Magnús Hallgrímsson
1932–2020

Magnús Hallgrímsson verður eftirminnilegur þeim mörgu sem honum kynntust heima og erlendis. Fáir Íslendingar hafa skilið eftir sig slík spor sem hann í alþjóðlegu hjálparstarfi, en heimavettvangurinn naut hans líka í fjölmörgu samhengi. Ég minnist hans og Ólafs yngri bróður hans frá menntaskólaárum á Akureyri, en úr MA útskrifuðust þeir 1952 og 1953.  Ég var þá busi í heimavist og kynni við þá bræður urðu næsta lítil. Ég var þá líka grunlaus um skyldleika okkar gegnum móðurina Laufeyju og forföður hennar Stefán Gunnarsson í Stakkahlíð í Loðmundarfirði sem var langafabróðir minn . Magnús er þannig af ætt Þingeyingsins Skíða-Gunnars sem uppi var um 1800 , en hann var alþekktur fyrir vaskleika. Sá þráður skilaði sér ósvikið til Magnúsar.

Nánustu kynni mín af Magnúsi tengjast tveggja daga göngu okkar um Fljótsdalsheiði sumarið 1975 frá Hrafnkelsdal austur í Bessastaði. Hann vann þá á vegum Verkfræðistofunnar Hönnunar hf  að undirbúningi Bessastaðaárvirkjunar en ég að könnun á náttúrufari. Við vorum afar heppnir með veður, gengum á Þrælaháls og tjölduðum á hreindýraslóð austan Þórisstaðakvíslar. Við slíkar aðstæður ber margt á góma.
Seinna hittumst við helst á fundum og ráðstefnum í margvíslegu samhengi. Þar lét Magnús oft að sér kveða með skörpum athugasemdum og fyrirspurnum. Síðast lágu leiðir saman á aðalfundi Landverndar 2019 þar sem hann bar fram tillögu um forystu sem nú leiðir þau öflugu samtök

Það leyndi sér ekki síðustu árin að Magnús gekk líkamlega ekki heill til skógar en hugaraflið var óskert. Þessi víðförla hjálparhella lagði hvarvetna gott til mála og því minnast hans nú fjölmargir með þakklæti að leiðarlokum.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim