Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir
1932–2019

Seyðisfjörður og Norðfjörður voru á margan hátt ólík samfélög á öldinni sem leið. Seyðisfjörður byggðist einkum upp sem verslunarstaður með miklum viðskiptum við Fljótsdalshérað fram undir 1920 og timburhúsabyggðin frá þeim tíma vitnar um stönduga millistétt á mælikvarða þess tíma.  Á Norðfirði þar sem við Kristín vorum lengi búsett var sjósókn og fiskvinnsla vaxtarbroddurinn og sjómenn og verkafólk í miklum meirihluta. Stjórnmálin endurspegluðu þessar ólíku aðstæður og ekki laust við að þess gæti enn í dag. Þó átti seyðfirskt verkafólk sér eindregna talsmenn fyrr og síðar. Þetta kemur upp í hugann þegar ég frétti af andláti Seyðfirðingsins Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur, húsmóður á Gilsbakka 1 undir tignarlega fjallinu Bjólfi. Þangað lá leið mín oft um áratugi á meðan ég tók þátt í stjórnmálastarfi eystra. Ingu Hrefnu og eiginmann hennar Jóhann Jóhannsson kennara vantaði sjaldan á fundi sem þar var boðað til í nafni Alþýðubandalagsins, enda skipuðu bæði sér eindregið á vinstri væng í stjórnmálum, jafnt heima fyrir og í landsmálum. Jóhann var fæddur á Vestfjörðum en leiðir hans og Ingu Hrefnu lágu saman árið 1953 á Arnarholtsheimilinu á Kjalarnesi þar sem bæði sinntu umönnunarstörfum um skeið. Þaðan var haldið austur í heimabyggð Ingu Hrefnu árið 1957 og þar komu efnileg börn þeirra fimm talsins í heiminn, en áður hafði Inga Hrefna eignast dóttur. Glaðværð ríkti ætíð á heimilinu þegar gesti bar að garði og ekki skorti umræðuefni. Frá bóndanum á ég mörg bréf með hollráðum og eftir að hann féll frá tóku við árvissar kveðjur frá Ingu Hrefnu, síðast á jólaföstunni 2018. Hún hafði fallega og styrka rithönd allt til loka. Að leiðarlokum þakka ég henni og hennar fólki samleið og málefnalegan stuðning um áratugi.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim