Ólafur G. Einarsson
1932–2023

Við Ólafur G. Einarsson þekktumst allt frá menntaskólaárum okkar á Akureyri upp úr 1950 og leiðir okkar lágu síðar víða saman allt til síðustu aldamóta. Viðhorf okkar til samtímans voru um margt ólík sem endurspeglast m.a. í því að við störfuðum hvor í sínum stjórnmálaflokki, hann innan Sjálfstæðisflokksins en ég í Alþýðubandalaginu. Báðir áttum við rætur fjarri höfuðstaðnum, hann nyrðra en ég eystra. Slíkur uppruni og fjölbreytt kynni setja óhjákvæmilega mark sitt á einstaklinga og það átti einnig við um Rögnu eiginkonu Ólafs sem var Vestfirðingur að uppruna. Þau gengu í hjónaband um jólin 1955. Svo vildi til að við Ragna störfuðum bæði á Raforkumálaskrifstofunni fyrri hluta árs 1956, sem átti eflaust þátt í því að við Ólafur G réðumst báðir í vinnu við landmælingar á hálendi Íslands undir verkstjórn Steingríms Pálssonar vorið og sumarið 1956. Við Ólafur deildum með okkur tjaldi, fyrst í Þjórsárdal og síðan í Illugaveri á Tungnáröræfum. Þar var saman kominn líflegur og eftirminnilegur hópur sem rifjaði upp gömul kynni í hálendisferð um svipaðar slóðir í ágúst 1999.

Óvænt lágu leiðir okkar saman á Alþingi eftir þingkosningar 1978, Ólafur var þá búinn að sitja á þingi í sjö ár, en ég var nýr á óvæntum vettvangi og byrjaði störf sem ráðherra í Arnarhvoli áður en þing kom saman um haustið. – Ólafur hélt sig fjarri liðsveit Gunnars Thoroddsens og gerðist formaður þingflokks Sjálfstæðismanna í 12 ár til 1991 að hans beið ráðherrastarf. Leiðir okkar lágu saman í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1988 og á sama tíma í Þingvallanefnd, þar sem ég hafði áður starfað um langt skeið og gengið var frá fyrsta skipulagi þjóðgarðsins 1988. Engir eftirminnilegir hnökrar reyndust þá í samskiptum okkar, né heldur á 10. áratugnum, þar sem þingsetu okkar beggja lauk vorið 1999. Ég hygg að Ólafur hafi verið mannasættir á sínum vettvangi og ekki baráttumaður fyrir miklum samfélagsbreytingum. Samskipti okkar voru á heildina litið farsæl.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim