Laufey Lárusdóttir
1927‒2022

Fá byggðarlög hérlendis hafa tekið jafn miklum breytingum og Öræfasveit á einum mannsaldri. Frá því að vera samgöngulega einangruð á fyrrihluta 20. aldar er hún nú með þeim fjölsóttustu hérlendis með ferðamannastraumi árið um kring í Skaftafell og að Jökulsárlóni. Ferðamenn hafa tekið við af sauðfé sem undirstaða í atvinnulífi þorra heimafólks.

Laufey Lárusdóttir frá Svínafelli, lengi húsfreyja í Hæðum í Skaftafelli, og síðan á endurreistu ferðamannabýli í Freysnesi mátti muna tímana tvenna, ef ekki þrenna, en hefur nú kvatt okkur í hárri elli.  Margir minnast hennar sem ekkju Ragnars Stefánssonar, bónda og þjóðgarðsvarðar, sem lést fyrir meira en aldarfjórðungi (1994), enda voru þau nánast óaðskiljanleg á meðan bæði lifðu. Þannig kynntist ég þeim í Hæðum Skaftafells síðsumars 1972 og síðan náið á meðan þjóðgarðurinn á fyrrum eignarjörð þeirra var í mótun.

Náttúruverndarráð hafði falið mér forystu fyrir Skaftafellsnefnd, en hlutverk hennar var að vinna að þróun þjóðgarðsins í samvinnu við fyrrum eigendur og nágranna austar í Öræfum. Reyndi í þeim efnum mest á þau Ragnar og Laufeyju. Ég gisti á heimili þeirra dögum saman þessi árin og get vottað að á milli þeirra var mikil eindrægni, samhliða einstakri gestrisni sem margir urðu aðnjótandi. Á heimilinu var þá lifandi Jón Stefánsson bróðir Ragnars og einkadóttirin Anna María í uppvexti (f. 1961). Laufey var eðlilega ráðandi innanhúss á þessu gestkvæma heimili en gekk jafnframt til annarra verka sem  óaðskiljanleg stoð bónda síns.

Þegar ég kvaddi Skaftafellsnefnd  og Náttúruverndarráð 1978 voru málefni þjóðgarðsins komin á þann rekspöl sem lengi hélst og síðar þróaðist sem meginstoð í Vatnajökulsþjóðgarði. Áfram kom ég oft við í Hæðum og síðar í Freysnesi og fylgdist með nýju landnámi þeirra hjóna og Önnu Maríu og eiginmanns í Freysnesi frá árinu 1987 að telja, þangað sem þau fluttu frá Skaftafelli haustið 1988. Kynnin héldu óslitið áfram eftir að Ragnar kvaddi og oft hef ég síðan gist í Freynesi við bestu aðstæður í ferðum milli landshluta. Öræfasveit komst yfir mikið breytingaskeið í krafti mannvals á síðustu öld. Enn reynir á styrkar stoðið í sambýli við eldfjallið mikla að húsabaki.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim