Hörður Kristinsson
1937–2023

Með Herði Kristinssyni hefur kvatt einn fremsti grasafræðingur Íslands síðustu hálfa öldina. Hann skilur eftir sig meiri og víðtækari upplýsingar um flóru Íslands en aðrir á sama skeiði, byggt á óvenju mikilli yfirsýn, heimildasöfnun og agaðri framsetningu sem gagnast lærðum sem leikum. Persónueigindir Harðar, lipurð og létt lund, auðvelduðu honum samstarf jafnt við eldri sem yngri fræðimenn á þessu sviði, konur jafnt sem karla. Honum var einkar lagið að safna heimildum og setja þær fram þannig að þær nýttust bæði sérfróðum og almenningi. Íslenska plöntuhandbókin sem komið hefur út í mörgum útgáfum síðan 1986 opnaði leikmönnum heim sem áður var óaðgengilegur, nema þeim sem ratað höfðu á þá gömlu Flóru Íslands eða önnur fræðirit og greinar. Kórónan á fræðastarfi Harðar var síðan forysta hans ásamt með Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jóni Baldri Hlíðberg í undirbúningi og útgáfu nýrrar og stórbrotinnar Flóru Íslands árið 2018.

Við Hörður vissum hvor af öðrum í Menntaskólanum á Akureyri, þaðan sem hann útskrifaðist 1958, þremur árum síðar en við Austfirðingarnir Helgi Hallgrímsson. Hörður fór í spor Helga við háskólann í Göttingen, en undirritaður stundaði á sama tíma nám í líffræði í Leipzig handan járntjaldsins. Helgi og Hörður lögðu saman kraftana við rannsóknir og útgáfu fræðirita nyrðra og þar tók Hörður við forstöðu Náttúrugripasafnsins af Helga upp úr 1970. Hörður var þá löngu orðinn doktor í fléttum en Helgi bætti þá og síðar við  sveppum  í flóruna sem fyrir var.
Undirritaður hafði um þetta leyti með góðri aðstoð komið upp náttúrugripasafni í Neskaupstað. Við Hörður ásamt Sveini Jakobssyni  þá forstöðumanni Náttúrufræðistofnunar Íslands vorum 1973 tilnefndir í stjórnskipaða nefnd á vegum Magnúsar Torfa  menntamálaráðherra. Stóð nefnd okkar saman að tillögu um að koma upp náttúrustofum til rannsókna víða út um land, hugmynd sem loks var lögfest árið 1992 og eru þær nú orðnar átta talsins.

Til Harðar leitaði ég oft á liðinni tíð í grúski mínu á flórusviðinu og við ritstörf um náttúrufar austanlands. Tók hann ljúflega við plöntuskráningum mínum og kom þeim inn á útbreiðslukort sín yfir einstakar tegundir í handbókinni 1986.

Hörður Kristinsson helgaði heimabyggðinni nyrðra krafta sína en hafði jafnframt landið allt undir í sínum fræðastörfum.  Rit hans vitna um virðingu fyrir móðurmálinu án þess að slakað sé á alþjóðlegum kröfum. Á slíkum merkisberum þarf þjóð okkar að halda nú sem aldrei fyrr.
Öllum aðstandendum vottum við Kristín hluttekningu við fráfall Harðar.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim