Höskuldur Jónsson
1937-2020

Leiðir okkar Höskuldar lágu fyrst saman um 1980 í Arnarhvoli þar sem stutt var um skeið á milli vinnustaða okkar og hann þá gamalgróinn starfsmaður í fjármálaráðuneytinu. Langur ferill hans þar sem embættismanns var einkar farsæll eins og í öðrum störfum sem hann síðar gegndi,  hvort sem var í opinbera þágu eða frjálsra félagasamtaka. Á síðarnefnda vettvanginum áttum við lengi samleið í Ferðafélagi Íslands, þar sem hann gegndi starfi forseta í heilan áratug 1985 til 1994 en síðan áfram sem ötull liðsmaður og þátttakandi. Fljótlega eftir að Höskuldur tók við forystu í stjórn Ferðafélagsins hóf hann baráttu fyrir nýju og bættu húsnæði í þess þágu. Á 60. aðalfundi félagsins 1987 greindi hann svo frá:

„Nú er orðið mjög þröngt um okkur á Öldugötunni og nýir tímar boða nýjar þarfir. Stjórn Ferðafélags Íslands hefur því beint þeim tilmælum til forráðamanna Reykjavíkurborgar, að félaginu verði látin í té lóð, sem reisa mætti á hús fyrir starfsemi félagsins. Á því er ekki vafi, að húsnæði í eigu félagsins, er hýst gæti samkomur þess, myndi stórauka starfsemina, efla það út á við og styrkja innviði þess. Vonum við að umsókn okkar verði svo vel tekið, að við gætum stigið skref í átt til raunveruleikans á þessu afmælisári.“

Hér var ekki látið sitja við orðin tóm. Á rúmgóðri lóð í Mörkinni 6 reis í stjórnartíð Höskuldar 2800 fermetra hús, m.a. með skrifstofuaðstöðu fyrir félagið og fundasal sem rúmar allt að 300 manns í sæti. Samtímis voru jafnframt í uppbyggingu margir ferðamannaskálar og í engu slakað á hefðbundinni starfsemi. Þetta sögulega átak hefði vart verið á annarra færi en Höskuldar, sem var í senn afburða talnaglöggur og raunsær framkvæmdamaður sem naut óskoraðs trausts. – Sjálfur var ég þá í hjáverkum byrjaður að grípa í árbókaskrif fyrir félagið undir ritstjórn Hjalta Kristgeirssonar sem Höskuldur réði til starfa. Af því samstarfi á ég ljúfar minningar sem rifjuðust upp í hvert sinn sem fundum okkar Höskuldar bar saman, síðast á aðalfundi Ferðafélagsins í Mörkinni 6 fyrir ári. Þeir munu margir sem minnast hans nú með hlýhug og virðingu. Eiginkonu hans og afkomendum sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim