Pálmi Jónsson
1929 – 2017

Kynni okkar Pálma á Akri hófust stuttu eftir að ég var kosinn á Alþing 1978. Hann hafði þá setið á þingi í röskan áratug, bóndi á föðurleifð og fékk stjórnmála- og félagsmálaáhuga nánast í vöggugjöf. Það vildi svo til að ég tók við ráðuneyti iðnaðar- og orkumála í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar um haustið, en Pálmi hafði þá nýlega verið kjörinn formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, verkefni sem hann gegndi með þingmennsku til 1990. Við höfðum af þeim sökum strax veður hvor af öðrum, þótt Pálmi væri þá í stjórnarandstöðu. Það breyttist þegar mynduð var ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 8. febrúar 1980 þar sem hann tók sæti landbúnaðarráðherra. Aðdragandi þeirrar stjórnarmyndunar í kjölfar kosninga og langvinnrar stjórnarkreppu var sögulegur og ríkti mikil spenna samfara óvissu um hvern stuðning Gunnar Thoroddsen fengi úr þingmannahópi Sjálfstæðisflokksins. Gunnar boðaði fulltrúa Framsóknarflokks og Alþýðubandalags til fyrsta viðræðufundar 3. febrúar að Laugavegi 18 og með honum birtist þá aðeins Eggert Haukdal. Pálmi mætti fyrst til leiks tveimur dögum síðar, þá „án skuldbindinga um stuðning“ við stjórnarmyndunina eftir því sem ég hef skráð í dagbók mína. Það breyttist á næstu dögum. Stjórnarsamstarfið  sem entist á fjórða ár var brátt innsiglað og Pálmi reyndist þar traustur liðsmaður á hverju sem gekk. Mörg flókin mál voru þá á dagskrá, m.a. tengd Norðvesturkjördæmi. Þar bar hæst undirbúning að umdeildri Blönduvirkjun, en einnig komst þá á laggirnar Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki sem enn starfar. Ég minnist góðrar samvinnu þá og síðar við Pálma, sem reyndist maður starfsamur og orðheldinn. Létt lund auðveldaði honum samskipti við aðra þingmenn þvert á flokka og heima fyrir átti hann öruggt skjól frá erli stjórnmálabaráttunnar. Pálmi er einn af mörgum sem gott er að minnast af vettvangi Alþingis þessa áratugi sem við áttum þar sæti saman. Helgu og börnum þeirra hjóna sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim