Jóhann Már Maríusson
1935‒2022

Við Jóhann Már vorum jafnaldrar en ólumst upp hvor á sínu landshorni. Leiðir okkar lágu fyrst saman í sumarvinnu 1956 við landmælingar hjá Rafmagnsveitum ríkisins undir verkstjórn Steingríms Pálssonar, fyrst í Þjórsárdal en við færðum okkur síðan um sumarsólstöður norður yfir Tungná. Þetta var fyrsti mælingaleiðangurinn vegna virkjanahugmynda á þeim slóðum, tjaldbúðir reistar við Þórisós og síðar fluttar í Illugaver við Köldukvísl. Skipt var verkum undir vökulli stjórn Steingríms. Við „Mási“ vorum lengi vel í 3ja manna hópi við hæðarmælingar frá Þórisvatni suður í Tungná, hvor með sína stöng en Bolli Thoroddsen á kíkinum. Allir náðum við vel saman, hver með sitt nesti og hlökkuðum til kvöldverðar sem oftast samanstóð af pylsum og spaghetti úr dósum með nóg og af tómatsósu. Það viðraði lengst af vel á okkur þetta sumar og til tilbreytingar var skroppið norðuraf um eina júlíhelgi á samkomu austur í Atlavík. Þar var stiginn Færeyingadans undir stjórn Stefáns Karlssonar síðar íslenskufræðings, sem var einn af mælingahópnum.
Svo leið nær aldarfjórðungur uns leiðir okkar lágu saman á ný. Mási var þá orðinn háttsettur verkfræðingur og brátt aðstoðarforstjóri hjá Landsvirkjun en ég nálgaðist virkjanamálin frá sjónarhóli stjórnmála og náttúruverndar. Við hittumst nú á fundum og í kynnisferðum um virkjanasvæði við Þjórsá og Tungná, þar sem tækifæri gafst til að rifja upp gömul kynni af hálendinu og rýna í áform Landsvirkjunnar undir traustri forystu Jóhannesar Nordals. Einnig það voru ánægjulegar ferðir, kyddaðar gamansemi frá mismunandi sjónarhóli. Jóhann Már bjó alla tíð að léttri lund með ljóðrænan þráð í farteski sínu til hliðar við megavöttin. Einkalíf hans varð farsælt með traustri eiginkonu  og stækkandi fjölskyldu.
Að lokum urðum við nágrannar við Skúlagötuna þar sem tekist hefur að byggja upp sæmilegt samfélag margra í stóru húsfélagi. En þá kom að því að heilsa Jóhanns Más skertist þannig að hann þrátt fyrir bestu aðhlynningu  fékk ekki notið efri áranna sem skyldi. Það sjaldan við hittumst var þó ætíð stutt í kunnuglegan húmor hans og glettni. Um leið og við Kristín minnumst góðra kynna sendum við Sigrúnu og öllum afkomendum samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim