Jakob Björnsson
19262020

Með Jakobi Björnssyni kveður eftirminnilegur maður sem skildi eftir sig glögg spor í orkumálum á seinni hluta síðustu aldar. Hann lagði allt sitt í rafmagnsverkfræðina, sem hann hafði numið í háskólum heima og erlendis, og fékk sem ráðgjafi og síðar orkumálastjóri í nær aldarfjórðung tækifæri til að hafa áhrif á þróun þess málaflokks hérlendis. Ég kynntist Jakobi fyrst að ráði á áttunda áratugnum í Samstarfsnefnd iðnðarráðuneytisins og Náttúruverndarráðs um orkumál (SINO) sem hóf störf 1973, sama árið og Jakob kom að Orkustofnun, og entist nefndin sú um áratugi. Í henni voru þrír fulltrúar frá hvorum aðila og haldnir fundir reglulega enda af nógu að taka, bæði um stóriðjuhugmyndir stjórnvalda, virkjanir og raforkuflutning. Ég áttaði mig fljótt á að reiknistokkurinn réði mestu um þankagang Jakobs. Umhverfi og náttúruvernd voru honum framandi eins og mörgum í verkfræðingastétt þess tíma. Hann var hins vegar alltaf opinn fyrir umræðu, hafði gott vald á skapi sínu og var stutt í kankvíst bros. Gaf auga leið að teygjast vildi úr samræðum á SINO-fundum, sem þrátt fyrir allt voru afar gagnlegir, vörpuðu ljósi á ágreining og leiddu stundum til málamiðlana.
              Að því kom að sá sem þetta skrifar færðist úr  Náttúruverndarráði óvænt yfir í iðnaðarráðuneytið og var þannig orðinn eins konar yfirmaður orkumálastjórans. Komu sér þá vel fyrri kynni, líklega fyrir báða aðila. Orkustofnun var þá þegar orðin fjölmenn stofnun, enda jarðhitinn stór og vaxandi þáttur til viðbótar vatnsaflinu og óvíða sýslað meira við jarðfræði af ýmsum toga en þar innanhúss. Stjórnsýsla var ekki  sterkasta hlið Jakobs og til að bæta það upp var í góðu samkomulagi sett stjórn yfir stofnunina honum til stuðnings. Jakob var ósérhlífinn og gerði engar kröfur um eigin kjör þannig að fágætt má telja. Á þessum árum varð mikil breyting á lagaumhverfi orkumálanna m.a. með nýjum lögum um Landsvirkjun 1982. Stór vinningur í náttúruvernd  náðist líka í höfn með friðlýsingu Þjórsárvera 1981. Margir áttu hlut að því heillaspori.
              Áratugina á eftir lágu leiðir okkar Jakobs oft saman á fundum þar sem orkumál bar á góma. Á því sviði dvaldi hugur hans sem fyrr og birtist mönnum í ræðu og riti, því að oft mundaði hann pennann, m.a. undirrituðum til leiðbeiningar. Síðast hittumst við eftir aldamótin í Hallormsstaðaskógi. Hann var þar staddur í sumarblíðu og hélt með okkur áleiðis í skógargöngu. Nú er langri vegferð hans lokið, en málin sem á okkur brunnu frá mismunandi sjónarhóli eru orðin nærgöngulli en nokkru sinni fyrr.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim