Helgi Seljan
1934-2019

Með  Helga Seljan kveður óvenju ötull baráttumaður á vettvangi félags- og stjórnmála. Aðeins 19 ára að aldri var hann orðinn fullveðja kennari á Fáskrúðsfirði og flutti sig þaðan með Jóhönnu eiginkonu sinni yfir í heimabyggðina Reyðarfjörð þar sem hann kenndi og stýrði skóla um 15 ára skeið. Fyrr en varði var Helgi orðinn þar formaður verkalýðsfélagsins, sveitarstjórnarfulltrúi og driffjöður í leikfélagi staðarins. Þá eignuðust þau hjón á innan við áratug fimm  börn sem öll eru þekkt af farsælum störfum hvert á sínu sviði. Fósturforeldrar Helga í Seljateigi voru traustur bakhjarl fjölskyldunnar. Þangað sótti Helgi í senn víðsýni í stjórnmálum og kynni af landbúnaði sem hann stundaði í hjáverkumr.

Þegar í alþingiskosningunum 1956 skipaði Helgi 2. sæti á framboðslista Alþýðubandalagsins í Suður-Múlasýslu og kom inn sem varaþingmaður 1958 og aftur haustið 1969. Hann var því enginn nýgræðingur þegar hann var kjörinn þingmaður vorið 1971. Alþingi varð síðan vettvangur hans um 16 ára skeið og á þeim tíma varð hann brátt þjóðþekktur af störfum sínum og framgöngu.

Kynni okkar Helga hófust fljótlega eftir að við Kristín settumst að í Neskaupstað 1963. Alþýðubandalagið var þá að festast í sessi og á árunum 1965-1966 áttum við hlut að stofnun félagseininga og kjördæmisráðs AB á Austurlandi. Þegar kom að framboði til Alþingis 1967 bárust böndin að okkur Helga að skipa sæti á eftir Lúðvík. Hvorugur vildi taka 2. sætið, Helgi vegna starfa síns sem skólastjóri og ég með önnur áform í huga. Helgi sættist loks á þetta gegn því að ég fylgdi á eftir. Í kosningunum 1971 bættist Sigurður Blöndal í hópinn. Við vorum kröfuhörð við þá félaga að sýna sig á  fundum, einnig í þinghléum um hávetur. Leiddi þetta samspil ásamt öðru til þess að Alþýðubandalagið varð stærsti flokkur í kjördæminu í þingkosningunum vorið 1978 með þrjá kjörna þingmenn.

Haustið 1979 tók Helgi við forystusæti á framboðslista AB eystra. Við fylgdumst síðan að á þingi til 1987 með Sveinn Jónsson sem varaþingmann. Aldrei bar skugga á okkar samstarf þessi ár eða síðar. Við héldum uppteknum hætti að heimsækja byggðarlög í kjördæminu, halda opna fundi og settum markið við að amk þrír heimamenn sýndu sig. Þetta brást aðeins einu sinni. Helgi varð ókyrr og við fórum heim. Þá kom í ljós að 15 voru mættir klukkutíma of seint að sveitarsið! Daginn eftir hringdi Helgi á flesta bæi í sveitinni til að gera gott úr þessu.
Ákvörðun Helga 1987 að hætta þingmennsku þótti okkur liðsmönnum AB miður, en þó skiljanleg eftir 16 ára ötult starf hans á Alþingi. Hann átti lengi við veilu í baki að stríða og því reyndust lýjandi ferðalög honum mótdræg. Styrkur Helga fólst ekki síst í áhuga hans á hag hvers einstaklings og einlægum vilja til að rétta hjálparhönd. Léttleiki hans og glettni í og utan ræðustólsins greiddu götu hans að áheyrendum. Á það reyndi áfram þegar ný og krefjandi viðfangsefni tóku við af þingstörfum. Aðeins fáir ná að skila slíku dagsverki.
Jóhönnu og afkomendum sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim