Jónas A. Aðalsteinsson
19342024


Leiðir okkar Jónasar lágu saman í landsprófsdeild Menntaskólans á Akureyri vorið 1951 og áfram í stærðfræðideild MA til stúdentsprófs 1955. Hann kom að sunnan en ég að austan, ég lengst af í heimavist en Jónas leigði í Rósinborg litlu ofar. Við byrjuðum að reykja pípu í 3. bekk, sem ekki leyfðist inni á heimavistinni. Bauð Jónas mér að deila með sér herbergi til lestrar og reykja í upplestrarleyfum. Þetta leiddi til langs og varanlegs vinskapar okkar og umræðna um lífið og tilveruna. Báðir vorum við morgunhanar, hófum próflestur um rismál, en hættum fyrir kvöldmat. Þess á milli voru tilveran og heimsmálin rædd og krufin.

Jónas var íhugull og mikið prúðmenni og naut mikillar virðingar sem lögfræðingur til æviloka, lengst af undir merkjum lögmannsstofunnar LEX. Þegar ég var kjörinn í Þingvallanefnd 1980 lá fyrir að óreiða var á fjölda samninga um sumarbústaði í þjóðgarðslandinu. Tillaga mín um að nefndin réði Jónas í lögfræðiaðstoð var samþykkt og starfaði hann í hennar þágu í fjölda ára. Þá endurnýjuðum við okkar gömlu kynni og ræddum margt utan funda. Leysti Jónas fjölda ágreiningsmála milli sumarbústaðaeigenda og lagði á ráðin um mörg fleiri álitamál á vegum nefndarinnar.

Eftir að stúdentshópurinn frá MA 1955 tók að hittast reglulega á efri árum var Jónas staðfastur í okkar hópi og lagði margt til mála, alltaf með mikilli hógværð og góðvild sem einkenndi hann. Ekki datt mér í hug síðast er við Jónas sátum saman í Lynghól ásamt nokkrum úr árganginum 1955 síðasta vor, að hann væri á förum.

Við Kristín sendum Guðrúnu Ragnhildi eiginkonu Jónasar og öllum aflomendum þeirra samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim