Ingibjörg Zophoníasdóttir
1923–2023

Við kveðjum nú Ingibjörgu á Hala sem vantaði aðeins nokkra mánuði í 100 árin og hélt andlegum og líkamlegum kröftum fram undir það síðasta. Eiginmaðurinn Torfi var átta árum eldri og kvaddi okkur í byrjun þessarar aldar 2001 eftir ötult lífsstarf sem skólastjóri í Suðursveit og bóndi á Hala. Saman eignuðust þau Ingibjörg 9 börn sem upp komust og mörg hver setja nú svip á byggðarlagið sunnan Vatnajökuls ásamt fjölda afkomenda.
Suðausturland og kynni við fjölda fólks í sveitunum sunnan Jökuls varð drjúgur þáttur í mínu lífi eftir að ég fyrst fór þar um í könnunarferð 1966. Þá var að vísu ekið fyrir ofan garð á Breiðabólsstað en brátt varð á því breyting og komið við árvisst á Hala (Breiðabólsstaðarhala) og skólasetrinu Hrollaugsstöðum þar sem Torfi Steinþórsson, eiginmaður Ingibjargar var skólastjóri í 40 ár, frá 1945–1985. Áður hafði hann eignast Ingibjörgu að lífsförunaut eftir kennslustörf í Svarfaðardal árin á undan. Hún kom þaðan bóndadóttir frá Hóli og urðu foreldrar hennar bæði langlíf líkt og hún sjálf. Þau Ingibjörg og Torfi höfðu fasta búsetu á Hala frá 1966  í skjóli foreldra hans, SteinÞórs Þórðarsonar og Steinunnar Guðmundsdóttur, sem gerðu garðinn landsfrægan ekki síður en Þórbergur, með viðtalsbók Stefáns Jónssonar Nú, Nú ... sem útvarpað var um 1970.

Verkefni Ingibjargar var ærið við uppeldi barnahópsins, en hún fylgdist jafnframt með bústörfum og miðlaði ómetanlegum sýnishornum af þeim með myndum sem hún tók, m.a. af útræði frá Bjarnarhöfn. Þau Torfi og fjölskylda urðu með félögum á Höfn stoð og stytta í starfi Alþýðubandalagsins sem stofnaði félag í Austur-Skaftafellssýslu á árunum 1967–68. Síðar tók við tengdadóttirin Þorbjörg sem við mörg vildum sjá sem fulltrúa á Alþingi. Hún tók hins vegar við skólastjórn af tengdaföður sínum og fór síðar ásamt Fjölni Torfasyni fyrir stofnun Þórbergsseturs á Hala upp úr aldamótum. Í starfi þess menningarseturs sá Ingibjörg og afkomendur stóra drauma rætast. Þar mætti hún staðfestlega á viðburði uns skömmu fyrir andlátið. Við þökkum Ingibjörgu lífsstarfið sem borið hefur ríkulegan ávöxt.

Kristín og Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim