Helgi M. Arngrímsson
1951–2008

Hvert byggðarlag hérlendis hefur sín sérkenni og myndar umgjörð um íbúana. Fáar sveitir eiga hana rammgerðari og fegurri en Borgarfjörður eystra. Ekki er vafi á að þetta umhverfi hefur mótandi áhrif á fólkið sem þar býr, nálægðin við sjó og land og það litríki og dularmögn sem borgfirskt landslag býr yfir. Viðnámsþróttur samfélagsins sem þar hefur staðið af sér togkraftana burt verður ekki skýrður með hefðbundnum rökum og á sér dýpri rætur. Helgi Arngrímsson var dæmigerður fyrir þann dug og bjartsýni sem fékk ungt fólk á Borgarfirði til að hasla sér völl í heimabyggðinni um 1980. Upp frá því varð hann merkisberi nýmæla á mörgum sviðum, fyrst af öllu sem framkvæmdastjóri steiniðjunnar Álfasteins og út frá því verkefni þróuðust afskipti hans af ferðamálum sem hann skynjaði sem vaxtarbrodd og mikilvæga viðbót við það sem fyrir var.

Sameiginleg áhugamál urðu þess valdandi að ég kynntist Helga á fyrstu árum hans hjá Álfasteini. Fyrirtækið var raunar sprottið upp úr viðleitni til að efla atvinnulíf á landsbyggðinni með tilkomu iðnráðgjafa samkvæmt lögum 1980 og á þeim grunni byggðu síðar atvinnuþróunarfélög víða um land. Álfasteinn undir forystu Helga varð brátt einn gildasti sprotinn á þeim akri, dæmi um það sem unnt væri að áorka með innlendum efnivið og hugviti. Leit að efni til sölu og úrvinnslu hjá fyrirtækinu skerpti sýn Helga til fjölbreytninnar í náttúru byggðarlagsins og hann sá jafnframt möguleikana á að gera gönguferðir að aðdráttarafli fyrir heimamenn og gesti. Nokkru áður eða um miðjan áttunda áratuginn hafði ÚÍA gerst brautryðjandi í útgáfu göngukorta hérlendis og fékk undirritaðan til að leggja því lið. Helgi tók upp þennan þráð með öðrum áhugamönnum á Borgarfirði, byrjaði að merkja gönguleiðir þar og í Víkum og efna í kortlagningu þeirra. Afraksturinn af því starfi þekkir fólk um land allt, því að borgfirska frumkvæðið bar Helga út á víðari völl þar sem hann gerðist ráðgjafi um hliðstætt átak í öðrum landshlutum.

Sem þingmaður kynntist ég vel áhuga Helga og atorku við að ná fram úrbótum fyrir sína heimabyggð. Þannig stóð hann um árabil fyrir könnunum á viðhorfum og reynslu ferðamanna sem til Borgarfjarðar komu og vann vel úr þeim efnivið. Þingmenn kjördæmisins fengu að fylgjast með og því fylgdu brýningar um úrbætur, ekki síst í vegamálum, en bágt ástand Borgarfjarðarvegar var ofarlega á gátlistum Helga. Síðar urðu slíkar kannanir fastur liður í þróun ferðamála víða um land.

Leiðsögu- og kortagerðarmaðurinn Helgi Arngrímsson hafði vakandi auga á flestu í sínu umhverfi svo sem náttúrufyrirbærum og örnefnum. Við áttum mörg samtöl um slík efni og ábendingar hans reyndust mér notadrjúgar í landlýsingum. Samferðafólk ber honum söguna sem frábærum leiðsögumanni, glaðværum og nærgætnum. Það er sárt að sjá á eftir honum langt fyrir aldur fram en eftir lifir minning um einstakling sem gæddi umhverfi sitt lífi hvar sem hann fór. Að Helga stóð fjölmennur frændgarður og eiginkona sem deildi með honum áhugamálum og hlúði að honum síðasta spölinn. Mannvænleg börn þeirra halda uppi merki heimahaganna sem faðirinn helgaði líf sitt.  

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim