Jóhannes Nordal
1924–2023

Mér er ljúft að minnast Jóhannesar Nordal sem nú hefur kvatt eftir nær 100 ára lífshlaup. Röskur áratugur skildi okkur að í aldri og bakgrunnur var ólíkur jafnt um nám og búsetu. Samskipti okkar urðu hins vegar mikil og margvísleg þau hátt í 5 ár sem ég gegndi starfi iðnaðarráðherra í tveimur ríkisstjórnum frá 1978–1983. Áður höfðum við þekkst frá því um 1970 er hann ásamt fleirum greiddi götu mína til Bandaríkjanna til að kynnast þar náttúruverndarstarfi og þjóðgörðum.

Um það leyti urðu tímamót hér eins og víðar með stofnun áhugasamtaka um náttúruvernd og styrkingu Náttúruverndarráðs sem ég átti þá sæti í um skeið. Þá hófust formleg samskipti orkuyfirvalda og ráðsins, sem var mikil breyting frá áratugnum á undan þegar samið hafði verið við Alusuisse um uppbyggingu álvers í Straumsvík án teljandi mengunarvarna. Auk Búrfellsvirkjunar fyrirhugaði Landsvirkjun risastóra vatnsmiðlun í Þjórsárverum í þágu frekari virkjana í Tungná og Þjórsá. Svo vildi til að ég þekkti vel þetta svæði eftir að hafa verið þar við landmælingar sumarið 1956.

Mjög skorti á um stefnu af hálfu stjórnvalda um orkumál og stóriðju upp úr 1970 og verulegur ágreiningur var um hvert halda skyldi, m.a. innan Alþýðubandalagsins. Sá ágreiningur var jafnaður í kjölfarið á starfi sérstakrar nefndar sem gaf úr ritið Íslensk orkustefna 1976. Án hennar hefði Alþýðubandalagið ekki verið fært um að leiða þennan málaflokk í ríkisstjórn 1978 og síðar. Fram að því náði svæði Landsvirkjunar aðeins yfir landið suðvestanvert. Því var breytt með lögum  vorið 1983 og sama heildsöluverði komið á raforku í öllum landshlutum samhliða miklu átaki í húshitun með innlendum orkugjöfum. Um þessa stefnu, sem Jóhannes var fylgjandi, náðist að lokum góð samstaða, einnig á Alþingi.

Síðla árs 1980 sýndu íslensk stjórnvöld fram á bókhaldssvik Alusuisse í verðlagningu á súráli til álversins í Straumsvík („hækkun í hafi“) til lækkunar á raforkuverði samkvæmt samningi. Gerð var í kjölfarið krafa um leiðréttingu og mikla hækkun á raforkuverði.  Ég sagði Jóhannesi strax frá málavöxtum og í kjölfarið fóru fram viðræður stjórnvalda, sem ekki báru árangur fyrr en við blasti fyrir gerðadómi að málið gengi Alusuisse í óhag. Þá var af ríkisstjórn sem við tók 1983 samið um tvöföldun á orkuverði Landsvirkjunar til ÍSAL sem gjörbreytti fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og viðmiðun um verðlagningu raforku í síðari samningum.

Í samstarfi okkar Jóhannesar fólst m.a. að skoða landið og aðstæður á framkvæmdaslóðum Landsvirkjunar syðra og síðar á Austurlandi. Í slíkum ferðum var hann hrókur fagnaðar, hlýddi á ólík viðhorf og setti sig sem best inn í aðstæður. Friðun Þjórsárvera 1981, svo langt sem hún náði, sýndi hann skilning og setti sig inn í flókinn undirbúning Blönduvirkjunar og sjónarmið Náttúruverndarráðs og heimamanna.
Með nýlegri ævisögu sinni, Lifað með öldinni, hefur Jóhannes reist sér minnisvarða, sem veitir mjög góða innsýn í æviferil hans og samtíð.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim