Jónas A. Aðalsteinsson
Jónas var íhugull og mikið prúðmenni og naut mikillar virðingar sem lögfræðingur til æviloka, lengst af undir merkjum lögmannsstofunnar LEX. Þegar ég var kjörinn í Þingvallanefnd 1980 lá fyrir að óreiða var á fjölda samninga um sumarbústaði í þjóðgarðslandinu. Tillaga mín um að nefndin réði Jónas í lögfræðiaðstoð var samþykkt og starfaði hann í hennar þágu í fjölda ára. Þá endurnýjuðum við okkar gömlu kynni og ræddum margt utan funda. Leysti Jónas fjölda ágreiningsmála milli sumarbústaðaeigenda og lagði á ráðin um mörg fleiri álitamál á vegum nefndarinnar. Eftir að stúdentshópurinn frá MA 1955 tók að hittast reglulega á efri árum var Jónas staðfastur í okkar hópi og lagði margt til mála, alltaf með mikilli hógværð og góðvild sem einkenndi hann. Ekki datt mér í hug síðast er við Jónas sátum saman í Lynghól ásamt nokkrum úr árganginum 1955 síðasta vor, að hann væri á förum. Við Kristín sendum Guðrúnu Ragnhildi eiginkonu Jónasar og öllum aflomendum þeirra samúðarkveðjur. Hjörleifur Guttormsson
|