Páll Sigurðsson
1925 – 2020

Sem alþingismaður átti ég þess kost að kynnast mörgu eftirminnilegu fólki úr stjórnkerfinu sem komið hafði að undirbúningi mála sem rötuðu inn á Alþing. Í þeim hópi var Páll Sigurðsson læknir og ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins í aldarfjórðung. Hann var mikil kjölfesta í ráðuneyti þar sem margir ráðherrar og embættismenn gengu um garða á hans langa og farsæla starfstíma. Páll hafði víðtæka þekkingu á heilbrigðismálum sem læknir, sérmenntaður í lýðheilsufræðum erlendis frá. Fyrir þingmann af Austurlandi var að mörgu að hyggja á þessu sviði auk þess sem ég hafði áhuga á málaflokknum. Páll var reynslubrunnur og ætíð ráðagóður þegar til hans var leitað. Ég minnist m.a. samstarfs við hann vegna heilbrigðissáætlunar 1990, en ég var þá formaður í félagsmálanefnd Sameinaðs Alþingis fyrir afnám deildaskiptingar. Konu Páls, Guðrúnu Jónsdóttur geðlækni, kynntumst við Kristín einnig, m.a. á vettvangi Öldungadeildar Læknafélags Íslands og í ferðalögum. Þau hjón voru einstaklega skemmtilegir viðmælendur, glaðleg og höfðingleg  í viðmóti. Nú hafa þau bæði kvatt á tíræðisaldri. Þeirra er gott að minnast. Afkomendum þeirra sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim