Magnús Ásmundsson
1927–2015

Magnús læknir fæddist á Eiðum, þar sem faðir hans, síðar guðfræðiprófessor og biskup,  var um skeið skólastjóri. Magnús átti að baki langan og farsælan starfsferil sem lyflæknir, kom víða við í starfi á námsárum í Svíþjóð og hérlendis, en lengst nutu krafta hans þrír staðir: Akranes, Akureyri og Neskaupstaður. Á síðastnefnda staðnum var hann starfandi sem yfirlæknir í lyflækningum árin  1983–1996 og varð það Fjórungssjúkrahúsinu þar mikið happ að fá hann sem fyrsta sérmenntaða lyflækninn til starfa. Á sama tíma var þar starfandi sem skurðlæknir Eggert Brekkan, einnig með sænskan bakgrunn, og var sjúkrahúsið á Norðfirði þá óvenju vel sett með festu í starfsmannahaldi. Árin með þessum heiðursmönnum við sjúkrahúsið eru einkar eftirminnileg, ólíkir sem þeir voru, en áttu báðir til léttan og gáskafullan húmor. Daglegar gönguferðir læknanna um plássið að loknum vinnudegi vöktu athygli og eru undirritaðri eftirminnilegar, sem og einstök skyldurækni, alúð og natni Magnúsar gagnvart sjúklingum sínum.
            Magnús ólst upp í stórum systkinahópi á guðræknu heimili en fór brátt sínar eigin götur, varð snemma róttækur í skoðunum og fylgdi þeim eftir af hreinskilni við hvern sem heyra vildi. Hann hafði áhuga á alþjóðamálum og bókmenntum og íslenskaði verk ýmissa öndvegishöfunda. Snemma tók hann ástfóstri við hugsjónina um esperantó sem alþjóðamál og var ólatur við að útbreiða það fagnaðarerindi, sótti einnig alþjóðaþing áhugamanna um þau efni.
            Í einkalífi var Magnús gæfumaður, eignaðist snemma eftirlifandi eiginkonu sína Katrínu Jónsdóttur að lífsförunaut og hóp fjölmenntaðra barna, sem sum hver fetuðu í spor föður síns í læknisfræði. Flest voru þau flogin úr hreiðri áður en þau hjón settust að í Neskaupstað nema yngri dóttirin Steinunn, en þar áttu börnin athvarf öðru hvoru á myndarlegu heimili foreldranna. Glaðværð og hjálpsemi einkenndi heimilið á Bakkabökkum, þar sem Kata stóð fyrir teboðum og margri eftirminnilegri samverustund kolleganna með mökum þeirra. Nú þegar Magnús er allur lifa góðar minningar og þakklátur hugur þeirra fjölmörgu sem hann aðstoðaði í löngu og farsælu starfi.

11. september 2015
Kristín og Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim