Ingimar Sveinsson
1927–2020

Með Ingimar Sveinssyni er fallinn frá einn helsti máttarstólpi samfélagsins á Djúpavogi og nágrenni á seinnihluta síðustu aldar. Sem skólastjóri þar í þrjátíu ár hafði hann mótandi áhrif á æskufólk staðarins og tók þá og fram á efri ár virkan þátt í félags- og menningarlífi í stækkandi samfélagi. Við áttum mikið og gott samstarf í nær hálfa öld sem varðaði mörg málasvið, einkum umhverfi, náttúru og sögu þessa fornfræga kaupstaðar á Búlandsnesi og aðliggjandi fjarða. Ég hitti Ingimar þar fyrst sumarið 1966 að ég fyrst skoðaði mig að ráði um á þessum slóðum. Hann hafði þá stýrt skóla staðarins af myndarskap í áratug og vakti góð umhirða og snyrtimennska þar strax athygli. Þegar kom að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) 1970 var Ingimar einn af áhugasömum liðsmönnum og ætíð síðan. Við áttum samleið í fyrstu ferð minni út í Papey sumarið 1972 og þangað hélt síðan stór hópur áhugafólks á 5 bátum í tengslum við aðalfund NAUST um haustið. Nokkur svæði á þessum slóðum voru þá þegar tekin inn á náttúruminjaskrá.

Ingimar var prýðilega ritfær, skrifaði oft greinar í Múlaþing og um Búlandshrepp í Búkollu 1976. Í kjölfarið fylgdu stærri og viðameiri verk frá hans hendi: Djúpivogur -  400 ár við voginn, útgefin 1989, og árið 2003 bókin Djúpivogur – siglt og róið um firði og eyjasund. Í þeim er samankominn ómetanlegur fróðleikur um þessar slóðir. Við ritun árbókar Ferðafélagsins um sunnanverða Austfirði 2002 sótti ég margan fróðleik til Ingimars. Sama á við þegar ég ásamt Guðnýju Zoëga beitti mér fyrir fornleifaskáningu í Hálsþorpi og inni á Búlandsdal. Þá aðstoðaði Ingimar okkur, bæði við söfnun heimilda og vettvangsvinnuna. – Margoft kom ég á heimili þeirra Erlu og Ingimars á þeirri nær hálfu öld sem samvinna okkar varaði. Af þeim samfundum öllum á ég ljúfar minningar sem hér er þakkað fyrir að leiðarlokum.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim