Nanna Sigurðardóttir
1920‒2017

Það var eftirminnileg stund að koma í Stafafell í fyrsta skipti sumarið 1966 og hitta þar fyrir frændfólk sem oft hafði verið rætt um á æskuheimili mínu á Hallormsstað, Sigurð Jónsson og dóttur hans Nönnu sem þar stóð fyrir búi ásamt eiginmanni sínum Ólafi Bergsveinssyni. Synir þeirra þrír voru þar einnig á vettvangi kornungir, fæddir á árunum 1958-1962. Af þeim hef ég síðar haft margvísleg og góð kynni. Faðir minn og Sigurður voru systrasynir, og við Nanna því þremenningar. Ömmur okkar, Margrét og Elísabet Sigurðardætur, skrifuðust reglulega á eftir að sú fyrrnefnda giftist séra Jóni Jónssyni og fluttist í Bjarnanes 1880 og síðar að Stafafelli. Bréf sem gengu á milli þeirra skiptu mörgum tugum og varpa skýru ljósi á hugarheim þeirra og hugðarefni. Sigurður faðir Nönnu hafði einu sinni komið í Hallormsstað í mínu minni, en leiðir á milli Lóns og Héraðs höfðu í raun lengst eftir að hestaferðir lögðust að mestu af, uns stopult akvegasamband komst á um Breiðdalsheiði og Lónsheiði nálægt miðri 20. öld.

Mér var strax afar vel tekið á Stafafelli og fræddist mikið af Sigurði um liðna tíð og sveitina, þar á meðal um Stafafellsfjöll og Lónsöræfi sem ég átti eftir að ferðast um árum saman í kjölfarið. Uppskera af þeim kynnum og samráði við eigendur Brekku í Lóni birtust í stofnun friðlands á Lónsöræfum árið 1977, en það er eitt fegursta náttúruverndarsvæði hérlendis.

Heima fyrir annaðist Nanna húsverk, barnauppeldi og símavörslu á meðan Stafafell var símstöð. Hún gaf sér þó alltaf góðan tima til að spjalla við gesti yfir kaffiveitingum. Ég greindi hjá henni ýmsa eiginleika og takta sem loðað hafa við föðurætt mína og hentum við stundum gaman að. Hún hafði lifandi áhuga á bókmenntum og kunni m.a. góð skil á verkum afa síns Jóns Jónssonar (1849-1920), sem var síðasti prestur á Stafafelli, skáldmæltur, mikill áhugamaður um íslensk fræði og alþingismaður Austur-Skaftfellinga um skeið. Ragnheiði móður Nönnu kynntist ég einnig eftir að hún háöldruð flutti á ný inn á heimili dóttur sinnar. Þar fór greind kona og gjörhugul sem lokið hafði kennaraprófi um tvítugt 1912. Hún náði því að verða hundrað ára og litlu munaði að Nanna fylgdi í fótspor hennar með langlífi.

Við Kristín heimsóttum Nönnu síðast á hjúkrunarheimilið á Höfn fyrir tveimur árum. Hún naut þar góðrar umönnunar til hinstu stundar. Ólafi, sonum og öðrum aðstandendum sendum við samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim