðingar en höfðum gengið hvor í sinn menntaskólann sem voru býsna ólíkir heimar í þá daga. Foreldrar Helga voru bæði ættuð af Héraði og margt öndvegisfólk á þeirra slóð. Leiðtogi okkar mælingamanna var þá og lengi síðan Steingrímur Pálsson sem hélt góðum aga á sínu fjörmikla liði. Helgi var þarna í ábyrgðarstarfi við þríhyrningamælingar og þurfti að ganga á hæstu fjöll og liggja þar stundum við dögum saman í bið eftir skyggni. Kom þá þegar í ljós að hann var hörkutól og vel fylginn sér fyrir utan að vera skemmtilegur félagi. Ferill Helga upp frá þessu bar vott um  dugnað, þrautseigju og samviskusemi  í þeim störfum sem hann tók að sér í þjónustu Vegagerðar ríkisins og sem vegamálastjóri í fyllingu tímans. Þjóðin öll dáðist að brúargerðinni miklu á Skeiðarársandi á árunum 1972–1974 þar sem Helgi hafði forystu og lagði nótt við dag.

Vegagerðin hefur löngum notið góðra starfskrafta og sem þingmaður fann ég vel það álit sem Helgi naut á sínum vettvangi áður en hann sjálfur tók við sem vegamálastjóri 1992. Náin samvinna við forverann Snæbjörn Jónasson var honum góður skóli, m.a. í viðhorfi til umhverfismála. Í tíð beggja komst á góð samvinna Vegagerðarinnar við Náttúruverndarráð um nýlagningu og frágang vega þar sem oft reyndi á að þræða bil beggja. Náið samráð ríkti milli þingmanna kjördæmanna og yfirstjórnar Vegagerðarinnar á þessum áratugum. Þannig sátu þingmenn hvers umdæmis fundi með vegamálastjóra við frágang framkvæmdaáætlana og eru margir þessara samráðsfunda mér minnisstæðir. Gott viðmót og kímni Helga átti sinn þátt í að þar náðist að jafnaði samkomulag þótt naumt væri skammtað.

Jarðgangagerð bættist við brúargerð sem stór framkvæmdaþáttur í tíð Helga sem vegamálastjóra. Áætlanir lágu fyrir í hans tíð bæði um jarðgöng á Vestfjörðum og Austfjörðum, m.a. um svonefnd T-göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar með legg undir Mjóafjarðarheiði til Héraðs. Seyðfirðingnum Helga leist vel á þá framkvæmd, en óeining í röðum sveitarstjórna eystra leiddi til að ekkert varð úr allt til þessa dags.

Árið 1999 stuttu eftir að Helgi lét af starfi vegamálastjóra var efnt til pílagrímsferðar gamalla mælingamanna norður yfir Tungná, í Illugaver og að Hágöngum. Margt hafði breyst á þeim slóðum og þáttakendur bætt við sig 43 árum frá sumrinu forðum. Óbreytt var hins vegar glaðværð og létt lund Helga sem og annarra. Nú að leiðarlokum tveim áratugum síðar þakka ég honum samfylgdina.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim