Ingimundur Sigfússon
1938–2018

Lífið manns hratt fram hleypur. Á þau orð Hallgríms Péturssonar vorum við minnt við fráfall Ingimundar Sigfússonar sem kvaddi óvænt eftir stutta legu nú í byrjun einmánaðar. Að honum er sjónarsviptir, m.a. fyrir okkur nágrannana á Vatnsstíg. Fráfall hans er harmað af mörgum, en sárast er það fyrir hans nánustu. Með Ingimundi er genginn afar starfssamur einstaklingur sem framan af einbeitti sér að viðskiptum sem forstöðumaður fjölskyldufyrirtækis, en tók síðan að sér opinber störf og gegndi þeim með sóma í  aldarfjórung. Ég kynntist honum fyrst sem sendiherra í Bonn haustið 1997, en þar var þá haldið loftslagsþing í aðdragada Kyótó-samkomulagsins. Um þau efni átti ég þá og síðar samtöl við Ingimund, sem þá þegar lagði sig fram um að setja sig inn í flókið samspil vísinda og stjórnmála á þessu sviði, tveimur áratugum fyrir Parísarsamkomulagið 2016. Eftirminnileg var þá móttaka hans og Valgerðar í sendiráðinu með menningarlegu ívafi. – Eftir farsæl störf sem sendiherra í Þýskalandi lá leið Ingimundar árið 2001 í  ólíkt umhverfi  þegar hann varð fyrsti sendiherra Íslands í Japan. Það gerðist réttum 10 árum eftir að ég fyrst flutti tillögu á Alþingi um að komið yrði á fót íslensku sendiráði í Tókíó. Þar gagnaðist vel frá byrjun reynsla Ingimundar af alþjóðlegu viðskiptalífi og svo vel sem Þjóðverjar kunnu að meta einlægt og glaðvært viðmót hans er ég viss um að það féll ekki síður að japönskum siðum.

Eftir heimkomu þeirra hjóna 2004 urðum við fyrir tilviljun nágrannar og þá bar fundi oft saman. Margt var rifjað upp, svo og fjölþætt vinna Ingimundar sem nú beindist að menningarsviðinu. Þá fyrst komst ég að því að Ingimundur var ekki aðeins heimsmaður heldur líka sveitamaður með hug og hjarta á ættaróðalinu á Þingeyrum. Hann þreyttist aldrei á að bjóða okkur Kristínu heim á þann vettvang sem við loksins létum verða af sumarið 2014 og áttum þá afar ánægjulega stund hjá þeim hjónum auk þess að litast um á þessu fornfræga menningarsetri. Þau óku með okkur um landareignina allt til strandar og þar blöstu við bláir akrar á fyrrum berangri. Umræðuefni skorti ekki frekar en áður, og nú bættust við aðferðir í uppgræðslu. Þótt við Ingimundur hefðum ólíka sýn og reynslu að baki var hann ætíð einlægur og tilbúinn að kynna sér mál frá ýmsum hliðum. Með honum er genginn gagnmerkur einstaklingur sem var gæfumaður í einkalífi með styrka og glæsilega eiginkonu sér við hlið. Við Kristín vottum henni, sonum þeirra og öðrum aðstandendum samúð á þessum krossgötum.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim