Kristín Lundberg
1930‒2017

Það saxast á þann dugmikla og bjartsýna hóp sem einkenndi samfélagið í Neskaupstað á öldinni sem leið. Kristín Lundberg var þar framarlega í flokki ásamt eiginmanni sínum Ragnari Sigurðssyni sem dó langt fyrir aldur fram 1988. Hún var þannig ekkja í aldarfjórðung en missti ekki móðinn, studd af fjórum dugmiklum börnum og stækkandi hópi afkomenda. Heimili Ragnars og Stínu stóð öllum opið og við Kristín nutum þess allt frá komu okkar í byggðarlagið haustið 1963. Þar ríkti glaðværð og enginn hörgull var á umræðuefnum, bæði um landsins gagn, stjórnmálin og bæjarlífið. Stína vissi skil á öllu sem hrærðist innan fjallahringsins, foreldrar hennar og tengdafólk rótgrónir Norðfirðingar og í stuðningsssveit sósíalista sem fóru óslitið með forystu í málefnum byggðarlagsins í hálfa öld. Framan af bar þar ekki mikið á konum í framlínunni, en á því varð smám saman breyting eftir stofnun Alþýðubandalags Neskaupstaðar 1965 þar sem Stína átti sæti í stjórn um árabil. Hún hafði líka glöggt auga fyrir umhverfinu, ræktaði eigin garð af alúð, gekk á brattann upp í fjall, skrapp á gönguskíði þegar færi gafst og var alltaf til í berjamó á áliðnu sumri.

Um það leyti sem Ragnar lést varð til Litla ferðafélagið, fámennur kunningjahópur sem á hverju sumri fór í vikulangar ferðir, aðallega austanlands, oftast um ótroðnar slóðir frá dvalarstað hverju sinni.  Bækistöðvar voru m.a. Hrollaugsstaðir í Suðursveit, Eyjólfsstaðir í Fossárdal, Skógargerði í Fellum og ferðaskálar í Víkum og á hálendinu eystra. Stína var ómissandi hrókur fagnaðar í þessum hópi og ætlaði sér aldrei um of í gönguferðum. Þessu félagi var slitið 2005 um það leyti sem við færðum okkur um set frá Norðfirði.

Upp úr þessu fór heilsu Stínu hrakandi og á hana sótti óminni sem nú sækir marga heim á efri árum.  Hún tapaði þó aldrei eðlislægri reisn sinni og naut góðrar aðhlynningar skyldmenna og starfsfólks á Fjórðungssjúkrahúsinu. Ferðafélagar fyrri ára, við Kristín og sonur okkar Einar og fjölskylda þökkum henni samfylgdina, einstaka hjálpsemi og gestrisni á heimilinu góða á Þiljuvöllum 33.

Kristín og Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim