Jón Hafsteinn Jónsson Það voru viðbrigði fyrir okkur í 5. bekk stærðfræðideildar MA haustið 1953 að fá Jón Hafstein Jónsson sem kennara okkar í stærðfræði. Hann var þá 25 ára gamall, nýútskrifaður frá Kaupmannahafnarháskóla með láði, og geislaði af honum áhuginn á faginu. Við höfðum veturna tvo á undan haft þrjá kennara í greininni, ágæta hvern um sig, en auðvitað eru tíð mannaskipti við töfluna ekki heppileg fyrir nemendur, hvað þá í aðalgrein eins og hér um ræðir. Hafði þetta óhjákvæmilega komið niður á leikni margra í þessari undirstöðugrein og biðu sum okkar þess varla bætur. Kennarinn ungi var frísklegur og leifraði af áhuga fyrir kennsluefninu, þó tæpast búinn að átta sig á efniviðnum í bekknum og misjafnri stöðu manna í fræðunum. Við glímdum við „differential- og integralreikning“ þennan vetur, og það tók mig tíma að komast í takt við þau fræði. Brá ég á það ráð að heimsækja kennarann heima fyrir og sá ekki eftir því. Jón Hafstein var mikið ljúfmenni og það sama gilti um konu hans, tónlistarkennarann Soffíu, sem ég átti eftir að kynnast síðar á stjórnmálavettvangi. MA bjó þá sem lengst af síðar að úrvalsliði kennara, en margir þeirra voru nokkuð við aldur er hér var komið sögu og fæstir hallir undir vinstristefnu í stjórnmálum. Þar skar bóndasonurinn úr Skagafirði sig hins vegar úr og þá og síðar bárust út til nemenda spennuþrungnar frásagnir af andrúmslofti og orðahnippingum á kennarastofunni eftir að sósíalistinn Jón Hafsteinn bættist þar í hópinn. Ég hygg að þau hjón bæði hafi verið trú þeim málstað alla tíð. Jón Hafsteinn kenndi við MA og Verslunarskólann í aldarþriðjung. Hafa fáir reynst jafn endingargóðir lærifeður og hann með óbilandi áhuga á viðfangsefninu og að koma nemendum yfir torfærur reikningskúnstanna. Hann leið önn fyrir hrakandi árangur nemenda í stærðfræði í framhaldsskólum er á leið öldina, eins og glöggt kom fram í ágætu viðtali við hann í Morgunblaðinu 26. nóvember 1996. Kennir hann þar m.a. um „sænsku viðhorfunum“ sem haldið hafi innreið sína í íslenska skólakerfið á sjöunda áratugnum. „Dönsku viðhorfin leggja meira upp úr faglegri hæfni, en nú var farið að draga úr kröfum ef nemendur eða hópur nemenda skilaði ekki nógu góðum árangri“. Í viðtalinu koma líka greinilega fram efasemdir hans um gildi uppeldis- og kennslufræða, og þótti honum sem dregið hefði úr námsaga og að nemendum væru kennd góð vinnubrögð, þar á meðal að nota táknmál rétt í stærðfræði. Með Jóni Hafsteini sjáum við á bak mikilli kempu, sem lagði alúð við það starf sem hann hafði kosið sér. Þegar hann nú kveður okkur níræður verður hans minnst af mörgum. Hjörleifur Guttormsson
|