Örn Þorleifsson
1938–2017

Örn í Húsey verður eftirminnilegur þeim sem honum kynntust vegna ríkulegra mannkosta, hlýlegs viðmóts og víðtækrar þekkingar á náttúrufari og aðstæðum á Úthéraði. Leiðir okkar lágu fyrst saman á sjöunda áratug liðinnar aldar þegar hann gegndi starfi búnaðarráðunauts á Héraði, en undir það var hann vel búinn eftir kandídatspróf frá Hvanneyri. Hann átti gott samstarf við marga, m.a. eldri starfsbróður sinn Pál Sigbjörnsson frá Rauðholti og vitnaði oft til hans. Sjálfur var hann vel undir það búinn að gerast bóndi og Húsey varð hans vettvangur eftir að hann um 1970 kvæntist Elsu Árnadóttur heimasætu þar, en saman eignuðust þau þrjú börn og Elsa átti dóttur fyrir. Sauðfé og geldneyti var uppistaðan í búskap þeirra í fyrstu en eftir áratug bættist ferðaþjónusta við með nýtingu á eldra íbúðarhúsi í Austurbæ, jarðarparti sem kominn var í eyði. Sú starfsemi hefur haldist þar síðan og dregið að sér gesti víða að úr veröldinni, sem kunna vel að meta fjölbreytta náttúru Húseyjar.

Sem ferðabóndi og gestgjafi naut Örn sín einstaklega vel, gjörkunnugur lífríki Húseyjar og vel mæltur á erlend mál, einkum þýsku. Móðir hans Annie Chaloupek var af austurrísku bergi brotin og fylgdi eiginmanni sínum Þorleifi Þórðarsyni síðar forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins til Íslands. Hún var góður söngvari en féll frá í blóma lífsins innan við fertugt. Eftir að sauðfjárbúskap var hætt í Húsey var hestum fjölgað og bóndinn reið út með gesti sína um eyna og sýndi þeim seli, fugla og ref og stundum bættust við hópar hreindýra. – Elsa vann oft utan heimilis, m.a. í Brúarásskóla, og þar kenndi Örn um árabil eftir að hafa aflað sér réttinda, síðar einnig í Fellaskóla. Svo fór að leiðir þeirra skildu eftir að börnin voru uppkomin.

Undir aldamót eignaðist Örn annan lífsförunaut, frænku mína Laufeyju Ólafsdóttur unga að aldri. Saman hafa þau af miklum dugnaði haldið uppi merki Húseyjar og eignast tvö mannvænleg börn sem nú feta menntaveginn. Það var einkar ánægjulegt að heimsækja þau hjón og fræðast af þeim um umhverfið. Örn gaf mér traust vegarnesti við vinnu að árbók um Úthérað og las yfir texta. Áhugi hans á verndun þessa viðkvæma umhverfis var brennandi. Síðast hittumst við í fyrrasumar á samráðsfundi um uppbyggingu fræðaseturs á Hjaltastað til eflingar rannsóknum og verndun fjölbreyttrar náttúru á svæði þar sem byggð hefur verið á undanhaldi. Með starfi sínu að fræðslu og ferðaþjónustu hefur hann vísað veginn til breyttrar nýtingar á þeim mörgu kostum sem Úthérað býr yfir. – Við Kristín sendum Laufeyju og börnunum sem og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim