Jóhann Sverrir Jónsson
1934‒2021

Margt kemur upp í hugann þegar bekkjarfélagar kveðja, nú síðast hann Jonni tannlæknir, fullu nafni Jóhann Sverrir Jónsson kominn á 88. ár og náði þannig góðum aldri. Við vorum 44 talsins sem útskrifuðumst saman frá MA vorið 1955 og skiptist hópurinn nokkuð jafnt milli mála- og stærðfræðideildar. Í stærðfræðideildinni voru þá m.a. tveir Siglfirðingar sem komu saman í skólann eftir landspróf, ásamt Jóhanni var það Gunnar H Gunnlaugsson síðar þekktur skurðlæknir. Fylgdust þeir að sem herbergisfélagar í tvo vetur í heimavist MA. Var einkar vingott með okkur, m.a. þegar við í 5. bekk vorum nágrannar í kitrum efst uppi á  Suðurvistum í gamla skólahúsinu, sem nú er mannlaus hanabjálki. Jonni átti þá gott útvarpstæki og hlustaði mikið á dægurlög þess tíma sem endurspeglaðist m.a. í ágætri teikningu af honum í Carminu. Einnig minnist ég tveggja bræðra Jóhanns sem útskrifuðust frá MA, Braga veðurfræðings sem varð stúdent 1951 og Héðins 1957, síðar frönskukennara. Foreldrar þeirra, Jón Tryggvi og Elín, voru alþýðufólk með metnað fyrir hönd sona sinna sem allir stóðu vel undir væntingum. Þannig var Jóhann farsæll námsmaður, jafnvígur á flestar greinar. Sérstaklega er mér minnisstæð gamansemi hans og viðbrögð í samræðum, oft úr óvæntri átt.

Leið meirihluta íslenskra stúdenta sem héldu erlendis í framhaldsnám lá á þessum árum til Frakklands eða Þýskalands að stúdentsprófi loknu. Jóhann lærði þannig tannlækningar í München og kynntist þar sinni þýsku eiginkonu. Ásamt henni hélt hann rakleitt til baka í heimabyggðina og gætti að tannheilsu Siglfirðinga alla sína starfsævi eins og aldei hefði annað verið á dagskrá. Það má kalla að gjalda fósturlaunin. Leiðir okkar lágu síðan stöku sinnum saman á stórhátíðum stúdentsárgangsins, m.a. vorið 2015 á Akureyri á 60 ára afmælinu. Glettni Jóhanns var þá enn söm við sig og við vorum sammæltir um að hvergi væri betra að vera en nyrðra og eystra.  

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim