Kjartan Jóhannsson
1932–2020

Fátt gefur tilverunni meira gildi en að kynnast fólki úr ólíkum áttum. Það á við um stjórnmálin ekki síður en fræðastörf, útlönd sem og heimavettvanginn. Leiðir okkar Kjartans Jóhannssonar lágu ekki saman fyrr en árið 1978, enda hvor af sínu landshorni. Þetta var mikið kosningaár, jafnt til sveitarstjórna og landsstjórnar og A-flokkarnir svonefndu skildu að jöfnu í þingmannatölu 14:14, við Kjartan hvor í sínu liðinu. Báðir flokkarnir áttu líka góðu fylgi að fagna í þáverandi heimabæjum okkar Hafnarfirði og Neskaupstað. Það gekk hins vegar brösuglega  að mynda ríkisstjórn þá um sumarið og í þeim þæfingum lágu leiðir okkar saman í fyrsta sinn. Stjórnarmyndun hafðist þó undir forsæti Ólafs Jóhannessonar 1. september og við Kjartan settumst hvor á móti öðrum við ríkisstjórnarborðið, hann sem sjávarútvegsráðherra. Það gekk á ýmsu milli flokka okkar, en ekki minnist ég ágreinings við Kjartan, sem var ljúfur og þægiegur í viðmóti. Samstarfið entist hins vegar aðeins í 13 mánuði, þar eð haustið 1979 klofnaði Alþýðuflokkurinn og eftir skammlífa minnihlutastjórn komst hann ekki aftur að ríkisstjórnarborði fyrr en 1987, þá undir annarri forystu.

Fyrir utan Alþingi á níunda áratugnum lágu leiðir okkar Kjartans saman í Evrópustefnunefnd Alþingis sem Kjartan hafði frumkvæði að haustið 1988 og hann veitti forystu í fyrstu. Fyrir utan víðtæka greiningu á tengslum Íslands við Evrópu, einkum á viðskiptasviði, varð hugsanleg aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu viðfangsefni nefndarinnar. Fylgdu því utanlandsferðir í aðalstöðvar EB í Brussel og víðar og kynning á ólíkum viðhorfum nefndarmanna í ritinu Ísland og Evrópa 1990. Kjartan var þá orðinn sendiherra í Genf og fulltrúi Íslands í ýmsum alþjóðastofnunum. Þrátt fyrir ólík viðhorf okkar Kjartans til tengsla við Evrópusambandið átti hann þátt í að ólík afstaða kæmist til skila í störfum og áliti nefndarinnar.
Vandvirkni einkenndi málstök Kjartans, einnig eftir að hann varð framkvæmdastjóri EFTA 1993. Því kynntist ég vel sem fulltrúi í EFTA-nefnd Alþingis, sem oft naut aðstoðar Kjartans í störfum sínum. Það voru þessir eiginleikar og þægilegt viðmót sem aflaði honum trausts í fjölþjóðlegu samstarfi um og eftir síðustu aldamót.

Eftir að Kjartan lauk störfum erlendis settist hann að í Reykjavík. Það vildi svo til að við Kristín urðum nágrannar hans og Irmu í góðu samfélagi í miðbænum. Þar glímdi hann síðustu árin við erfið veikindi en birtist okkur nágrönnum eftir sem áður brosmildur og æðrulaus. Með andláti Kjartans er fallinn frá mikill atorkumaður. Slíkra er gott að minnast.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim