Páll Flygenring Fyrstu kynni okkar Páls Flygenring voru 1. september 1978, daginn sem ný ríkisstjórn tók við eftir langvinnar fæðingarhríðir að loknum vorkosningum. Hann hafði þá gegnt starfi ráðuneytisstjóra í iðnaðarráðuneytinu í rúmt ár, annar í röðinni frá því stofnað var sjálfstætt ráðuneyti iðnaðar- og orkumála 1970. Þar var þá fámennt en góðmennt innan dyra, og átti eftir að fjölga með auknum verkefnum næstu árin. Páll stýrði sínu liði af hógværð og samviskusemi og auðveldaði honum létt lund og eðlislæg glaðværð. Við komum að viðfangsefnum ráðuneytisins úr ólíkum áttum í upphafi, hann reyndur verkfræðingur sem unnið hafði m.a. hjá Landsvirkjun áður en hann kom í ráðuneytið, ég óræð stærð utan af landi sem nálgast hafi málaflokkinn um sex ára skeið sem einn af fulltrúum Náttúruverndarráðs í samstarfsnefnd um iðnaðar- og orkumál, svokallaðri SINO-nefnd. Páll fylgdi mér til Stokkhólms á fund iðnaðarráðherra Norðurlanda þá um haustið og gafst í þeirri ferð færi á að bera saman bækur. Á leiðinni frá Arlanda-flugvelli uppgötvuðum við að sjónarhornin voru dálítið ólík, Páll var upptekinn af raflínum og byggingum sem bar fyrir augu, en ég spáði í mismunandi trjátegundir utan við lestargluggann. Þetta voru ólgutímar á málasviði iðnaðarráðuneytisins, bæði hér heima og alþjóðlega, og átti mikil hækkun olíuverðs þátt í því, svo og aðlögun samkeppnisiðnaðar að fríverslun. Þessu fylgdu miklar breytingar, m.a. í skipulagi raforkumála þar sem starfsemi Landsvirkjunar var færð út til landsins alls. Páll tók drjúgan þátt í aðlögun ráðuneytisins að breyttum verkefnum og ráðningu nýrra starfsmanna til að sinna þeim. Innan ráðuneytisins var mikill mannauður þessi árin og eflaust síðar. Stefna ráðherrans var pólitískt umdeild þau 5 ár sem ég kom þar við sögu og risu öldur hæst vegna verðlagningar á orku til stóriðju og deilumála við Alusuisse út af „hækkun í hafi“ á aðföngum til álbræðslunnar í Straumsvík. Þrátt fyrir þetta hélst góður starfsandi á vinnustaðnum og átti ráðuneytisstjórinn ómældan þátt í því. Páll var gæfumaður í einkalífi með Þóru skáldkonu sér við hlið með sínar djúpu rætur í íslenskri þjóðmenningu. Það var ánægjulegt þá og síðar að koma á heimili þeirra hjóna og nærast af því andrúmslofti sem þar ríkti. Af börnum þeirra kynntist ég yngstu dótturinni Elínu, sem veitti mér drjúga aðstoð þegar kom að þátttöku í Norðurlandaráði á 10. áratugnum. Hjörleifur Guttormsson |