Jón Helgason
1931‒2019

Rösk fjögur ár skildu okkur frændur að í aldri og þess utan óbrúaðar jökulár og sandar Skaftafellssýslna, sem aldrei voru meiri hindranir í samgöngum en áratugina eftir seinna stríð. Það var á vígsludegi Skeiðarárbrúar 14. júlí 1974 að við Jón hittumst í fyrsta sinn, táknrænt fyrir þýðingu þeirra samgöngubóta. Ég var þá í verkum fyrir Náttúruverndarráð í Skaftafelli en Jón nýkjörinn á þing þar sem hann gegndi störfum samfellt í 21 ár. Brátt bar mig að garði í Seglbúðum hjá móðursystkinum mínum, Gyðríði og Elíasi, og þeim Jóni og Guðrúnu sem þá voru löngu tekin við búi. Síðan gerðist það flest árin að við Kristín litum þar við og Jón fylgdi okkur um nágrennið, m.a. í Þykkvabæ þar sem enn stendur steinhúsið sem móðurafi okkar og amma, Páll og Margrét, fluttu í  úr torfbæ 1917 í steinhús sem er prýðilega við haldið.

Atvikin báru mig 1978 inn á Alþing þar sem við frændurnir deildum vinnustað í 17 ár, að vísu hvor í sinni þingdeild fram til 1991 að þær voru sameinaðar. Jón var hins vegar forseti Sameinaðs þings fyrstu 5 árin á meðan ég sat í ríkisstjórn en tók síðan við ráðherrastarfi í jafnlangan tíma til ársins 1988. Mér er eftirminnilegast úr þingforsetatíð Jóns þegar hann sat næturlangt yfir  langri „álumræðu“ á útmánuðum 1983 og frestaði loks fundi í morgunsár, varaforsetar löngu farnir að sofa. Var það þingmál þar með úr sögunni og styttist í kosningar. Við frændur vorum hvor í sínum stjórnmálaflokki, en þó styttra á milli sjónarmiða í mörgum málum en ætla mátti. Það átti m.a. við um náttúruverndina, þar sem Jón lagði gott til mála, kom upp Kirkjubæjarstofu heima fyrir og sat um árabil í stjórn Landverndar eftir að þingstörfum lauk. Hann var í eðli sínu íhugull og seinn til andsvara þótt að honum væri sótt. Þessir og fleiri mannkostir báru hann í margháttaðar trúnaðarstöður sem hann gegndi af stakri samviskusemi.

Helgi faðir Jóns var aðeins hálfsextugur þegar hann féll frá. Það réði örlögum sonarins sem þá átti ár í stúdentspróf sem hann lauk, en hlaut síðan að taka við búi með móður sinni. Sem þingmaður átti hann nokkur erindi til útlanda. Frændi okkar Sigurður Blöndal sat með Jóni nokkrar vikur á þingi Sameinuðu þjóðanna 1975. Sigurður hafði orð á því við mig hversu vel Jón væri að sér í alþjóðamálum og ratvís í stórborginni. Svipað reyndi ég í sameiginlegri ferð okkar Jóns í forsætisnefnd Alþingis til Japan 1991. Af henni spratt tillaga okkar um íslenskt sendiráð í Tókíó sem varð að veruleika nokkrum árum síðar.

Við Kristín litum við hjá Jóni og Guðrúnu í Klausturhólum síðsumars 2017. Þar nutu þau góðs atlætis. Hugur frænda var kominn á aðrar slóðir en góðlátlegt yfirbragð hans var óbreytt. Ættarslóðin mun lengi minnast hans með þakklæti fyrir uppbyggilegan stuðning og samfylgd.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim