Ormar Þór Guðmundsson
1935–2024

Við Ormar Þór vorum frændur, og áttum lengi vel mikil samskipti. Pálína Þorsteinsdóttir móðir hans var frá Stöðvarfirði og ólst þar upp hjá afabróður mínum séra Guttormi Vigfússyni í Stöð. Leiðir okkar lágu þó fyrst saman í Berlín á háskólaárum beggja í Þýskalandi, þangað sem við sóttum kvonföng okkar, hvor sínum megin járntjald þess tíma. Ásamt Örnólfi Hall stofnaði Ormar arkitektastofu í Reykjavík 1966 sem ég ásamt fleirum átti eftir að eiga mikil samskipti við vegna þróunar framhaldsskóla á Austurlandi, fyrst í Neskaupstað og síðar á Egilsstöðum. Jafnframt var arkitektastofa þeirra félaga ráðin til að teikna stóra nýbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað sem skipti sköpun fyrir þróun spítalans.

Um 1970 var tekist á um staðsetningu menntaskóla á Austurlandi, og var honum brátt valinn staður á Egilsstöðum. Að beiðni Magnúsar Torfa þáverandi menntamálaráðherra tók ég að mér forystu fyrir bygginganefnd þess skóla uns hann tók til starfa árið 1979. Réði nefndin þá Ormar Þór og Örnólf til að vinna að þróun bygginga fyrir menntaskólann, sem í aðalatriðum eru nú kennsluhúsnæði hans ásamt með heimavist.

Ormar Þór lauk arkitektanámi sínu í Bandaríkjunum við Harvard-háskólann í Cambridge. Að hans ráði og með leyfi ráðuneytisins fórum við þrír í kynnisferð þangað haustið 1973, skoðuðum marga skóla og tengd mannvirki. Þetta var óvenjuleg og ógleymanleg ferð, og fylgdi skýrsla til ráðneytisins.

Allan sjöunda áratuginn vorum við Ormar í nánu sambandi vegna byggingaframkvæmda, en skólameistari ME var fyrst ráðinn 1978 er nálgaðist upphaf kennslu við skólann. Ormar var mikill ljúflingur og góð tengsl héldust með honum og fjölskyldum okkar fram á efri ár. Þau Kristín eignuðust stóran og mannvænlegan hóp barna, sem sjá nú á eftir gjöfulum föður við leiðarlok hans. Kristínu eiginkonu Ormars og öllum afkomendum sendun við Kristín kona mín innilegar samúðarkveðjur

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim