Katrín Jónsdóttir Tíminn flýgur. Nú sjáum við á bak Katrínu Jónsdóttur, sex árum eftir að eiginmaður hennar Magnús Ásmundsson læknir kvaddi árið 2015. Þau hjón komu árið 1983 til Norðfjarðar þar sem Magnús tók við starfi yfirlæknis á lyflæknisdeild Fjórðungssjúkrahússins og var fyrstur til að gegna því mikilvæga verkefni. Heimili þeirra var í 14 ár úti á Bakkabökkum í Neskaupstað. Þegar yngsta barn þeirra, dóttirin Steinunn, síðar læknir í Danmörku, var flogin úr hreiðrinu, fór Katrín að starfa við umönnun á sjúkrahúsinu, enda með sjúkraliðamenntun. Með glaðværð sinni og hlýju létti hún mörgum þar erfiða daga. Daglegar gönguferðir lækna enduðu yfirleitt í tedrykkju og umræðu um allt og ekkert hjá Kötu. Hún var söngelsk, söng í kirkjukórnum og lét tónlistarviðburði ekki fram hjá sér fara. Hún og Magnús aðlöguðust vel norðfirsku umhverfi, bæði vinstrisinnuð að lífsskoðun. Eftir að þau fluttu til Reykjavíkur bar fundum okkar stöku sinnum saman en oftar var það síminn sem brúaði bilið. Það er bjart yfir minningu þeirra hjóna og íslenskt samfélag nýtur áfram fjölmenntaðra afkomenda þeirra. Kristín og Hjörleifur Guttormsson
|