Jakob Jakobsson
1931–2020

Það var sérkennileg reynsla að koma úr langri dvöl á meginlandi Evrópu til Neskaupstaðar haustið 1963 þar sem síld setti svip á bæjarlífið og nýjar söltunarstöðvar bættust við frá ári til árs. Fylgst var með síldargöngum líkt og veðrinu og margir gerðu ráð fyrir að þetta silfur hafsins væri óbrotgjarnt og komið til að vera. Á þessum árum varð öllum kunn rödd Jakobs Jakobssonar fiskifræðings sem þá hafði í nærfellt áratug kortlagt ferðir síldarinnar úr ólíkum áttum og af mismunandi stofnum. Rannsakaði hann m.a. útbreiðslu hennar með tilliti til umhverfiaðstæðna og fæðuframboðs.

Þorri Norðfirðinga kannaðist við Jakob frá blautu barnsbeini, þar eð hann ólst upp inni á Strönd ásamt systkinum hjá foreldrunum, Jakobi skipstjóra og Sólveigu, með bryggjuna fram undan íbúðarhúsinu. Hann ræktaði síðan alla tíð tengslin við byggðarlagið. Við urðum fljótlega málkunnugir og hann brást ætíð vel við þegar ég leitaði til hans ráða eða óskaði eftir að hann kæmi austur og flytti fræðandi erindi.

Baráttan fyrir útfærslu landhelginnar stóð sem hæst fyrstu tvo áratugina eftir að Jakob kom heim frá námi 1956. Margir væntu þess eðlilega að rýmkast myndi um aflabrögð svo um munaði þegar útlendir veiðiflotar hyrfu af Íslandsmiðum. Aflabrestur, m.a. í uppsjávartegundum, minnti okkur hins vegar fljótlega á sóknartakmörkin. Efldar rannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar síðasta aldarþriðjung gegndu lykilhlutverki í að ná tökum á veiðiálagi og tryggja hóflega nýtingu fiskimiðanna. Margir áttu þar góðan hlut að máli en hæfni og reynsla Jakobs sem forstjóra stofnunarinnar á árunum 1984–1998 og sú tiltrú sem hann naut skipti sköpum við að tryggja fjármagn til kostnaðarsamra stofnmælinga á botnfiskum. Það verkefni renndi síðan stoðum undir mat á veiðiálagi  og mótun aflareglunnar í þorski snemma á tíunda áratugnum.

En áhrifa Jakobs sem vísindamanns sem ættaður var að austan gætti einnig huglægt. Það birtist m.a. í þeirri staðreynd að margir yngri menn frá Norðfirði og grennd völdu fiskifræði til framhaldsnáms. Elstur í þeim hópi var Hjálmar Vilhjálmsson frá Brekku, en á eftir fylgdu Sveinn Sveinbjörnsson, Björn Ævarr Steinarsson, Einar Hjörleifsson og Þorsteinn Sigurðsson. Margur má una við minna horft til lærisveina.

Einnig sá landkrabbi sem hér heldur á penna á Jakobi og samstarfsmönnum hans margt að þakka, fyrst og fremst þó fræðslu og varðstöðu um þá meginstoð sem við eigum í auðlindum sjávar.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim