Ólafur Ólafsson landlæknir
1928–2022

Við Ólafur landlæknir þekktumst  frá þeim tíma að hann tók við því embætti haustið 1972. Hann kom þá fljótlega á fund Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi sem haldinn var í Neskaupstað og gerði grein fyrir sýn sinni til heilbrigðismála. Hann var óhefðbundinn í ræðustól og ég man eftir að Eysteinn Jónsson þá forseti Sameinaðs þings hafði orð á hversu líkur hann væri föður sínum. Tengsl mín við heilbrigðissviðið voru alla tíð veruleg vegna starfa konu minnar við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og síðar í margháttuðu samhengi á Alþingi í tvo áratugi á meðan Ólafur gegndi sínu starfi sem landlæknir. Viðveru hans var mjög oft óskað í nefndum þingsins þegar heilbrigðismál og margt sem þeim tengdist var til skoðunar. Þar var einstaklega gott til Ólafs að leita, bæði vegna fjölþættrar reynslu hans og víðtækrar menntunar. Á þessum áratugum brunnu heilbrigðismálin á fólki um allt land, m.a. á Austurlandi, þar sem samgönguerfiðleikar gerðu oft erfitt fyrir um þjónustu. Sem landlæknir með afar víðtæka reynslu lagði Ólafur jafnan gott til mála. Fyrir störf sín að heilbrigðismálum og sem landlæknir í röskan aldarfjórðung á hann miklar þakkir skyldar. Léttleiki hans og gamansemi í daglegum kynnum bættu síðan um betur og settu mark sitt á samræður við hann eftir að embættistörfum lauk. Slíkra samferðamanna er gott að minnast.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim